föstudagur

SMS

Ég á frekar erfitt með að skrifa SMS. Hef ekki þolinmæðina í það. Af hverju ekki bara að hringja? Það er miklu auðveldara.

Ef ég þarf að skrifa SMS, reyni ég að hafa það eins stutt og ég mögulega get.
,,?" er algengasta spurningin og ,,Ok" er algengasta svarið.

Svo er líka svo auðvelt að misskilja SMS. Tek dæmi þar sem ég fæ SMS sent frá vinkonu minni um að hittast á kaffihúsi. Ég svara með SMS: ,,Gott mál". Þó að svarið sé stutt og laggott, má samt skila á þúsund mismunandi vegu. Eðlilegast er að skilja textann á þann hátt, að ég taki vel í uppástunguna (lögfræðingar myndu líklega kalla þetta, að túlka svarið eftir orðanna hljóðan). Í öðrum tilfellum gæti vinkonan hins vegar lagt allt annan skilning í SMSið. Um leið og hún les skilaboðin, heyrir hún í huga sér rödd mína óma. Tónninn er rennandi blautur af yfirlæti og kaldhæðni; ég er augljóslega að draga dár að henni. Vinkonan verður fúl og sendir snubbótt/hastarlegt SMS á móti. Og í kjölfarið klóra ég mér í kollinum yfir SMSinu; hvað á hún eiginlega við? Er þetta grín eða alvara?

Þess vegna nota sumir broskarla. Broskarlarnir taka af allan vafa. Ef ég svara: ,,Gott mál ;)", fer það ekki á milli mála að hver tónninn er. Og þá fengi ég líklega svar, sem innihéldi annan broskarl. Gott mál.

En ekkert er svo gott, að það boði ei eitthvað slæmt. Þessir broskarlar... Ég þoli þá ekki [1]! Eða... orðum þetta öðruvísi. Mér finnst gaman að fá broskarla í SMSi, en þegar ég þarf að búa þá til sjálfur, renna á mig tvær grímur. Er það virkilega þess virði að menga textann með þessum fíflalegu skrípum, í skiptum fyrir ótvíræðan skilning? Erfitt að segja.

Það er undarleg staðreynd, en staðreynd engu að síður, að ég myndi aldrei setja broskarl í SMS til stráks. Hann myndi bara hugsa: Hvað er málið með Jóa? Er hann alveg búinn að tapa sér? Ég held að strákar skeyti síður um tóninn í SMSinu, skilaboðin eru það sem máli skiptir. Stelpur eru hins vegar miklu meiri pólitíkusar. Þær hugsa: Hann segir þetta, en hvað meinar hann í raun og veru. Hmm...

Jæja, nú er ég byrjaður að fabúlera. Ætli það sé ekki best að hætta hér. Niðurstaðan: SMS eru til vansa. Það er miklu betra að hringja bara.


[1]
Ósköp er þetta eitthvað fýlupokaleg staðhæfing.

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sammála með broskallana. Maður verður að vera í góðu sambandi við kvenlegu hliðina í sér til að setja þannig inn. Samt finnst mér stundum gott að lauma inn einum broskalli þegar maður er t.d. að skjóta á einhvern. Þá fattar aðilinn að þetta er bara góðlátlegt grín en ekki skítkast eða eitthvað þannig.

föstudagur, 11 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Crap, rakst í takkann þegar ég ætlaði að skrifa undir. Þetta var sem sagt frá mér :)

föstudagur, 11 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Það er eiginlega nákvæmlega sama með bloggfærslur. Maður veit aldrei hvort þær eru skrifaðar af alvöru eða í gríni :-þ

föstudagur, 11 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

(@_@)/

föstudagur, 11 janúar, 2008  
Blogger Guðmundur Jón said...

:&#"/#!)
Þetta er broskall sem verið er að rífa í tvennt og innvolsið fossar út úr honum. Hef enn ekki fundið ástæðu til að nota hann.

laugardagur, 12 janúar, 2008  
Blogger Geir said...

Önnur niðurstaða: Þú ert lengi að læra á lyklaborð símans og þurs þegar kemur að því að senda stuttan texta sem skilst eins og hann á að skiljast, og hananú!

mánudagur, 14 janúar, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Gummi: Þetta er ekki satt. Ég sendi þér þennan broskarl einu sinni. Manstu ekki? Það var þarna þegar Bono úr U2 bað mig um tungukoss.

Geir: Ég gef lítið fyrir þessa óvísindalegu niðurstöðu þína (fyrir utan að þú kallar mig þurs, það er réttnefni).

þriðjudagur, 15 janúar, 2008  

Skrifa ummæli

<< Home