mánudagur


Pravda

Ég kíkti á skemmtistaðinn Pravda á laugardaginn. Í dyrunum voru fimm verðir, þreknir mjög og sverir. Um það leyti voru þeir að neita manni inngöngu, vegna þess að hann uppfyllti ekki kröfur Pravda varðandi klæðaburð. Ég, hins vegar, flaug inn, þrátt fyrir að hafa farið í bæinn í júdógallanum mínum.

Inni benti vinur minn á strák, sem var að reyna að ganga í augun á stelpu með því að spenna vöðvana. Þetta var fáránlegt, eins og í teiknimynd. En, jæja. Ég held upp á aðra hæð og labba hringinn. Það sem vakti athygli mína, var mikill fjöldi dyravarða og vaxtarlag þeirra. Þeir litu allir út eins og litlir jötnar. Eða naut.


Og þá er það spurningin? Af hverju þurfa þeir svona mikið af dyravörðum? Ætli fólk sé meira að slást þarna en annars staðar? Einhver gæti ályktað svo.

Andrúmsloftið var vægast sagt rafmagnað. Allir virtust ofurmeðvitaðir, samt virtist enginn sjá mig. Tónlistin var há og taktföst. Svona danstónlist. Fólkið var undarlegt: Stelpurnar voru plastkenndar og strákarnir í alltof þröngum bol. Sannkallaðar turður og tarfar.

Þetta er í fyrsta skiptið sem ég hef upplifað það sterkt, að ölvun á skemmtistað væri lítil sem engin. Enginn virtist hafa áhuga á bjór. Æ, nú ætla ég ekki að segja of mikið. Maður verður að hafa vaðið fyrir neðan sig. - En eigum við ekki bara að orða það þannig, að mig grunaði marga um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.

Eftir nokkrar mínútur fór ég út. Ég held að í framtíðinni haldi ég mig austan Lækjargötu. Það er vafasamt að blanda geði við fólk sem getur rakið ættir sínar til nautgripa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home