Ég kíkti um daginn til Kaupmannahafnar í heimsókn. Eins og við var að búast skemmti ég mér konunglega, enda vinir mínir með eindæmum skemmtilegir. En ég er kominn aftur til Reykjavíkur, og það er líka allt í lagi.
Nú sit ég í Ráðhúsi Reykjavíkur, vegna þess að netið heima hjá mér er í ólagi. Og ég njósna. Ég njósna um stelpu eina, sem var með mér í menntaskóla. Þarna er hún, hönd í hönd við rígfullorðinn mann. Hann virðist vera fertugur. Kannski er þetta pabbi hennar? Samt ekki. Ég held að þau séu elskendur.
Hún gekk framhjá mér áðan, án þess að heilsa. Það getur bara þýtt þrennt.
- Hún man ekki eftir mér.
- Hún man eftir mér, en vill ekki heilsa mér því hún er hætt að tala við jafnaldra sína.
- Dulargervið er að virka (ég er í dulargervi).
En, hvað er málið? Þessi hressa og skemmtilega stelpa. Hún hefði getað náð í hvern sem er, en þarna er hún, að flétta fingrum við gammel Klaus. Uss suss suss... Ekki er það nú gott. Og, svona þegar ég hugsa um það, verður að stoppa þetta. En hvernig geri ég það?
,,Þú mátt þetta ekki!" Gæti ég öskrað. ,,Í nafni velsæmis og heilbrigðrar skynsemi, frábýð ég ykkur að haldast í hendur." Og svo myndi ég hringja í lögregluþjón, sem myndi færa þau burt í járnum. Og hún yrði send í fangelsi fyrir konur. Hann í útrýmingarbúðir.
Æ, hvað er ég að segja? Auðvitað mega þau þetta. Ástin er blind. Og þó hún væri að slá sér upp með dýri eða plöntu, ætti ég enga heimtingu á að stoppa það. Eða hvað?
Það ætti að setja lög um svona lagað. Þau gætu hljómað þannig:
Löggjöf um ást: Þegar karl og kona fella saman hugi, má ekki muna
meira en 15 árum á þeim í aldri. Annars...
Já, það væri töff.
Jæja. Ég ætla að hætta þessu. Konuanginn í afgreiðslunni er farinn að senda mér illt auga fyrir einokun mína á tölvunni.
14 Comments:
Hver var þetta Jóhannes?
Hver ert þú, Anonymous?
Ég fer fram á skipti. Nafn þitt fyrir nafn hennar.
Ég heiti Anonymous og hef stundum kommentað hérna á síðuna. Nú er komið að þér. Hvað heitir hún?
Ekki svara Jóhannes þetta er gildra, þau vilja komast að því hvert dulargervið þitt er!
Eg veit hvert dulargervid thitt er Johannes! Thad er svort gleraugu med yfirvaraskeggi afostu, asamt storu kartoflunefi.
P.s. Vona ad thad fari vel um felaga okkar a Grettisgotunni. :)
Heida gleida
Ég er líka forvitin.
Hver var þetta? Veit að ein úr mínum bekk náði sér í einn vel fullorðinn en hef á tilfinningunni að þetta sé einhver önnur og er bara alveg að deyja úr forvitni.
Kv.
Svanhildur.
Það er til einföld regla um hve ungt gaur má fara. Yngsta sem hann má fara er sem sagt:
lægsti aldur = ((aldur hans)/2)+7
Þetta gengur fyrir allan aldur.
Þetta þýðir að þetta sleppur ef hann er 38 ára og hún 26 ára.
Helvíti er þetta þétt regla kristján.
Svo er líka alvitað að þessi regla gengur ekki í hina áttina, þ.e. miklu strangari reglur um eldri konur en karla.
Anonymous: Nice try, but no sugar.
Stokkhólmur: Ég sá það strax að þetta var gildra. Það fær enginn að vita dulargervi mitt!
En, já já. Þar sem þú ert úti í Stokkhólmi, ertu vafalaust ekki inni í málununum á Íslandi. Þessi umræða er ekki ný af nálinni. Til dæmis var fyrirsögn Morgunblaðsins í gær: Er Jói Ben Batman? Hvað gerir greifinn á Týsgötunni á daginn á meðan aðrir vinna? Og af hverju á hann svona flottan bíl?
Heiða: Nei, sko. Það er gamla gervið mitt. Ég er löööngu hættur að nota það. Í millitíðinni er ég meira að segja búinn að eiga nokkur gervi í viðbót. Til dæmis cat-burglar átfittið, cat-woman búninginn og föt eins og leikararnir í söngleiknum Cats (ísl: Kettir). Svo vorum við Finnur saman í hestabúningi þangað til að hann fékk alvöru vinnu. En, já. Gleraugun og skeggið tilheyra fortíðinni.
p.s.
Það fer vel um hann. Ég held að þetta sé bara fínn díll.
Svanhildur: Ég held ég viti hverja þú ert að tala um. Þó er ég ekki viss. En ef það er sama stelpan, þá er það ekki hún. Og svona, þegar út í það er farið: Voru þau ekki hætt saman?
Annars veistu vel hver stelpa þessi er. Þið eruð kannski ekki bestu vinkonur í heimi, en svona, ágætir mátar. Ef þú myndir hitta hana í Kringlunni (sem væri týpískur staður að hitta hana á), myndir þú segja: Nei, hæææ... hvað er að frétta? Og þá myndi hún svara: Bara allt frábært! (það myndi hún segja, með brosið í báðum kinnum) Lof mér að kynna þig fyrir kærasta mínum. Hann heitir Gammel Klaus og er vinur hans pabba. Eða afa...? Ég man það ekki. Og þú, Svanhildur, tækir í hryllingi utan um hrukkótta lúku hans. Og hann myndi segja við þig: Sæl og blessuð, barnið mitt. Ég man nú þegar ég var ungur. Þá geisaði stríð í Evrópu og Edison var nýlega búinn að uppfatta ljósaperuna. Já, það voru ágætir tímar. En... hvað er að sjá þig. Ertu byrðjuð að skæla? Þú þarft ekkert að vera hrædd við mig. Ég er ekki veikur. Ég er bara gaaamall. Gaaaaamall! (Og þá myndir þú líklega átta þig á nauðsyn þess að setja löggjöf um ást.)
Kriz: Já, ég hef heyrt um þessa reglu. Hún er ágæt. Þannig séð. En er hún ekki aðallega notuð til réttlætinga? Þannig að 38 ára dónar geti sofið vel á nóttinni við hliðina á 26 ára gærunni sinni. Þeir vita, já þeir vita vel, að þetta er ekki rétt. En þeir gera það samt. Fylgja Reglu Kriz. Uss...
Svo er ég líka búinn að finna galla á þessari reglu. Samkvæmt henni má 234 ára gamall maður eiga 124 ára gamla kærustu. En við vitum það báðir, að það er ekki til svona gamalt fólk. Þannig að það gengur eiginlega ekki upp.
Og hvað með 6 ára gutta. Mega þeir í minnsta lagi vera með 10 ára stelpum. Það er bara vitleysa.
Ég er hlynntur ólínulegu sambandi á milli aldurs karla og kvenna í menntaskóla (sem gefur möguleika á 0-4 árum í slaka). Og svo breytist það í fasta við 20 ára aldurinn. Mest fimm ár. Það er fastinn. Og ef farið er fram yfir það, þarf sérstakt leyfi frá fógeta, svokallað fógetabréf. Þar kemur fram staðfesting á ástríki sambandsins og að strákurinn sé ekki perri að misnota aldursmuninn. Eins kemur fram að stelpan lifi ekki í þeirri sjálfsblekkingu að hún sé þroskuð um aldur fram og þurfi þess vegna eldri menn til að halda sér hlýju.
Palli: Það er rétt hjá þér. Reglan er strangari í hina áttina. Þá gildir +3 ár.
Það er bara andkristinlegt að vera með einhverjum þegar maður er yngri en 14 og eldri en 130 ára. Mér finnst t.d. ekkert að því að 26 ára gaur sé með 20 ára stelpu (er ég kannski bara að segja þetta svo ég geti farið svo ungt... hmmm...).
Ástin er blind!
Sammála!
Aldurinn breytist ekki. Bara ártalið....
Skrifa ummæli
<< Home