mánudagur

Enn um stjórn Bandaríkjanna

Í upphafi Íraksstríðsins birti Al-Jazeera viðtöl við bandaríska stríðsfanga. Þeir voru beðnir að segja deili á sjálfum sér og spurðir hvers vegna þeir væru í Írak.

Haukarnir í stjórn Bandaríkjanna, með Donald Rumsfeld í fararbroddi, áttu ekki orð yfir bíræfni Írakanna. Hvernig gátu þeir gengið svo hrottalega gegn Genfarsáttmálanum? Þar stendur skýrum stöfum, að koma eigi fram við stríðsfanga á mannsæmandi hátt, og að niðurlæging, í hvaða mynd sem hún birtist, sé ólögleg. Og síst af öllu má beita stríðsföngum í áróðurskyni! Hvernig voga þessir Írakar sér, að birta þessar myndir? Er þeim ekkert heilagt?

Mér finnst myndbandið sárameinlaust. Það er ekki þjarmað að þessum vesalings greyjum sem sitja fyrir svörum. Og spurningunni: „Af hverju komstu til Írak?“ Ætti að vera auðvelt að svara. Hermennirnir bera því við, að þeir séu handbendi stríðslorda Ameríku (eða eitthvað í þá áttina). Ég hef ekki velt því fyrir mér áður, en hefur þessari spurningu nokkurn tímann verið svarað fyllilega?

Hvað um það. Ég ætlaði að benda á tvískinnunginn. Á meðan Rummy nær ekki upp í nef sér af hneikslan, að Írakar skuli ekki virða Genfarsáttmálann, skellir hann skollaeyrunum við gagnrýni alþjóðasamfélagsins á nýrri skilgreiningu BNA á pyntingum (sem er á skjön við Genfarsáttmálann og ég skrifaði um í gær).

Svo má líka bera saman myndbandið hér að ofan, og eftirfarandi myndir úr fórum Bandaríkjamanna.

Guantanamo

Saddam fangaður

Lúsaleit og læknisskoðun

Saddam á nærbuxunum

Svo voru einnig birtar myndir af líkum Uday og Quasay, sonum Saddams, sem og líki Al Zarqawis.

Allt eru þetta myndir sem birtar hafa verið af Bandaríkjastjórn í áróðursskyni (nærbuxnamyndin á að hafa lekið, en vafalaust hefur stjórnin lokað augunum á meðan).

Miðað við myndbandið, þar sem bandarískir hermenn voru auðmýktir á svo ófyrirgefanlegan hátt, bersýnilega á skjön við alþjóðareglur, sýna myndirnar hér að ofan meiri niðurlægingu, svo ekki sé talað um áróðursgildi þeirra. Það væri forvitnilegt að spyrja Rumsfeld hvort þessar myndir standist Genfarsáttmálann, eða er hann bara heilagur þegar hentar Bandaríkjamönnum?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home