mánudagur

Tala dýrsins (Færsla í anda Da Vinci Code)

Í Opinberunarbók Jóhannesar segir:
,,Og dýrið lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín og kemur því til leiðar að enginn geti keypt eða selt nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess. Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins því að tala manns er það og tala hans er sex hundruð sextíu og sex."
Hvað í veröldinni þýðir þetta? Og hvernig fær hann þetta út? Þetta er einhver leikur. Hann segir beinum orðum, að hægt sé að reikna tölu dýrsins og einnig að það sé tala manns. Ég fór á Wikipediu og fletti þessu upp. Það kom mér mikið á óvart, en þar kemur fram, á ótvíræðan hátt, hver það er sem Jóhannes kallar ,,dýrið".

Áður en ég segi frá svörum Wikipediu, ætla ég að segja hvað ég hélt að þessi tala þýddi. Án þess að hafa brotið heilann mikið um hana, hef ég alltaf haldið að talan ætti á einhvern hátt að vera táknmynd djöfulsins. Ég veit ekki hvaðan ég hef það, en ég hugsa að flestir séu sömu skoðunar.

Og eitt verður að koma fram, áður en ég svipti huluni af þessari mögnuðu ráðgátu. Dýrinu er lýst í Opinberunarbókinni:
,,Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn. Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. [...]

Þá hófst stríð á himni: Mikael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar hans börðust á móti en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum."
Jahhá! Drekanum var bara varpað til hins gamalkunna höggorms, Satans. Það er ekkert annað. - Það er reyndar talað um dýr á öðrum stað í Opinberunarbókinni, lítið saklaust lamb, með hrjúfa rödd eins og dreki. En það er annað mál. Í þessari sambandi er einblínt á fyrra dýrið. Sjöhöfða drekann.

Wikipedia segir, að margir fræðimenn telji að 666 sé dulbúið nafn Nerós, sem var keisari Rómaveldis um þetta leyti. Dæmið lítur einhvern veginn svona út:

Á hebresku er Neró keisari skrifað ,,נרון קסר
. Af því leiðir:

Resh Samekh Qoph Nun Waw Resh Nun TOTAL
200 60 100 50 6 200 50 666

Í elstu þekktu útgáfu Opinberunarbókinnar er tala dýrsins 616. Það vegna þess, að hún er líklega þýdd upp úr latínu og þar er nafn Neró skrifað öðruvísi (sem verður til þess að reiknisdæmið hér að ofan gefur útkomuna 616).

Árið 64 eKr brennur Róm, á meðan Neró leikur á fiðlu sína. Í kjölfar eldsvoðans var skuldinn skellt á hóp uppreisnarmanna, sem sögðust vera Kristnitrúar. Þeir voru leitaðir uppi og drepnir, og er talið að lærisveinarnir Pétur og Páll hafi farist í þessum ofsóknum. Annar hálshöggvinn, hinn krossfestur á hvolfi. Talið er að Jóhannes skrifi Opinberunarbókina sama ár.

Jóhannes lýsir drekanum með sjö höfuð. Það er jafnmörg höfuð og hverfi Rómaborgar. Dýrið gæti verið myndlíking hennar. Jóhannes segir einnig að hægt sé að reikna þessa tölu út, og að hún sé tala manns. Það hefur verið gert, sbr. dæmið hér að ofan. Ofan á allt annað, er bókin skrifuð í kjölfar ofsókna Nerós á hendur Kristinna manna. Er einhver að tengja? Dýrið er Neró. Það fer ekki á milli mála!

Ég veit ekki af hverju mér finnst þetta svona merkilegt. Ég bara varð að segja frá þessu.

15 Comments:

Blogger Guðmundur Jón said...

Drekanum er ekki kastað niður til satans. Drekinn er Satan, þú sérð það ef þú lest textabrotið aftur.

mánudagur, 14 janúar, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Ehe.. Þetta virðist vera rétt hjá þér. Og ég sem var að skrifa færslu sem fjallaði um þann útbreidda misskilning, að dýrið væri ekki Satan, heldur Neró. Vandræðalegt.

mánudagur, 14 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Held að það sé hægt að túlka þetta að Neró = Dreki = Satan.
Þar sem drekanum er varpað niður á jörðina ekki niður í hel.

mánudagur, 14 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Síðan hefur Neró líkt og Stóri S gaman af því að spila á fiðlu.

mánudagur, 14 janúar, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Góður punktur. Annars hef ég aldrei náð að átta mig almennilega á Neró og áhuga hans á fiðlum. Þær voru náttúrulega ekki fundnar upp fyrr en 1500 árum eftir dauða keisarans, sem gerir þetta mál allt hið undarlegasta.

mánudagur, 14 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnst þetta nokkuð merkilegt. Ég hélt líka að þetta væri tala tengd djöflinum.

mánudagur, 14 janúar, 2008  
Blogger Palli said...

Ef ég lærði eitthvað af the End of Days, þá var það að leyfa Arnold Schwarzenegger að eiga svona pælingar í friði.

Svo finnst mér svona talnaspeki alltaf vera þvílíkt lúðaleg. Sbr kvikmyndina pi og the Number 23.

mánudagur, 14 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Gæti drekinn ekki verið myndlíking fyrir Neró frekar en Rómarborg? Og þessi 7 höfuð séu þá þau 7 hverfi sem hann horfði á brenna meðan hann "spilaði á fiðluna sína". Maður gæti þessvegna gerst djarfur og túlkað það sem loga helvítis.. hmmm
Að því gefnu væri Neró Satan og reiknisdæmið gengi upp! ;)

þriðjudagur, 15 janúar, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Arg! :&#"/#!)

Ég er búinn að demba mér út í smá rannsóknarvinnu og komst að því að ég var að moða úr röngum forsendum.

Drekinn er ekki það sama og Jóhannes kallar dýrið. Drekinn á augljóslega að tákna Satan, og lofið mér að útskýra hvers vegna:

Drekinn bjó á himnum (sama gildir um Satan), fer í stríð við Mikael erkiengil (sama gildir um Satan) og úthýst af himnum (sama gildir um Satan).

Að auki, segir beinum orðum, eins og Guðmundur Jón bendir réttilega á hér að ofan, að Drekinn sé Satan. En er hann líka Neró?

Svarið er nei. Ég klikkaði aðeins í þessum pistli, ég las Opinberunarbókina ekki nógu vel. Demmit!

Opinberunarbókin segir á öðrum stað frá dýrinu og hvernig það rís upp úr hafinu og fær vald sitt frá Drekanum. Þetta minnir á margan hátt á samband Guðs og Jesú. Nema nú eru aðalhetjurnar Drekinn (Satan) og dýrið (líklega Neró). Og í þessum skilningi er þá dýrið vonda útgáfan af Kristi (m.ö.o. anti-Kristur).

Ég birti bara kaflana sem segja frá Drekanum og dýrinu, þá getur hver vegið þetta og metið eftir eigin höfði.

---

OPINBERUNARBÓK JÓHANNESAR 12: Konan og drekinn

1Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum. 2Hún var þunguð og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.

3Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn. 4Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt. 5Hún fæddi son, sveinbarn sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans. 6En konan flýði út á eyðimörkina þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.

7Þá hófst stríð á himni: Mikael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar hans börðust á móti 8en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. 9Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum.

10Og ég heyrði rödd mikla á himni segja: Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors
og veldi hans Smurða.
Því að þeim sem stóð frammi fyrir Guði dag og nótt og ákærði þau sem trúa hefur verið steypt niður.
11Og þau hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns og eigi var þeim lífið svo kært að þeim ægði dauði.
12Fagnið því, himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð
því að hann veit að hann hefur nauman tíma.

13Þegar drekinn sá að honum var varpað niður á jörðina ofsótti hann konuna sem alið hafði sveinbarnið. 14Og konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla til þess að hún skyldi fljúga á eyðimörkina til síns staðar þar sem séð verður fyrir þörfum hennar þrjú og hálft ár, fjarri augsýn höggormsins. 15Höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni, eins og flóði, til þess að hún bærist burt með straumnum. 16En jörðin kom konunni til hjálpar og jörðin opnaði munn sinn og svalg vatnsflóðið sem drekinn spjó úr munni sér. 17Þá reiddist drekinn konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar þá er varðveita orð Guðs og hafa vitnisburð Jesú. 18Og hann nam staðar á sandinum við sjóinn.


OPINBERUNARBÓK JÓHANNESAR 13: Dýrin tvö

1Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð og á hverju horni var ennisdjásn og á höfðum þess voru skráð nöfn með guðlasti. 2Dýrið, sem ég sá, var líkt pardusdýri, fætur þess voru sem bjarnarfætur og gin þess eins og ljónsgin. Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið. 3Eitt af höfðum þess virtist sært til ólífis en banasár þess varð heilt. Öll jörðin fylgdi dýrinu með undrun 4og menn tilbáðu drekann af því að hann hafði gefið dýrinu vald sitt. Og þeir tilbáðu dýrið og sögðu: „Hver jafnast á við dýrið og hver getur barist við það?“

5Og því var gefinn munnur, er mælti gífuryrði og guðlast, og leyft að fara því fram í fjörutíu og tvo mánuði. 6Það lauk upp munni sínum til að lastmæla Guði, nafni hans, bústað hans og þeim sem á himni búa. 7Og því var leyft að heyja stríð við hina heilögu og sigra þá og því var gefið vald yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð. 8Og allir þeir sem á jörðunni búa og eiga nöfn sín ekki frá grundvöllun veraldar rituð í lífsbók lambsins, sem slátrað var, munu tilbiðja það. 9Sá sem eyra hefur hann heyri.

10Sá sem ánauð er ætluð fer í ánauð, sá sem ætlað er að falla fyrir sverði verður með sverði felldur. Hér reynir á þolgæði og trú hinna heilögu.

11Og ég sá annað dýr stíga upp af jörðunni og það hafði tvö horn lík lambshornum en það talaði eins og dreki. 12Fyrra dýrið hefur gefið því allt vald sitt og það lætur jörðina og þá sem á henni búa tilbiðja fyrra dýrið sem varð heilt af banasári sínu. 13Síðara dýrið gerir tákn mikil svo að það lætur jafnvel eld falla af himni ofan á jörðina fyrir augum mannanna. 14Og það leiðir alla þá sem á jörðunni búa afvega með táknum sem fyrra dýrið leyfir því að gera. Það segir þeim sem á jörðunni búa að gera líkneski af dýrinu sem sárið fékk undan sverðinu en lifnaði við. 15Því var leyft að gefa líkneski fyrra dýrsins anda til þess að það gæti einnig talað og komið því til leiðar að allir yrðu þeir deyddir sem ekki vildu tilbiðja það. 16Og dýrið lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín 17og kemur því til leiðar að enginn geti keypt eða selt nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess. 18Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins því að tala manns er það og tala hans er sex hundruð sextíu og sex.

---
Og þar með lýkur þessari tilvitnum.

miðvikudagur, 16 janúar, 2008  
Blogger Guðmundur Jón said...

Varðandi tengsl drekans við Róm, þá er Róm byggð á sjö hæðum - Drekinn hefur sjö höfuð. Aðalhæðin í Róm heitir meira að segja Capitol, eða höfuðhæðin.

miðvikudagur, 16 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Áhugavert. ;)
Greinilegt að þyngd dýrsins hefur líka skipt máli:
"40g menn"
"5Og því var gefinn munnur"
"7Og því var leyft að heyja"
"8Og allir"
"11Og ég"
"14Og það"
"16Og dýrið"
"á enni sín 170g"
Þetta gera 820g. Gæti verið að Satan hafi verið í kraftlyftingum?
Áhugavert.

miðvikudagur, 16 janúar, 2008  
Blogger Palli said...

Hahaha!

fimmtudagur, 17 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Úff Jóhannes! Að þú skulir eyða tíma í að rýna svona í þessa bók... þér væri nær að reyna við "A Portrait of the Artist as a Young Man".

laugardagur, 19 janúar, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Já, þetta er ágætur punktur. Af hverju að sólunda tíma sínum í þennan heimska doðrant? Ég opnaði hann áðan og við mér blasti sögn sem ég hafði aldrei séð notaða í boðhætti áður: Gjöreyð!

Annars smá útúrdúr: Guð virðist ekki hafa neitt sjálfstraust - sem er fáránlegt, vegna þess að hann er almáttugur. En hvaðan koma þessir komplexar? Hann er með sífelldar áhyggjur af því hvort að mannfólkið [1] dýrki fleiri guði en sig. Og alltaf þarf mannfólkið að sanna sig á einhvern hátt fyrir honum. Æ, ég veit ekki. Ég myndi segja að hann væri frekar lítil sál. Lítil sál, full af komplexum.

En hvað um það. Ég ætla að kynna mér betur þessa bók sem þú nefnir. Ef ég þekki þig rétt, þá er þetta ein af þessum bókum með alvarlegan titil, en einungis til þess að dulbúa hið rétta innihald; sjóðandi heita erótík. Þarf að kynna mér hana hið fyrsta, augljóslega.

[1]
Sem hann þó segist fyrirlíta, en líklega bara í sjálfsvörn. Hann vill vera fyrri til að hundsa það, áður en það hundsar hann. Svo óöruggur er hann.

föstudagur, 25 janúar, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Bókin sú arna er ágæt, en ég nefndi hana nú bara að gamni. Ansi margar góðar bækur sem þú getur valið úr, umfram Biblíuna.

sunnudagur, 27 janúar, 2008  

Skrifa ummæli

<< Home