miðvikudagur

Fyrir um hálfum mánuði síðan frömdu þrír fangar sjálfsmorð í Gúantanamó fangabúðunum. Gegndrepa af hroka og mannfyrirlitningu, lýsti yfirmaður búðanna því yfir, að þarna hafi verið á ferðinni „óhefðbundnar hernaðaraðgerðir“; einhvers konar áróðursbrella af hálfu fanganna; hafa líklega viljað vekja athygli á sér. Og útgangspunktur hans virtist vera: Við skulum ekki gera mál úr þessu. Gerum þessum athyglissjúku föngum það ekki til geðs. Ef við gerðum það, þá hafa þeir náð takmarkinu sínu.

Svo núna, er búið að birta
niðurstöðu læknarannsóknar sem gerð var fyrr í mánuðinum. Hún sannaði að fangarnir voru ekki þunglyndir. Og það rennir stoðum undir kenningar yfirmannsins, segir læknir búðanna. Að „pólitískar ástæður“ hafi rekið þá í gröfina - ekki ill meðferð.


Pólitískar ástæður [1]. Já, ég skal ekki segja. Vafalaust er það að einhverju leyti rétt hjá þeim. Þetta eru samantekin ráð. Það fer ekki á milli mála. Það fer heldur ekki á milli mála, að þrjú sjálfsmorð eru meira áberandi en eitt. En að sama skapi, finnst mér það deginum ljósara að þetta afleiðing örvæntingar fanganna. Þeir eru búnir að vera þarna í um fimm ár, í fullkominni óvissu um hve lengi í viðbót þeir mun þurfa að dúsa þarna [2]. Auðvitað líður þessum mönnum ömurlega og sumir þeirra hljóta að vera komnir á heljarþröm. Það er ekkert undarlegt að þeir grípi til örþrifaráða.


Og þá er það aðalspurningin (og spurningin sem yfirmaður búðanna ætti að spyrja sjálfan sig): Hefðu þessir menn svipt sig lífi, ef þeir hefðu fengið sanngjarna málsmeðferð og möguleikann á að afplána dóm sinn með reisn? Ég er viss um að þeir hefðu ekki gert það [3].


[1]
Pæling: Ef þetta voru pólitískar ástæður, þá dóu þessir vesalings menn fyrir einhvern pólitískan málstað. Sem hlýtur að gera þá að píslarvottum. En auðvitað er ekki fjallað um þá sem slíka (sem væri reyndar fáránlegt).

Önnur pæling: Verða menn píslarvottar bara ef þeir deyja fyrir málstað sem allir eru sammála um að sé göfugur? Og það sama gildir um hryðjuverkamenn. Þeir eru kallaðir skæruliðar ef málstaður þeirra er talinn vera göfugur. Það voru alltaf skæruliðar í Téténíu fram að 11. september 2005. En svo breyttust þeir í hryðjuverkamenn.

Mogginn á oft erfitt með að ákveða sig hvort kalla eigi einhver hryðjuverkamann eða skæruliða (aðallega í tengslum við Palestínu). Þá kallar hann viðkomandi yfirleitt vígamann. Það er skemmtilega hlutlaus nálgun á viðkomandi mann, hann er einhvers staðar mitt á milli þess að vera hryðjuverkamaður og skæruliði.


[2]
Einhvers staðar las ég, að á daginn hírist þeir í búrum gerðum úr hænsnaneti. Þá er búið að takmarka helstu skynfærin, með því að binda fyrir augu þeirra, eyru og munn. Og svo kæmi það mér ekki á óvart, ef fangaverðirnir stunduðu níðingsleg og niðurlægjandi vinnubrög - eins og starfsbræður þeirra í Írak gerðu (og Dick Cheney vildi færa í lög, þegar hann talaði máli pyndinga). En hvað veit maður.


[3]

Talsmaður herstöðvarinnar lýsti því yfir í fyrra, að 36 sjálfmorð hefðu verið reynd af 22 föngum (#). Þetta hljóta að vera lægri mörk á fjölda sjálfsmorðstilrauna. En gefum okkur, að þetta sé rétt tala, þýðir það að 5% fanga við Gúantanamóbúðirnar hafa reynt sjálfsmorð. Það er frekar mikið.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þú ættir kannski að checka á þessari mynd:
The Road to Guantanamo.
Á víst að vera nokkuð góð mynd.

fimmtudagur, 29 júní, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

"Hefðu þessir menn svipt sig lífi, ef þeir hefðu fengið sanngjarna málsmeðferð og möguleikann á að afplána dóm sinn með reisn?"

Þessir menn hafa ekki verið dæmdir fyrir neitt. Þeir hafa ekki einu sinni verið ákærðir. Í því felst mesta óréttlætið.
Meðal þeirra sem eru í Guantanamo er myndatökumaður fyrir Al-Jazeera sem hefur verið ítrekað pyntaður til að skrifa undir játningar þess efnis að það séu tengsl milli Al-Jazeera og Al-Qaeda. Hnéð á honum var mölbrotið af hermanni stuttu eftir að hann kom til búðanna en hann fékk ekki að hitta lækni fyrr en nokkrum mánuðum seinna, sem þýðir að ef hann sleppur nokkurn tíma út, mun hann vera bæklaður fyrir lífstíð og ekki geta gengið óstuddur. (Ég er ekki viss um hvort hann er ennþá fangi eða hvort honum hafi verið sleppt).

Það sem einnig er algengur misskilningur er, að þetta séu allt hryðjuverkamenn/skæruliðar/vígamenn frá Afganistan. Stór hluti þeirra sem sitja á Guantanamo eru evrópskir ríkisborgarar sem voru handteknir á flugvöllum víðsvegar um Evrópu og framseldir Bandaríkjamönnum. Meðal þeirra er þýskur verkamaður (og múslimi) sem fór til Gtmo í sjö mánuði, var pyntaður og síðan sleppt lausum. Fjölskylda hans vissi ekkert um afdrif hans, héldu að hann væri dauður og þegar hann kom heim hafði hann glatað vinnunni.

Af þeim rúmlega 750 mönnum (þeirra á meðal nokkrir undir 18 ára aldri, yngstur þeirra 15 ára drengur) hefur rúmlega 200 manns verið sleppt úr haldi án afsökunar eða neinna eftirmála af hálfu Bandaríkjastjórnar. Helstu rök Bush-stjórnarinnar fyrir búðunum voru þau, að hryðjuverkamennirnir sem sitja þar eru svo lífshættulegir, og í raun bara skrímsli, að það gilda ekki sömu lög um þá eins og aðra hermenn.
Þá hlýtur maður að spyrja sig hvort að það sé öruggt að senda þá aftur út í samfélagið eins og ekkert sé. Gæti það verið að margir þeirra séu í raun saklausir?

Það er heldur ekki traustvekjandi fyrir þá sem sitja á GTMO að forsetinn er sá eini sem getur náðað þá eftir að þeir hafa verið dæmdir af bandarískum herrétti sem fer fram fyrir luktum dyrum, þegar sami forseti kallar þá skrímsli.

Jæja, nenni ekki að röfla í allt kvöld um þetta. Það versta í þessu öllu er, að Guantanamo er bara tindurinn á ísjakanum. Bandaríkjastjórn rekur fleiri pyntingabúðir sem þessar í A-Evrópu og N-Afríku. Það berast sífellt fleiri fregnir um það í hverri viku. Amnesty International, sem er ein öruggasta heimildin sem fyrirfinnst þegar kemur að þessum málum, hefur lýst yfir áhyggjum sínum af þessum fangabúðum og krafist þess að þeim sé lokað. Á sama tíma vilja fjölmiðlar voðalítið fjalla um þessi mál nema þau snerti bara Guantanamo.

Ég er löngu búinn að gleyma því hver punkturinn var. Kannski vildi ég bara sýna hvað ég vissi mikið um Guantanamo. Ég veit reyndar miklu meira, en læt þetta duga í bili.

fimmtudagur, 29 júní, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Kriz: Ég las frekar undarlega gagnrýni um hana á netinu. Veit ekki alveg hvort ég eigi að taka hana trúanlega eða ekki.. Sást þú hana?

anonymous: Ég vissi það náttúrulega að þeir höfðu ekki hlotið dóm. Og það var nú eiginlega það sem ég meinti þegar ég talaði um að sanngjörn málsmeðferð myndi kannski slá á örvæntinguna. Þ.e. að ef búið væri að rétta yfir þeim, vissu þeir kannski hvað biði þeirra.

En þegar ég tala um að aflána dóm sinn með reisn, er ég að skírskota til þeirra aðstæðna sem þeim er haldið við (Já, ég veit. Án dóms!). Þetta er bara óheppilega orðað.

Mér finnst margt athyglisvert í orðræðu þinni. Sérstaklega það, að menn hafi verið handsamaðir á flugvöllum víða um heim og færðir í þessar fangabúðir. Það er bara rangt (í merkingunni röng gjörð ekki röng staðreynd (og þegar ég tala um gjörð er ég ekki að meina gjörð á reiðhjóli, heldur sögnina að gera)). Ég hélt alltaf að Bandaríkjamenn hefðu safnað þeim saman í Tora Bora (þar sem lokaorrustan var háð) og fært þá saman í einum hóp til Gúantanamó.

Ég man líka eftir að hafa heyrt Bush tala um þessa menn. Þegar hann var spurður hvenær hann ætlaði að sleppa þessum mönnum, hristi hann hausinn eins og að hann skildi ekki svona heimskulega spurningu. Mig minnir að hann hafi sagt eitthvað á þá leið, að það væri ekkert á stefnuskránni að sleppa þeim. Til hvers? Þeir myndu bara ráðast aftur á Bandaríkin.

Það er annað sem mér hefur dottið í hug í sambandi við þessar fangabúðir. Á einhver mjög sjúkan hátt virðast æstustu ættjarðarvinirnir fá kick út úr því að sjá hvernig farið er með þessa menn. Það er eins og þeir hugsi: Þetta fáið þið, þið terrorist-killers, fyrir að ráðast á U.S.A. Þið hugsið ykkur vonandi tvisvar um áður en þið gerið þetta aftur. - Þetta virkar eins og hefnd Bandaríkjanna.

Þú talar loks um Amnesty International og segir þá vera „ eina öruggustu heimild sem fyrirfinnst þegar kemur að þessum málum“. Æ, ég skal ekki segja. Ef ég skil það rétt, þá fá þeir að taka viðtöl við fanga í Gúantanamó. Og þannig fá þeir helling af upplýsingum um meðferðina. En ég fæ það samt alltaf á tilfinninguna, að fulltrúar Amnesty séu ekki nógu gagnrýnir. Að þeir trúi öllu sem þeim er sagt og máli í kjölfarið mjög svarta mynd af ástandinu - miklu svartari en hún þarf að vera. Sumir fanganna segja náttúrulega rétt frá, en aðrir hljóta að ljúga. Hvernig síar Amnesty lyga frá sannleik? Ég er ekki viss um að þeir geti það. Ég held, að ef maður vill vita hvernig ástandið er, svona nokkurn veginn, að þá sé það einhvern staðar mitt á milli þess sem Bandaríkjastjórn heldur fram og Amnesty.

föstudagur, 30 júní, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home