Um daginn bankaði maður uppá hjá mér og rétti mér bréf. Ég spurði um innihaldið, en hann forðaði sér bara. Þetta var krafa frá skattinum. Árið 2004 hafði ég ekki borgað í lífeyrissjóð og nú var komið að skuldadögum. Þetta voru litlar 125.000 kr, sem ég hafði ekki hugmynd um að ég skuldaði. Og reyndar skuldaði ég bara helming í lífeyrissjóð, restin af kröfunni voru einhver formsatriðagjöld sem höfðu hrannast upp með tímanum. Stærsti hlutinn fór þó í þóknun lögfræðingsins. Það kostar víst 35.000 kall að afhenda svona bréf.
Ég hringdi út um allan bæ og hellti úr skálum reiði minnar, en allt kom fyrir ekki. Krafan stendur. Einhvern veginn svona var samtalið við skattinn:
- En af hverju létuð þið mig ekki vita?
- Af því að þú varst skráður í Danmörku. Við náðum ekki í þig.
- En af hverju senduð þið ekki póstinn heim til foreldra minna (eins og allir aðrir gerðu á þessum tíma)?
- Foreldra þinna? Hvernig áttum við að vita að við áttum að senda póstinn þangað? Þú tilkynntir það ekki til Þjóðskrár.
Átti maður að gera það? Hugsaði ég.
- En af hverju reynduð þið ekki að hafa upp á mér áður en þetta fór í kröfu? Það er hægt, til dæmis með að senda bréf á síðasta skráða heimilisfang. Eða með því að fletta mér upp í símaskrá. Eða með því að slá mig upp á netinu. Eða með nokkrum símtölum... Það hefði sparað mér meiri hlutann af upphæðinni.
- Það er mikið að gera hjá okkur, við getur ekki endalaust verið að þefa fólk uppi. Við fáum okkar upplýsingar úr Þjóðskrá.
Þú ert bjáni, hugsaði ég og hreytti í hann einhverjum bituryrðum. Svo lauk þessu ágæta samtali.
Af hverju ætti mér ekki að vera sama þó að þeir hafi mikið að gera? Þeir eiga að gefa sér tíma til að vinna vinnuna sína, áður en þeir læðast aftan að fólki með 125.000 kr kröfu. Og ef þeir geta það ekki, skal ég taka þetta djobb að mér. Ég tek 30.000 kall fyrir hvern einstakling, í staðinn fyrir 35.000 kallinn sem þeir borga lögfræðingum fyrir að reka erindið. Það hefði tekið mig ~ 5 mínútur að hafa upp á manni í sambærilegri stöðu og ég var.
Já, og lögfræðingar! Þeir eru sannarlega vondir menn. Svo ljótar sálir. Ég sé fyrir mér, að þeir endurfæðist í næsta lífi sem tjara. Jebb. Sem tjara! Svört og slepjuleg, rétt eins og innræti þeirra. Þegar ég hringdi í lögfræðistofuna, sem sér um innheimtuna, fékk ég alltaf þetta svar: Ég er bara að vinna vinnuna mína. Sorrý. En ég var að velta þessu fyrir mér. Þeir sem reka fólskuleg erindi fyrir aðra menn - eru þeir ekki fól sjálfir? Rétt eins og handrukkarar. Er hægt að réttlæta framferði þeirra á nokkurn hátt, þ.e.a.s. öðruvísi en að þeir séu með skerta siðferðiskennd og svona hagar þannig fólk sér. Nei, ég spyr.
Æ, þetta er ekki nógu gott. Og það sem er asnalegast af þessu öllu, er að það er lífeyrissjóðurinn sem stingur mig í bakið. Ég hélt að hann ætti að hjálpa mér. Bjarga mér frá vergangi, frekar en að senda mig þangað. Þetta á ekki að vera svona.
(Ég er hérmeð formlega orðinn nöldurbloggari. Hér eftir kemur ekkert skemmtilegt frá mér. Bara nöldur og kvein. Ok? Ok!)
<< Home