fimmtudagur

Rumsfeld hættur

Rumsfeld búinn að segja af sér, og þótt fyrr hefði mátt vera.

Rumsfeld í vandræðum þegar hann er spurður út í Íraksstríðið.

Í Kastljósi var rætt við Steingrím J og Guðlaug Þór um afsögnina. Steingrímur var vel yddaður og hitti naglann oft á höfuðið. Guðlaugur var öllu óskýrari og oft átti ég erfitt með að átta mig á því, hvert hann var að fara með mál sitt. Minnti á Dag B. Eggertsson hvað það varðaði.

Guðlaugur var spurður:
Kjósendur hafa hafnað stefnu Bandaríkjamanna í Írak. Ætli það sé von á einhvers konar stefnubreytingu hér á landi?

Hann svarar (inntak og samhengi þess gróflega tekið saman):

Sko. Málið snýst um þetta: Vesturveldin og Bandaríkin réðust inn í Afganistan og svo inn í Írak. Það sem að Rumsfeld gerði, var að endurskipuleggja bandaríska herinn í ljósi breyttra aðstæðna. Og í sjálfu sér gekk hernaðaraðgerðin inn í Írak ágætlega.

En hann hefur þótt hrokafullur. Til dæmis sagði Henry Kissinger að þetta hafi verið miskunnarlausasti maður sem hann hefði þekkti - þó að hann hefði hæfileika á mörgum sviðum. Þannig að Rumsfeld er sá maður sem er bæði elsti og yngsti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Hann hlustaði ekki á nein viðvörunarorð sem sneru að uppbyggingu Írak. Menn hafa reynslu frá Bosníu og Kosovo, um hvernig hugsanlega væri hægt að haga málum. Á það var ekki hlustað. Uppbyggingin hefur ekki gengið sem skyldi. Auðvitað eru þetta orðnir hlutir, en síðan er það spurningin hvernig menn vinna úr því. Því auðvitað hafa þessar þjóðir, sem að þessu stóðu, mikla ábyrgð gagnvart Írak. Verkefni dagsins í dag, er að henni farnist sem best (uppbyggingunni) og að menn fari að ná árangri í baráttunni gegn hryðjuverkum. Og að það verði sem friðsælast á þessu svæði.

Spurt var hvort von væri á stefnubreytingu á Íslandi? Hverju var Guðlaugur eiginlega að svara?

Ef ég ætti að giska, hefur hann skilið spurninguna svona: Ok. Guðlaugur. Segðu okkur aðeins frá aðdraganda stríðsins og hlutverki Rumsfeld. Hvernig kom hann mönnum fyrir sjónir? Hvaða mistök gerði hann? Og í kjölfarið á því, nennirðu aðeins að þvæla um stöðu mála í dag? Einhver misskilningur í gangi þarna.

- Nema þetta sé hans háttur: Að bulla sig í gegn um spurningar og nota orðaskrum sem skjól. Og þá er hann bara að fjasa um eitthvað. Ef svo er, er hann kominn í flokk með Ólafi Ragnari, Georg Bush og Degi B. Ég veit ekki enn hvort Ágúst Ólafur á heima þar, en leyfum honum að njóta vafans að sinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home