þriðjudagur


Bráðum koma blessuð jólin - en hvað á að gefa í jólagjöf?

Þegar ég var tólf ára fékk ég blaðapressu í jólagjöf frá frænku minni. Hvað átti ég að gera við hana? Pressa blöð? Ári seinna fékk ég líffræðibók frá frænda mínum. Og hvað? Átti ég semsagt núna að fara að lesa um líkamann? Frábært. Svona hefur þetta gengið, ár eftir ár. Fólk virðist bara kaupa eitthvað.

Þannig er þetta líka með mig. Fyrir það fyrsta, finnst mér leiðinlegt að kaupa inn. Það er svo erfitt. Hvað þá að velja eitthvað fyrir aðra. Það er jafnvel enn erfiðara. Ég reyni yfirleitt að draga þetta eins lengi og ég get. Fer helst ekki úr húsi fyrr en á Þorláksmessu.

Og hvernig á ég að vita hvað aðrir vilja fá? Hvernig gæti ég vitað það? - Jú, ég gæti spurt. En það má ekki. Þá myndi fólkið vita hvað það fengi í jólagjöf frá mér. Nei. Ég verð að giska. - Og þannig er það með alla aðra. Enginn veit neitt.

En þannig er það ekki í ár. Í ár, er ég búinn að finna fullkomna gjöf, sem passar við öll tækifæri. Góð fyrir hvítvoðunga, sem eiga allt lífið framundan. Unglinga, sem eiga erfitt með að finna sig í lífinu. Og fullorðið fólk, sem ekkert þráir heitar en andlega næringu.


Ég er að tala um bókina, sem allir eru að tala um: Æviminningar Jóhannesar Zoëga.

Jólabókin í ár: Æviminningar Jóhannesar Zoëga

Nú veit ég ekki hvernig það kom til, að ég byrjaði að lesa þessa bók. En hún rak á fjörur mínar, og hefur legið á náttborðinu síðan þá. Ég er búinn að lesa hana tíu sinnum síðan hún kom út, ef ekki oftar. Og mér segir svo hugur, að það muni einnig gilda um skjólstæðinga ykkar.

Þessi ágæta bók fæst í Máli og Menningu á Laugarveginum. Hún kostar ekki mikið og er hin fullkomna gjöf. Afar og ömmur, munu hrópa hallelúja. Eins með pabba og mömmur. Í heilagri leiðslu, munu þau kalla nafn Drottins og þakka honum fyrir kraftaverk á jólum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home