Í gamla daga var ég áskrifandi að Æskunni. Þegar ég fletti í gegnum blaðið í huganum, kemur í ljós að það virðist alltaf hafa fylgt sömu formúlunni. Þessari hér:
Forsíða
Mynd af einhverjum krökkum sem voru að leika í leikriti.
Aðalviðtal
Talað við krakkana á forsíðunni. Lífið í leikhúsinu virtist vera spennandi, en þó var það líka strembið. Frægðin virtist ekki stíga þeim til höfuðs.
Þrautir
Stafarugl, völundarhús og ,,finndu þessi orð, í þessu bókstafaneti"-þraut. Sérstaklega skemmtilegar voru myndgáturnar, þar sem maður átti að finna fimm villur. Reyndar ekki jafnskemmtileg og þessi, en þær voru samt mjög góðar.
Tónlistarumfjöllun
Allar heitustu stjörnurnar teknar fyrir. Ég skildi aldrei neitt í þessum dálki, ekki nema þeir væru að tala um Michael Jackson. Þá var ég með á nótunum.
Annars var einhvers konar hreintungustefna í gangi hjá ritstjórninni og hetjan mín fékk hið gamalgróna ramm-íslenzka nafn: Mikjáll Jakobsson. Það fannst mér svívirða. Og einhverra hluta vegna var Bruce Springsteen alltaf kallaður Brúsi frændi. Enn þann dag í dag klóra ég mér í kollinum yfir þessu nafni. Brúsi frændi...
Ég man líka, að mér fannst Madonna og Prince flott. Samt hafði ég ekki heyrt neitt eftir þau. Þau höfðuðu bara vel til manns. En svo var stundum talað um einhverja hljómsveit sem hét The Smiths. Af myndunum að dæma, voru þessir menn augljóslega algjörir dólgar. Komust ekki með tærnar þar sem Prince og Madonna höfðu hælana.
Kæra hjálp
Einhvern veginn virtust allir hafa sama vandamálið. Þeir voru skotnir í einhverri stelpu (eða öfugt), en vissu ekki hvort ástin væri gagnkvæm. Það var líka alltaf mjög mikilvægt að þessari mjög svo áleitnu spurningu yrði svarað sem fyrst.
Draumaprisinn/-prinsessan
Þennan dálk las maður vandlega. Allir draumaprinsarnir virtust vera skolhærðir og utan af landi. Skolhærðir? Hvaða litur var það? Ég hafði ekki hugmynd. Og sumir voru meira að segja með strípur, hvað svosem það nú þýddi...
Sjálfur gerðist ég aldrei svo frægur að rata inn á þessa blaðsíðu, enda var ég bara dökkhærður Reykvíkingur. Uss... En ég man að skólabróðir minn Óttar var þarna einu sinn. Þá var mikið skrafað um það hver leyniaðdáandinn var. Var það Guðný? Tinna? Eða var það kannski hann sjálfur? Hver veit?
Annars er maður aldrei of seinn. Ég sé fyrir mér næsta tölublað:
Draumaprinsinn minn er dökkhærður, grannvaxinn og heitir Jói Ben. Hann er 26 ára gamall og er fæddur í hrútsmerkinu. Hann spilaði fótbolta með Val þegar hann var lítill og vann einu sinni bikar fyrir framúrskarandi árangur í knattþrautum Coca-Cola.Þá yrði ég voða glaður. Og svo kæmu pælingarnar: Hvað þýða þessi ,,x"? Fyrst eru þau fjögur, svo tíu. Kannski Anna Guðnadóttir? Nei, það eru fjórir og ellefu. Jú, þetta gæti gerst.
Kveðja,
Xxxx Xxxxxxxxxx
Kalli í knattspyrnu
Þetta var uppáhaldshlutinn minn. Teiknimyndasagan um Kalla. Hann var breskur millistéttardrengur sem ólst upp hjá gamalli frænku sinni. Hann hafði mikinn áhuga á fótbolta og snerust sögurnar að miklu leyti um það. Einn daginn fann hann rykfallna takkaskó í kassa uppi á lofti. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þetta voru gömlu skórnir hans Hemma Gunn. Þegar Kalli mátaði skóna, voru þeir þeirrar náttúru, að þeir gátu stjórnað honum; voru alltaf að láta hann gera eitthvað sem hann vildi ekki gera. Til dæmis að hlaupa upp hægri kantinn. Kalli vissi að það var rangt, en samt fannst honum hann þurfa að hlaupa þangað. Það var eins og að skórnir vildu að hann færi þangað. Hann fylgdi hugboðinu, fékk draumasendingu upp kantinn og skoraði.
Það var samt eitt sem ég skildi aldrei. Takkaskórnir hans Hemma Gunn. Af hverju voru þeir eitthvað merkilegri en aðrir takkaskór? Þeir gleymdu nefnilega að segja frá því, að Hemmi hafi verið íþróttahetja og mikill markakóngur í gamla daga. Í mínum augum var hann bara hress gæi í sjónvarpinu. Hvað er merkilegt við takkaskóna hans?
En nú dettur mér annað í hug. Hvað ef Kalli hefði fundið djamm-skóna hans Hemma? Hefði hann þá fengið hugboð um að kíkja út á lífið? Hann vissi, að það var rangt. En einhverra hluta vegna fannst Kalla hann þurfa að fara á barinn. Það var eins og að skórnir vildu að hann færi þangað. Hann elti þetta hugboð, sem endaði auðvitað með því að hann skoraði. Hahaha! Ég er svo fyndinn!
Baksíða: Jón Páll að auglýsa Svala.
Einhvern veginn svona blasir þetta barnablað við mér, rifið upp úr kommóðu minninganna.
<< Home