föstudagur

Ferðasaga

Ég vissi ekki hverju ég átti að búast, fyrsta daginn, þegar ég vaknaði á hótelinu. Ég hafði heyrt ýmsar sögur af Indlandi. Mamma var búin að segja mér að ég mætti ekki drekka vatnið þarna - og ef ég fengi mér gos, ætti það að vera án klaka. Vatnsbólin þarna eru nefnilega full af bakteríum. Vinur minn úr læknisfræðinni áréttaði heilræðin hennar mömmu. Hann sagði mér að á Indlandi væru ýmsir sjúkdómar landlægir og gekk svo langt að fullyrða að mikið af óværunni væri jafnréttahá mönnum; til dæmis hefði sullarveikisbandormurinn kosningarétt. Þetta þótti mér ekki vera góð meðmæli með þessum útnára Asíu.

Þegar ég hafði borðað morgunmatinn, þurfti ég að finna mér hraðbanka. Fyrir utan hótelið úði allt og grúði af mannfólki. Alveg viðbjóðslega mikið. Minnti mig á orma, sem hlykkjast hver innan um annan, í mörgum lögum. Endalaust af höndum skaut út úr þvögunni. Betlari stökk á mig. Hvernig átti ég að bregðast við því? Ég þóttist ekki taka eftir honum. Maður í leðurjakka virtist sýna mér áhuga. Hvað átti hann eiginlega við með þessu glotti? Hvað vakti fyrir honum? Þarna var eldur. Á kantsteininum við hliðina á honum svaf maður. Andlit hans var sjúkt og minnti mig á hvítuna í spældu eggi. Hefur vafalaust drukkið kók með klökum, hugsaði ég og hraðaði mér í bankann.

Þetta var á sunnudegi og í bankanum sat vaktmaður með byssu í beltisstrengnum. Ég spurði hvort ég gæti fengið að nota bankann. Hann svaraði mér að hér væri enginn banki. Ég endurtók sömu spurninguna og hann endurtók sama svarið. Eftir mikið japl, jaml og fuður var niðurstaðan sú, að þetta væri banki og að ég mætti nota hann. Stórfínt!

Á leiðinni til baka fannst mér betlararnir æ nærgöngulli en áður. Ég fann hvernig að augun mændu á mig, alla leið niður í dýpstu vasa. Ég hirti lítið um bænir þeirra, enda á maður ekki að aumka sig yfir betlara.

Á hótelinu tók ég mér stöðu við glugga sem sneri að markaðstorginu. Betlararnir voru enn að horfa á mig. Ég tók seðlabúntið upp úr vasanum, kastaði því upp í loft og reyndi eins og ég gat að virðast hamingjusamur. Ég hló í sælli vímu þess sem allt á. Hahahaa...! Því næst tók ég saman peningana og faðmaði þá. Betlararnir emjuðu sáran.

Nei, nú er ég byrjaður að ljúga. Þetta var ekki svona. Það sem gerðist næst var að ég fór upp á hótelherbergi og taldi peningana. En hvað um það. Ég er að átta mig á því, að frásögn þessi er í of miklum smáatriðum. Því verður að breyta.

Jæja, það er kannski bara ágætt að hætta hér. Ég þarf hvort eð er að fara að sofa. Næst segi ég frá leigubílstjóranum sem reyndi að draga mig á tálar með hómósexúal gylliboðum. Ég velti því enn fyrir mér hvers konar fyrirbæri hann var (Note-to-self: Athuga fullyrðingar vinar míns varðandi borgaraleg réttindi sullarveikisbandormsins. Mættu hann t.d. keyra leigubíl?).

2 Comments:

Blogger Palli said...

"More... More!"
-mannætuplantan úr litlu hryllingsbúðinni

miðvikudagur, 19 desember, 2007  
Blogger Thor said...

"Come on, Maxie, lets get this show on the road!"
- Guffi úr A Goofy Movie.

fimmtudagur, 20 desember, 2007  

Skrifa ummæli

<< Home