fimmtudagur


Smiths og Morrissey

Ég hlustaði alltaf á Smiths eða Morrissey á leiðinni í vinnuna á morgnana. Hvort um sig er í sérstöku eftirlæti og hefur verið lengi. Um daginn ákvað ég þó að hætta að hlusta á þessa tónlist.

Að hætta að hlusta á uppáhaldtónlistina. Það meikar engan sens, myndi einhver segja. Það er bara bjánalegt, myndi einhver annar segja. En það er ekki rétt. Þessi ákvörðun er frekar sniðug.

Ég tók nefnilega eftir því, að ég hugsa alltaf sömu hugsanirnar þegar ég hlusta á þessa tónlist. Sömu þungu hugsanirnar í fimmtán mínútur á hverjum degi. Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en nýlega.

En af hverju laðast maður, og eiginlega sogast, að vonleysinu í Morrissey? Erfitt að segja. Ætli það hafi ekki eitthvað að gera með það, að klárinn leiti þangað sem hann er kvaldastur? Gæti verið.

Hugsanir þessar eru alltaf eins: Hvað ef einn daginn, ég tæki upp 19. aldar klæðaburð? Ég tók fyrsta skrefið með börtunum, en það er ekki nóg. Þetta er bara spurningin um að fara alla leið. Ég er að tala um einglyrni, skikkju og pípuhatt. Og kannski lítinn staf, sem ég gæti sveiflað í kring um mig á gönguferðum mínum.

Ég yrði að breyta málfari mínu. Velja vandaðri orð. Helst tileinka mér hroka og nálgast samferðarfólk mitt af vandlætingu. Láta það finna, að ekkert er nógu gott fyrir mig. ,,Er nú eggið farið að kenna hænunni?", yrði aðalfrasinn minn.

Verst að það finnast ekki neinir betlarar á Íslandi sem ég gæti verið vondur við. Ég myndi gefa þeim aur, en kippa honum síðan aftur til mín (því hann yrði fastur í spotta) og hlæja hástöfum. Á góðum degi myndi ég kannski slá til þeirra með stafnum mínum. ,,Hafðu þetta! Og þetta...!", segði ég í tímaleysi andartaksins.

Já, þetta var draumurinn. En hann er breyttur.

Eftir að ég hætti að hlusta á Smiths og Morrissey umturnuðust hugsanir mínar. Vandláti 19. aldar maðurinn heyrði sögunni til. Og reyndar urðu hugsanir mína allt öðruvísi. Ég var ekki fastur í fortíðinni, heldur horfði ég fram á veginn:

Hvernig ætli fólk klæði sig í framtíðinni? spurði ég mig í sífellu. Ætli það séu með skikkju? Eða mun fólkið klæðast þröngum hjólabuxna-samfestingi eins og í Startrek og 2001 Space Oddity. Þarf ég ekki að tileinka orðaforð sem er meira móðins en gengur og gerist í dag? Nota ný orð, sem enginn hefur heyrt áður (en munu e.t.v. verða notuð í framtíðinni)? Zorblong... Zwapp... Zgnúsjon...? Er þetta það sem koma skal? Orð sem byrja á ,,z"? Erfitt að segja.

Og hvaða nálgun ætti ég að taka á samferðarfólk mitt? Handaband verður líklega úr sögunni, og mjaðma-dansinn kominn í staðinn. Nema ef maður ætlar að heilsa sköllóttum manni. Þá klappar maður honum á kollinn, eins og Benny Hill gerði forðum daga. Vélmönnum er óþarfi að heilsa.

Jæja. Eins og þið sjáið, er ég bættari maður eftir að ég hætti að hlusta á Smiths og Morrissey. Hraustari sál. Æ, ég ætla að hætta þessu bulli og detta í háttinn.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home