föstudagur

Grín í boði Framsóknarflokksins

Á síðunni www.afstada.is er fólki boðið að taka próf, til þess að sjá hvernig það stendur í stjórnmálum. Ég tók þetta próf og kom í ljós, að ég er Framsóknarmaður í húð og hár. Það er ekki rétt.

Vinur minn sem benti mér á þetta próf, sagði að hann hefði heyrt að vefurinn væri rekinn af Framsóknarmönnum. Ekki veit ég hvað er rétt í því, en það kæmi mér ekki á óvart.

Ég reyndi hvað ég gat að hafa upp á forsvarsmönnum vefjarins, en enginn virtist bera ábyrgð á þessu prófi. Það finnst mér renna ennfrekari stoðum undir það, að prófið sé brella; að spurningarnar hafi verið valdar og matreiddar að illa þokkuðum Framsóknarmönnum. En, hvað veit ég. Það þarf ekkert að vera.

En bíðum hæg. Svo var ég að skoða heimasíður frambjóðenda og rakst á klausu hér til hliðar á síðu Björns Inga hjá exbé. Hmm... Þetta er frekar skrýtið. Mér er sagt að heitasta vefsíðan á Netinu, sé þessi afstöðuprófsíða. Þetta hljómar eitthvað svo rangt. Hann þykist alveg koma af fjöllum. Svo skorar hann á fólk að taka prófið í næstu setningu. Hann er sleipur og slepjulegur. Og umfram allt heitasti frambjóðandinn.

Af vefsíðu Birgis Gunnarssonar má sjá eftirfarandi mynd:

Þetta er samanburður skulda Kópavogs og Reykjavíkur. Hér eru bornir saman einstaklingar, þannig að ég skulda semsagt 1,043 milljónir bara af því að ég bý í Reykjavík. Þetta er ekki gott, og skal Reykjavíkurlistinn hérmeð víttur fyrir slaka og óábyrga fjármálastjórn. En jæja, hvað um það. Á morgun eru kosningar, þá er hægt að velja einhvern annan í stjórn.

Maður myndi ætla, að nú þyrfti að halda vel á spöðunum. Að algert forgangsatriði nýrrar stjórnar sé að vera ábyrg í peningamálum og meitla sérhverja ákvörðun með skynsemi. En það virðast ekki allir sammála um það.

Skoðum Framsóknarflokkinn, sem mér er sagt að sé heitasti flokkurinn í dag. Hann hefur eftirfarandi stefnumál (þeir mættu nú alveg vanda sig betur við framsetningu textans), gróflega áætlaður kostnaður er í sviga fyrir aftan hvert mál:
  1. Sundabraut: Botngöng á ytri leið. Fjórar akreinar alla leið upp á Kjalarnes (~ 3 milljaraðar, borið saman við Hvalfjarðargöngin sem kostuðu 5 milljarða).
  2. 50 þúsund króna mánaðargreiðslur til foreldra barna á aldrinum 9 - 18 mánaða (<0.1>
  3. Öll börn í borginni, 5 til 18 ára, fái frístundakort að upphæð 40 þúsund krónur á ári sem renni til íþrótta- og tómstundaiðkunar (~0.5 milljarðar á ári)
  4. Flugvöllurinn færður út á Lönguskerin (~ 20 milljarðar, skv Samgönguráðuneytinu)
  5. Ókeypis verði í strætó fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja (~ 0.8 milljarðar á ári)
  6. Sérstakt átak verði gert í bílastæðamálum miðborgarinnar og lækka stöðumælasektarnar (hmm...)
  7. Gjaldfrjáls leikskóli fyrir öll börn frá 18 mánaða aldri (~ 1 milljarður á ári)

Þetta eru náttúrulega bara grófar tölur, en ætti að vera ágæt nálgun á stærðargráðu peninganna sem Framsóknarmenn lofa að eyða, ef maður bara kýs þá. Árleg eyðsla næstu fjögur árin er því: 8,15 milljarðar. Þetta kemur ofan á núverandi skuldastöðu borgarsjóðs (104 milljarða skuld, skv. Davíð Ingimars). Þannig að í staðinn fyrir að skulda 1,043 milljónir, mun ég skulda 1,123 milljónir eftir eitt ár og 1,363 milljónir eftir fjögur ár. Og þá er ekki tekið með í reikninginn öll hin loforðin, þannig að öllum líkindum á þessi tala eftir að hækka. Æði.

En jæja. Mig langaði að lokum aðeins að drepa á hvernig Framsóknarmenn hyggjast tækla forvarnarstarf. Þetta er tekið orðrétt af síðunni þeirra.

Forvarnir

B-listinn leggur áherslu á forvarnir sem stuðla að því að öll börn og ungmenni í Reykjavík alist upp við aðstæður og umhverfi sem eflir sjálfstraust þeirra og sjálfsmynd, sem einkennist af samkennd og býr yfir viðeigandi stuðningsúrræðum þegar þörf krefur.

Hvað þýðir þetta eiginlega? Þetta er bara umræðupólítík og innantómt fagurgal af hæsta klassa.