miðvikudagur

Góð andlátsorð

Í Íslendingasögunum er stundum gert mikið úr síðustu orðum manna, og sérstaklega ef þeir farast á sviplegan hátt. Lokaorðin endurspegla oft örvæntingu hinstu stundar, en þó áttu menn það til að sprella. Langar til að fara í gegn um nokkur andlátsorð.

Ónafngreindur maður úr Njálssögu
Þeir sendu einn mann til að gá hvort Gunnar væri heima, en Gunnar fylgdist með honum. Gunnar rak atgeirinn svo út og gerði djúpt sár í manninn. En hann sagði ekkert né kveinkaði sér heldur gekk til félaga sinnar. Einn félaginn spurði hann hvort Gunnar hefði verið heima. Hann sagði: Það skuluð þið athuga en eitt veit ég að atgeir hans er heima. Svo datt hann niður dauður.

Hér nær þessi óforbetranlegi húmoristi að slengja einum punchara inn í lokin, sem hefur vafalaust vakið upp mikla lukku hjá viðstöddum. Þessi lína svipar á einhvern hátt til útúrsnúningsins sem ég heyrði einhvern tímann: Guns don’t kill people. Bullets do.

Þormóður Kolbrúnarskáld í Fóstbræðrasögu
Hann var veginn illa í orrustu, þannig að vömbin opnaðist og innvolsið flæddi út. Þá verður Þormóði litið í belg sinn og mælir: Vel hefur konungur alið oss því hvítt er þessum karli um hjartarætur.

Þarna grínast Þormóður með holdarfar sitt. Þegar maginn opnast, sér hann hvað hann er feitur og byrjar að gantast með að konungurinn (sem hann var á mála hjá) hafi gefið honum allt of mikið að borða. – Fullkomlega viðeigandi grín á þessari stundu.

Atli Ásmundason í Grettissögu
Í því bili snaraði Þorbjörn fram fyrir dyrnar og lagði tveim höndum til Atla með spjótinu á honum miðjum svo stóð í gegnum hann. Atli mælti við er hann fékk lagið: Þau tíðkast hin breiðu spjótin, segir hann. Síðan féll hann fram á þröskuldinn. Þá komu fram konur er í stofunni höfðu verið. Þær sáu að Atli var dauður.

Glettileg athugasemd hjá Atla um spjót Íslendinga.

Vésteinn í Gíslasögu Súrssonar
Nú er gengið inn nokkuð fyrir lýsing, hljóðlega, og þangað að sem Vésteinn hvílir. Hann var þá vaknaður. Eigi finnur hann fyrr en hann er lagður spjóti fyrir brjóstið svo að stóð í gegnum hann. En er Vésteinn fékk lagið þá mælti hann þetta: Hneit þar, sagði hann. Og því næst gekk maðurinn út. En Vésteinn vildi upp standa; í því fellur hann niður fyrir stokkinn, dauður.

Eftir því sem ég best fæ skilið, væri hægt að þýða hneit þar yfir á nútímamál með orðunum „hittir beint í mark“. Ég hef einu sinni séð þetta notað, en það var í myndinni Dodgeball.

Annars hef ég alltaf haft gaman að því þegar þýðendur skírskota í fornan texta í verkum sínum. Ég man til dæmis eftir því þegar hengja átti Daltonbræðurnar í Lukkulákabókunum og Ibbi muldrar annars hugar: …orðtír aldreigi deyr, hveim sér góþ’an getr.

Annars voru menn ekki alltaf hugaðir. Til dæmis bað Snorri Sturluson vígamenn sína eigi að höggva. Jón Arason bað Guð að bjarga sálu sinni, þegar hann var hálshöggvinn. Það þurfti, minnir mig, átta tilraunir til að ná höfðinu af (en síðustu orðin sagði hann á milli 5. og 6. tilraunar). Hvílíkt wúss!

Egill Skallagrímsson og Þórir Jökull Steinfinnsson höfðu báðir á hraðbergi snjöll ljóð, áður en taka átti þá af lífi. Þeir hafa vafalaust verið búnir að semja ljóðin löngu áður en ákveðið var að drepa þá, en viljað koma vel fyrir á andlátsstundu sinni með því að láta líta út fyrir að þeir hafi samið ljóðin þá og þegar. Reyndar má leiða líkur að því, að Þórir hafi samið sitt ljóð fyrir drukknun, frekar en afhausun, því hann
talar um að köld sé sjávar drífa, og að upp skuli á kjöl [á báti] klífa. Hann hefur síðan ákveðið að halda sig við drukknunarútgáfuna þegar hann áttaði sig á því, að það rímar eiginlega ekki neitt við öxi (nema e.t.v. nökkvi, en þá erum við aftur komin út á sjó).
Egill var öllu sleipari. Hann komst hjá aftöku með drápu sinni Höfuðlausn, þar sem hann biður um að fá að halda hausnum, þótt ljótur sé hann. Egill var töffari og er ein af hetjunum mínum.

Önnur athyglisverð lokaorð er að finna hjá Réne Descartes, en hann er furðu blátt áfram og segir einfaldlega: Jæja, sál mín, tími til að fara. John Lennon sagði: I’ve been shot! Á meðan banamaður hans kallaði: I shot John Lennon! - Báðir aðilar segja samviskusamlega frá því sem var að gerast akkúrat þá stundina. Og loks ber að nefna síðustu orð Jesú: Guð minn, Guð minn! Hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hef aldrei skilið þessi orð. Jesús var hvað eftir annað að skamma lærisveina sína fyrir að vera ekki nógu heilir í trúarsannfæringu sinni, en svo efast hann sjálfur þegar síst skyldi. Ekki nógu töff. [Innskot: Það vita fáir, að þegar Jesús lét lífið opnuðust grafhvelfingar margra heilagra mann og þeir gengu aftur í senu sem svipaði til Thriller myndbandsins. Svo reis Jesús líka upp frá dauðum, og fór fyrir flokki uppvakninganna í magnaðri danssenu.]

Í lokin læt ég fylgja með myndband með frægum banasenum úr bíómyndum. Uppáhaldsatriðið mitt má finna á bilinu 0:44 – 0:54. Hann lítur niður, sér karatestjörnu, lítur aftur á ninjuna með „hvers vegna?“ svipinn sinn. Líklega ekki ósvipað því, þegar Sesars leit undrandi á Brútus. Annað gott atriði er á bilinu 2:39 – 2:51. Ótrúlegt hvað Macaulay Culkin dapraðist eftir Home Alone myndirnar.


Mögnuðustu bíómyndadauðdagarnir
P.s.
Guðmundur Jón er byrjaður að skrifa á ný, mér til ómældrar ánægju.

6 Comments:

Blogger Guðmundur Jón said...

Seinustu ord Krists voru: Thad er fullkomnad.

miðvikudagur, 02 júlí, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Það veltur allt á því hvaða heimild þú styðst við (Ath: Emil í Kattholti telst ekki áreiðanleg heimild).

fimmtudagur, 03 júlí, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér fannst best hjá Þormóði Kolbrúnarskáldi.

John lennon og Mark Chapman voru með einstaklega gáfuleg komment. Minnir mann á útvarpsleikrit þar sem persónurnar segja hluti eins og „núna ætla ég að skjóta Pétur með skammbyssunni minni“.

þriðjudagur, 08 júlí, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Æ þetta var svo langt að ég nennti ekki að lesa þetta.
Gætirðu hringt í mig við tækifæri og sagt mér hvað þú varst að tala um.

mánudagur, 21 júlí, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Hvenær kemur nýr pistill? bj

föstudagur, 25 júlí, 2008  
Blogger Guðmundur Jón said...

Eru þetta andlátsorð þessa bloggs? Þau eru ekki góð.

miðvikudagur, 06 ágúst, 2008  

Skrifa ummæli

<< Home