mánudagur

Hamskiptin og óvænt heimsókn

Fyrir um mánuði síðan var ég að spjalla við vin minn um Hamskiptin, sem hann hafði séð í Þjóðleikhúsinu fyrr í vikunni. Hann talaði um, að þar væri sögð saga einstaklings sem sturlast og hvernig fjölskyldan brygðist við því. Já, er það? hugsaði ég og fannst hann nokkuð drjúgur í túlkun sinni. Samkvæmt bókinni, breyttist söguhetjan í risastóra pöddu. Í kjölfarið lendir hún í vandræðum með að aðlaga sig. Ég skildi söguna þannig.

Svo leið tíminn og eftir nokkra daga var ég orðinn sammála vini mínum. Sagan lýsir sturlun manns. Hún er ekki skemmtisaga, heldur átakleg raunasaga. Ég var bara vitlaus að sjá það ekki. Eða vinur minn snjall að sjá það.

Á laugardaginn var, sá ég loks leikritið. Þá áttaði ég mig á því hvernig vinur minn komst að niðurstöðu sinni. Það kemur hvergi fram, að söguhetjan hafi breyst í pöddu (En í bókinni kemur það strax fram, í fyrstu setningu: Einn daginn, þegar Gregor Samsa vaknaði, var hann búinn að breytast í risastóra pöddu). Eina pöddu-tengingin er að söguhetjan skríður upp og út um alla veggina, rétt eins og pöddur gera. - Vinur minn, sem kom með mér á sýninguna, fannst líklegast að leikritið lýsti sturlun manns sem telur sig vera api.

Æ, ég veit ekki. Nú þegar ég hugsa um það, finnst mér þetta ekki rétt. Þjóðleikhúsið á ekki að túlka söguna á svona afgerandi hátt. Hver segir að þetta sé rétt túlkun? Hver segir að það eigi að túlka þetta leikrit? Ég ætla að halda mig við það sem ég upprunalega hélt: Sagan hefur enga dýpri merkingu. Hamskiptin eru um mann sem breytist í risastóra pöddu. Punktur.

Að öðru. Um helgina skreið ég fram úr rúminu árla dags, á leið inn í eldhús. Í sófanum frammi lá maður. Undarlegt, hugsaði ég, það er maður í sófanum mínum. Hvað er hann að gera þar? Ég reyndi að vekja hann, en hann var sem rotaður. Eftir að hafa lagt tvo og tvo saman, sótti ég nágranna minn. Hann kannaðist við kauða, sem hafði farið á húsavillt og sofnað ,,einhvers staðar". Þeir yfirgáfu. Hvaða lærdóm má draga af þessu atviki? Læsa, læsa, læsa.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

hahaha, já nú læsirðu.

sunnudagur, 02 desember, 2007  

Skrifa ummæli

<< Home