þriðjudagur


Misvandaðir fréttamenn skrifa um drápin í Virginíu

Ég hef alltaf haft mikið álit á Mogganum. Ég les hann spjaldanna á milli ef ég kemst í hann, týni mér jafnvel í minningargreinunum ef ég er þannig stemndur (sem er reyndar sjaldnast). Styrmir ritstjóri er maður sannleikans og góðra gilda. Sérhvert orð úr munni þessa risa er klettur í mínum augum. Óhagganlegur sannleikur.

En lofum þá ekki um of. Mogginn er ekki fullkominn. Sérstaklega ekki mbl.is, sem fellur alltaf meira og meira í áliti hjá mér. Það gerist í réttu hlutfalli við fjölda slúðurfrétta. Auk þess er ég farinn að verða þreyttur á spekingunum á Moggablogginu; þetta eru ekki beinlínis Íslands bestu synir (þó ýmsir góðir leynist þar inn á milli). Mér finnst þessi meðalmennska vera fyrir neðan virðingu Moggans.

Ofan á allt saman, eru fréttirnar á mbl.is oft illa skrifaðar og af fljótfærni.
Það er mín prívat kenning, að þangað séu reynslulitlir blaðamenn sendir til þess að slíta barnsskóm. Langar til að taka dæmi, þar sem Mogginn skrifar um skotárásirnar í Virginíu:

Um tveimur tímum síðar réðist hann inn í Norris Hall, byggingu í um 800 metra fjarlægð frá heimavistinni þar sem verkfræðideild skólans er til húsa. Þar réðist hann inn í skólastofu og skaut á fól.
Skaut á fól? Æ, kommon. Ekki gera þessa villu. Maður fer strax að hugsa: Hvernig gat hann vinsað fólin frá hinum? Eða gerði hann kannski ráð fyrir því, að þeir væru allir fól fyrst þetta var í verkfræðideild skólans? - Þetta er frekar óheppilegur staður fyrir rangan innslátt. Hvernig er það, les þetta enginn yfir áður en þetta er sett inn á mest lesna fréttavef landsins?

Seinna dæmið:


Lög um skotvopnaeign í Virginíu ein þau vægustu í Bandaríkjunum
Brady-samtökin, sem berjast gegn hertum reglum um skotvopnaeign í Bandaríkjunum, gefa Virginíu einkunnina C mínus, á skalanum A til F, fyrir hversu öflug skotvopnalöggjöfin þar er. 32 af 50 ríkjum Bandaríkjanna fá D eða F í einkunn hjá samtökunum.
Þetta er ekki rétt staðhæfing. Ef 32 ríki fá einkunnina D eða F, fá þau lægri einkunn en Virginía. Því má segja að lögin í Virginíu séu almennt harðari en gengur og gerist í Bandaríkjunum, ekki vægari.

En mbl.is er ekki alslæmur. Alla vega ekki jafnlélegur og visir.is. Ef ég vissi ekki betur, myndi ég ætla að fréttahaukarnir þar væru á fyrsta ári í framhaldsskóla. Þeir eru merkilega lélegir. Tek dæmi þar sem visir.is skrifar um skotárásirnar (leiðréttingar mínar eru í hornklofa):

Kóreumenn óttast fordóma
Utanríkisráð [Utanríkisráðuneyti] Suður Kóreu [Suður-Kóreu] hræðist fordóma vegna skotárásar kóranska [kóreska] nemandans Cho Seung-Hui [Útlend blöð skrifa: Cho Seung-hui] við Virginia Tech Háskóla [háskóla] í Bandaríkjunum. Um 500 kóreanskir [kóreskir] [Hér vantar orð] og kóreanskir [kóreskir] Bandaríkjamenn eru nemendur við skólann og vonast utanríkisráðherran [utanríkisráðherrann] til þess að þau [þeir] verði ekki fyrir aðkasti vegna þessa.

Cho Seung-Hui [Cho Seung-hui] var búin [búinn] að búa í Bandaríkjunum frá því árið 1992. Hann var samt sem áður frekar vinafá [vinafár]. Haft er eftir kóreanskri [kóreskri] stelpu við skólann að aðrir kóreanskir [kóreskir] nemendur innan skólans kannist ekki við hann.
Ofan á allar villurnar, bætist við að textinn er með eindæmum ósmekklegur. Tek seinni efnisgreinina sem dæmi:

Vísir: Cho Seung-Hui var búin að búa í Bandaríkjunum frá því árið 1992.
Athugasemd 1: Búinn að búa. Þetta er ósmekklegt.
Athugasemd 2: Væri ekki fallegra að segja:
Cho Seung-hui hafði búið í Bandaríkjunum...
Eða jafnvel:
Cho Seung-hui hafði verið búsettur í Bandaríkjunum...
Athugasemd 3: Væri ekki fallegra að segja: ...Bandaríkjunum frá árinu 1992.

Vísir: Hann var samt sem áður frekar vinafá.
Athugasemd: Þessi setning er alveg taktlaus. Kemur eins og álfur út úr hól á eftir fyrri setningunni. Betra hefði verið að segja: Þrátt fyrir að hafa búið í Bandaríkjunum í fimmtán ár, var Cho Seung-hui frekar vinafár.

Vísir: Haft er eftir kóreanskri stelpu við skólann að aðrir kóreanskir nemendur innan skólans kannist ekki við hann.
Athugasemd: Hér virðist
vera einhver ruglingur í gangi með nútíð og þátíð. Ég myndi frekar segja: Haft var eftir kóreskri stelpu, að Kóreubúar innan skólans hafi ekki þekkt til hans.

Niðurstaða: Mogginn fer dalandi. Vísir er fyrir löngu orðinn hluti af forarsvaðinu.