fimmtudagur


Balli Allaballi

Ég held að hlerunarmálið sé að snúast í höndunum á Jóni Balvin.

Ég er með kenningu: Hleranirnar voru aldrei neitt nema grunur hjá honum. Svo, óvart, viðrar þessar vangaveltur sínar í viðtali og boltinn rúllar af stað. Hann ætlaði sér aldrei að gera þær opinberar, en þarf skyndilega að finna einhver rök máli sínu til stuðnings. Ef hann gerir það ekki, er hann bara bullari. Og ekki vill hann það.

Fyrst vísar hann í einhvern rafvirkja - sem hefur ekki komið fram á sjónarsviðið til að staðfesta frásögn JBH. Svo fékk hann símtal frá manni sem staðfesti frásögn hans - en hann vildi samt ekki koma fram opinberlega. Þannig að, enn sem komið er, hefur Johnny ekkert í höndunum sem sannar ,,gruninn".

Einhvern veginn beindist grunurinn strax að óþokkunum í Sjálfstæðisflokknum, enda voru þeir í forsvari fyrir ríkisstjórn sem beitti hlerunum óspart á æsingamenn sósíalista. Að frumkvæði sjálfstæðismanna, voru aðdróttanirnar settar í rannsókn og er hún enn í gangi.

Svo skyndilega er komið annað hljóð í kútinn. Í undarlegu viðtali í Fréttablaðinu í dag, talar Balli um að Bandaríkjamenn séu vondi gæinn. Þeir vildu hlera hann, vegna þess að verið var að endurskoða varnarsamninginn við Bandaríkjamenn. Þeir voru semsagt að hlera Jón.

Í viðtalinu er sagt frá ,,leyniherberginu" í Utanríkisráðuneytinu, sem virðist vera hjúpað álíka mikilli dulúð og leynidyrnar að Narníu. Í þessu herbergi höfðu Bandaríkjamenn e.t.v. aðstöðu til að hlera síma.

Ég held að þessi viðsnúningur til Bandaríkjanna, sé bara örvæntingarfull tilraun JBH til þess að halda sér á floti. Hann er greinilega sokkinn með Sjálfstæðisflokkinn, en freistar samt þess að halda baráttunni áfram. Baráttunni að sanna ,,gruninn", sem hann óvart gaspraði út úr sér í einhverju hugsanaleysi. Hann er ekki öfundsverður þessa dagana.

Ég sting upp á því, að þessar leynidyr verði opnaðar. Og hvað þá? Fullbúin hlerunarmiðstöð Bandaríkjamanna? Narnía? Tilraunir á mönnum? Eða kannski bara skjalageymsla? Ég bíð spenntur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home