fimmtudagur


Gamall spjallþáttur

Á mánudaginn síðasta var sýnd sjónvarpsupptaka frá árinu 1984, þar sem hagfræðingurinn Milton Friedman ræðir kenningar sínar við þrjá Íslendinga. Einn þeirra er okkar virti og ástkæri forseti, herra Ólafur Ragnar Grímsson. Mikið hefur verið talað um þennan þátt undanfarna daga, og langar mig að leggja orð í belg.

Ég ætlaði ekki að nálgast þáttinn efnislega, heldur rýna í þá tvo menn sem voru mest áberandi.

Friedman kom vel fyrir. Hann hafði sitt á hreinu og svaraði öllum spurningum af sannfæringu. Stundum átti hann þó erfitt með að skilja spurninguna - en það skrifast á annan en hann, þar sem spurningarnar voru oftar en ekki óljósar. Hann sér heiminn augljóslega í svörtu og hvítu. Svoldið eins og ég ímynda mér að Pétur Blöndal geri. Og þannig myndi ég sjálfur vilja sjá hann. En það er annað mál.

Ólafur, hins vegar, kom ekki vel fyrir. Hann virtist öruggur með sig, en það kom oft á tíðum út sem hroki. Hann var líka vígdjarfur, en það kom stundum út sem dónaskapur. Hann stundaði list málaflækjumannsins: Oft lagði hann viðmælanda sínum orð í munn, og lagði síðan út af þeim orðum. Oft greip hann fram í, en kvartaði síðan yfir því að hann fengi ekki að klára sjálfur. Spurningarnar voru margar hverjar óljósar, og þegar Friedman reyndi að klóra sig fram úr þeim, reyndi Ólafur oft breyta þungapunkti spurningarinnar, og lét í það skína að Friedman væri að snúa út úr og forðast aðalspurninguna.


Ég hugsaði: Hvílíkur skaufi! En svo áttaði ég mig á því, að þannig má maður ekki hugsa mann sem nú er forseti Íslands. Þannig að, til syndakvittunar, fór ég með íslenska þjóðsönginn í huganum. Svo prófaði ég að fara með hann aftur á bak, og komst að því að þá inniheldur hann línuna „Paul is dead". Það er nokkuð merkilegt.

Niðurstaða mín var, eins og oft áður: Ég botna ekki í þessum manni. Hann er ekki nógu skýr. Hefur hann einhverja stefnu? Erfitt að segja. Friedman, maður sem hefur tamið sér skýra hugsun, átti mjög oft erfitt með Ólaf.

Ég held stundum, að Ólafur botni illa í sjálfum sér. Hann þekkir tilfinninguna sem brennur í brjósti sér, en skilur hana ekki. Samt byggir hann mál sitt á þessari sterku, óskilgreindu tilfinningu. Það er hans stefna. Að elta þessa óljósu tilfinningu. Til dæmis, er augljóst að hann langaði til að sjá Friedman lúta í duftið fyrir sér (og helst með sem mestri niðurlægingu) og réri að því öllum árum. Það var hans stefna.

Enn kemur í ljós náðargáfa hans: Hann er meistari í málaflækju og flúrmælgi, og felur þannig lélegan málflutning. Ég hef oft talað um þetta áður hér á þessari síðu.

En, jæja. Jæja, já. Þetta er orðið gott. Mig langar bara að taka það fram einhver staðar, að auðvitað eru þetta ekkert nema vangaveltur. Ekkert nema aumar vangaveltur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home