þriðjudagur



Við hliðina á mér býr gömul kona. Hún læðist út á nóttunni og tekur öll rafmagnstækin mín úr sambandi. Um daginn tók hún ísskápinn minn úr sambandi. Þá varð ég pínulítið reiður. En þetta var í fyrsta skiptið sem hún gerði þetta, þannig að ég fyrirgaf henni það. Yfirleitt lætur hún sér nægja að slökkva á gang-ljósið og port-ljósið, en stundum tekur hún líka þvottavélina úr sambandi. Ég skil hana ekki.

Ég hef oft mætt henni. Hún fer á stjá á milli tvö og þrjú á nóttunni, í drifhvíta náttsloppnum sínum. Minnir einna helst á vofu. Þegar ég stend hana að verki verður hún skömmustuleg, segir ekki neitt og hverfur aftur inn í íbúðina sína. Og ef ég ávarpa hana, freistar hún þess að læðast burt óséð. Rétt eins og ég geri þegar stórir hundar gelta að mér. Ef ég fer nógu hægt í burtu taka þeir síður eftir mér.

Ég er að hugsa um að leggja helling af músgildrum í íbúðina mína. Þá kannski hættir hún sér síður hingað yfir. Eða koma fyrir einhvers konar skynjara sem byrjar að blikka þegar hann nemur hreyfingu. Myndi jafnvel pípa eða gefa frá sér sírenuhljóð. Nei, ég má það ekki. Þá myndi hún bara fá hjartaáfall og ég yrði settur í fangelsi fyrir óþekka leigjendur.

Reyndar kom það fyrir um daginn að gömul kona lá dauð fyrir framan útidyrnar mínar. Ég var nývaknaður, á mínum venjulega göngutúr út í bakarí, og hrasaði nánast við líkið. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Átti ég að tékka á hjartslættinum? Reyna munn-við-munn aðferðina? Nei, ojj. Ekki á svona gamlli konu. Hefði þetta verið hugguleg dama hefði málið kannski horft öðruvísi við. En í þessu tilfelli ákvað ég að halda mig við +3 ára regluna. Engar gammeljunkur.

En hvað? Hvað átti ég til bragðs að taka? Var hún ekki á mína ábyrgð, liggjandi þarna við innganginn minn? Og fleiri hugsanir sputtu upp í kollinn. Hafði hún reynt að komast inn yfir nóttina, en þrotið örendi þegar enginn opnaði fyrir henni? Hvað vildi hún mér? Í eina sekúndu datt mér í hug að fela líkið. Já! Það var málið. Fela líkið. Ég greip í annan fótinn og reyndi að draga hana inn í portið til mín, þar sem ruslatunnurnar göptu sársoltnar við mér. Ef ég set síðan pizzakassa ofan á konuna, finna ruslakarlarnir hana ekki. Hugsaði ég með mér. Já! Það er málið.

Bíddu hægur! Heyrði ég einhvern kalla. Hvað ertu að gera? Ég fraus. Geðbiluð kona á fimmtugsaldri rasaði í flasið á mig. Þessi kona er flogaveik. Án þess að hugsa reyndi ég að læðast burt. Hvað ætlaðirðu eiginlega að gera við hana? Ég gat ekki sagt henni að ég hafi ætlað að fela hana í ruslatunnunni og þagði bara í staðinn. Svaraðu mér? Hvað ætlaðir þú að gera við hana? Ef ég fer nógu hægt í burtu, sér hún mig ekki. Hugsaði ég. -Og þannig slapp ég.

Þegar ég kom aftur úr bakaríinu, fékk ég þær fréttir að hún væri komin á sjúkrahús og væri öll að braggast.

En þetta var útúrdúr. Ég var að tala um gömlu konuna sem tekur öll rafmagnstækin mín úr sambandi. Hvað skal til bragðs taka? Kannski gera eins og í spurningaþættinum SPK [1], þar sem grænu slími var hellt yfir keppendur ef þeir giskuðu á rangt svar. Nema í mínu tilfelli, myndi ég skvetta slíminu á hana ef tekur ísskápinn minn aftur úr sambandi. Nei. Það er of brútal. Ég þarf einhvern veginn að hræða hana. Láta hana halda að hún hafi sett eitthvert þjófavarnarkerfi í gang. Já, ég held að það sé málið.



[1]
En SPK var með lélegasta upphafsstef sem hefur verið samið fyrir sjónvarp. Þarna var rappað:
Þið eigið möguleik'á því,
að vinna ykkur inn:
Tíu tíma kort,
í keilu höllina,
Aaa-dídas íþróttavörur
(svo man ég ekki meira)


12 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Vá, hvað mér fannst (og finnst ennþá) lagið úr SPK vera fyndið! Ótrúlega lélegt og cheap!

þriðjudagur, 08 ágúst, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Já, það var með ódýrara móti. Og annað. Hvílíkir skítavinningar. Fólk fór þarna í sjónvarpið og lét hella yfir sig grænu slími og fékk fyrir það tíu tíma kort í Keiluhöllina. Og bara ef það vann. Hinir fengur ekkert. Frábært. Svona kort kostar kannski 3.500 kall.

þriðjudagur, 08 ágúst, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég kem í kvöld. Get ekki beðið eftir að "kippa þér úr sambandi". Grrrrr.

miðvikudagur, 09 ágúst, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Hehehe. Og ég get ekki beðið eftir að brjóta á þér fæturna!

fimmtudagur, 10 ágúst, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Nei nei, bara djók.

fimmtudagur, 10 ágúst, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Og frekar gott djók, ef út í það er farið.

fimmtudagur, 10 ágúst, 2006  
Blogger Palli said...

Er eitthvað af þessu satt? Í prósentum frá 0% til 100%? Og ef þú myndir safna öllum hægðum sem þú hefur átt frá því að þú skrifaðir þetta, hvað helduru að þær væru þungar? Og hversu miklu vatni myndu þær ýta frá sér ef þær væru settar í vatn?

(það er bannað að byrja setningu á og eða sviga)

föstudagur, 11 ágúst, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Já. Þetta er að mestu leyti satt. Ég myndi segja ~77%. Konan kemur alltaf á nóttinni og slekkur ljósin mín. Stundum tekur hún líka þvottavélina úr sambandi og um daginn tók hún ísskápinn úr sambandi. Það var ekki töff.

Líkið. Jæja. Ég kannski færði aðeins í stílinn þar. Ég reyndi ekki að fela það eins og ég skrifaði um. En það er satt, að einn morguninn lá gömul kona hreyfingarlaus fyrir framan innganginn minn. Og ég vissi ekkert hvað ég átti til bragðs að taka. En hún reyndist flogaveik og allt fór vel.

Og þú segir að það sé ljótt að byrja setningu á ,,og" eða sviga. Ég er ósammála. Og það er Þórbergur Þórðarson líka. Hann segir að það geti jafnvel verið fallegt að byrja setningu á ,,og". Mér finnst það líka, en þó verður maður að passa sig að nota það hóflega. Í texta eins og þessum um gömlu konuna, hefði verið hóflegt að nota þess konar byrjun bara einu sinni. Ekki þrisvar. En, jamm. Athugasemdinni er vel tekið.

Og þú talar líka um sviga. Ég er eiginlega ósammála þér þar líka. Það eru margir góðir rithöfundar sem skjóta inn heilu setningum inni í sviga. (Eins og þessari hér.) En mér finnst smekklegt að vera mjög spar á sviga. Þetta eru yfirleitt útúrdúrar sem brengla flæðið og rugla lesandann.

Hins vegar finnst mér mjög ljótt að byrja setningu á ,,það". Það er mjög ljótt. Og eins þegar maður freistast til að nota ,,maður" mikið. Stundum kemst maður ekki hjá því að nota það. En ef maður reynir, tekst manni yfirleitt að sneiða hjá því.

mánudagur, 14 ágúst, 2006  
Blogger Palli said...

Hins vegar finnst mér mjög ljótt að byrja setningu á ,,það". Það er mjög ljótt.

:D

fimmtudagur, 17 ágúst, 2006  
Blogger Jói Ben said...

;)

fimmtudagur, 17 ágúst, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Litli bróðir minn vann nú risa gull litaða keilu í SPK geðveikt!

Hægðir eru 150-300 grömm í hvert skipti margfaldið með klósettferðum.

fimmtudagur, 17 ágúst, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Þannig að við erum að tala um 18 kíló?

fimmtudagur, 17 ágúst, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home