Peningar og hamingja
Ég heyrði nágranna minn tala í símann í morgun. Hann var að tala um hamingjuna: ,,Búið er að sýna fram á, að það er engin fylgni á milli hagvaxtar og hamingju. Það eina sem virðist skipta máli, er hvort að mönnum líki við nágranna sína".
En indæl staðreynd, hugsaði ég. Að þorri manna kjósi náungakærleikinn fram yfir fýsnir Mammons. Þetta er gott mál.
Svo tók ég göngutúrinn í vinnuna. Getur þetta samt verið? hugsaði ég. Og eftir því sem ég hugsaði meira, varð ég þess sannfærðari að ég hefði líklega misskilið hann. Hann hefur örugglega sagt: ,,Það eina sem virðist skipta máli, er hvort að menn séu ríkari en nágrannar sínir".
Þessi sjálfumglaði hrokagikkur! Urraði ég í gremju og ergelsi. Að hann skuli voga sér að gleðjast yfir lánleysi mínu. Ég skal sýna honum.
Þess vegna ætla ég að kaupa mér pípuhatt (eitt helsta merki velmegunar ásamt einglyrni og glæsibringu). Og þegar við mætumst næst, ætla ég að slá hann með þumalputtabreiða prikinu mínu (eins og ríkir menn gera við fátæka). Já! Það mun sýna honum!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home