fimmtudagur

David Duchany afhjúpaður

Helgi segir í kommenti sínu við færsluna hér á undan, að ástæða sambandsslita Davids Duchony hafi ekki tengst kynlífsfíkn hans á nokkurn hátt. Að ástæðan hafi verið tvírætt SMS sem hann fann í síma þáverandi konu sinnar, frá Vilhjálmi Thornton. Ég held að það sé kjaftæði.


Áður en ég held áfram, langar mig til þess að afsaka á hversu lágu plani þessi skrif eru; það er líklega ekki hægt að komast lægra en að kryfja ástarlíf David Duchonys. Ég tek þó fram, að hvati skrifanna er ekki áhugi minn á viðfangsefninu - og langt því frá. Það sem vakir fyrir mér, er að hrekja fullyrðingu Helga. Ástæða sambandsslitanna var ekki Vilhjálmur Thornton.


Neglum niður eina staðreynd: David lýsir því yfir í fjölmiðlum, að hann sé forfallinn og óforskammaður kynlífsfíkill. Enginn heilvita maður myndi gera konunni sinni það – ekki nema, náttúrulega, það myndi á einhvern hátt þjóna hagsmunum hennar. Eins og t.d. í tilviki framhjáhalds.



David Duchony með annarri konu

Skoðum David nánar.

X-files var merkilega vinsæll þáttur. Stór hluti mannkyns hrúgaðist fyrir framan sjónvarpið, þegar Mulder og Scully tóku geimverurnar í karphúsið. Á þessu tímabili var David maðurinn. Allar dyr stóðu honum opnar og kvenfólk sótti í hann eins og mý að mykjuskán. Ekkert fékk stöðvað David; hann var sigurvegari.

David varð þess brátt áskynja, að fólk kom fram við hann af meiri virðingu en áður og fáir þorðu að mótmæla honum, jafnvel þegar hann hafði rangt fyrir sér. Og þessu vandist hann. Allir draumar hans rættust og í kjölfarið varð skynjun hans á veruleikanum draumkennd. Staðleysur urðu að staðreyndum, eingöngu vegna þess að raunveruleikinn bauð upp á það. Þ.e. raunveruleikinn mótaði sig að hugmyndum, sem hvergi voru til nema í kolli Davids, vegna þess að enginn taldi sig hafa efni á því að setja sig upp á móti dellunni í þessum fræga manni.


Um þetta leyti hélt David framhjá konunni sinni (köllum hana bara Sesselíu) reglulega. En það skipti engu máli. Hann var í raun og veru ekki að halda framhjá henni, þannig séð. Gagnrýnilaus hugsun Davids gerði það að verkum, að allar réttlætingar sluppu í gegn óáreittar. Og, eins og fram hefur komið, endurspeglaði upplifun Davids á raunveruleikanum raunveruleikann sjálfan, en ekki öfugt eins og hjá flestu fólki. „Það er ekki framhjáhald, ef atlotin eru engöngu líkamleg og án ástar,“ hefur vafalaust verið réttlæting Duchonys.


Innskot: Helgi, hvernig í veröldinni gat þessi auli verið hetjan þín?


Einn daginn kemur Sesselía að honum í bólinu með annarri konu. Raunveruleikinn skvettist framan í David og hann áttar sig á því að réttlætingarnar hafa enga þyngd í hugum annarra. Hann neyddist því til að fara á hnéin fyrir framan Sesselíu og lofa öllu fögru. Hún fyrirgefur honum.


David Duchony býður góðan dag

Til að gera langa sögu stutta, byrjar David að halda framhjá Sesselíu aftur eftir nokkra mánaða pásu. Innan skamms er hann kominn í gömlu rútínuna. Molly klukkan tíu, tvíburarnir klukkan ellefu, Daisy klukkan tólf o.s.frv...

Um síðir kemur Sesselía að David aftur í villtum dansi, handjárnaður við rúmstokkinn, klæddur í pínulítinn tebolla. Eins og rakið var í síðustu færslu, lýsir David því yfir að hann sé kynlífsfíkill, enda á hann engin úrræð eftir. Hann lofar Sesselíu, að hann muni fara í meðferð og þá muni allt lagast, saman munu þau komast í gegn um þetta erfiða tímabil! Hann er vanur því að hafa rétt fyrir sér og býst við að svo verði einnig í þetta skiptið. Hann veit hins vegar að nú er á brattann að sækja og til þess að þyngja orð sín lætur hann fjölmiðlana vita. Nú ætti það ekki að vefjast fyrir Sesselíu að honum er alvara.


Á meðan David er í meðferðinni ná góðir vinir koma vitinu fyrir Sesselíu og hún ákveður að yfirgefa hann.
Í fyrsta skipti í mörg ár „tapar“ David. Fals-raunveruleikinn sem David hrærðist í hélt ekki frekar en íslenska fjármálamódelið og nú hann situr hann einn eftir með sárt ennið og skaddaða sjálfsmynd.

En, bíðum við... Getur verið að þetta hafi verið svona? Ég tapaði ekki, er það? Ég er sigurvegari, ég tapa aldrei. Hugsanir Davids leika lausum hala, réttlætingarnar fljúga hingað og þangað og innan skamms hefur nýr raunveruleiki litið dagsins ljós. Þessi SMS sem voru í síma Sesselíu, frá Vilhjálmi Thornton, hvað sögðu þau aftur? Takk fyrir síðast og verðum endilega í bandi sem fyrst. Samsæriskenning byrjar að myndast í kolli Davids. Hann les skilaboðin aftur og aftur. Nú eru komin óviðeigandi dónaáherslur í rödd Vilhjálms (sem David
heyrir upphátt þegar hann les skilaboðin). „Þetta var kynferðisleg kveðja, svo mikið er víst,“ hugsar David og gnístir tönnum. Þegar David rifjar upp atvikið, hafa hlutverkin snúist við. Hún hélt framhjá honum, ekki öfugt.

En fleiri áhyggjur sækja á David. Hvað munu blöðin segja? Hvað verður um orðsporið ef Sesselía kjaftar? Hvað munu fjölskyldan og vinirnir segja? Eftir þónokkra umhugsun ákveður hann að vera fyrri til. Bæði er hann vanur því að stýra framvindu mála, en svo gerir hann sér líka grein fyrir því, að ef hann nær fyrsta högginu nær hann e.t.v. að rota andstæðinginn áður en hann slær frá sér. David hringir í fjölmiðla og segir sína hlið.


Einhvern veginn svona var atburðarrásin í skilnaðarmáli Davids og Sesselíu. Ég spái því að innan mánaðar mun Sesselía staðfesta kenningu mína. Það hlýtur að vera, annað meikar ekki sens.

5 Comments:

Blogger Jón said...

Þetta var hugsanlega leiðinlegasta færsla ársins. Til hamingju! Verðlaunin eru á leiðinni í pósti á Amagerbulevard 1.

fimmtudagur, 23 október, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér fannst þetta mjög áhugaverð færsla. Geturðu ekki haldið málinu áfram t.d. með því að fylgja Sesselíu eftir frá skilnaðinum. Hverjar eru tilfinningar konu eins og hennar að sjá manninn sem hún elskar í hlekkjum. Endilega kafa dýpra.

Annars býr Jóhannes nú á Karl Marx Platz 43. Alls ekki víst að hann fái Alkemistann (voru það ekki verðlaunin) bj

föstudagur, 24 október, 2008  
Blogger Guðmundur Jón said...

Góð grein. Hér var stikað á mörgu mikilvægu.

Ég var náttúrulega búinn að spá þessum skilnaði fyrir löngu. Sesselía (Sessí) er gull af konu. Hún stóð við bakið á karlinum allan þann tíma sem hann var atvinnulaus áhugaleikari. Svo sló hann rækilega í gegn og hún varð að vaka langar nætur eftir honum. Þegar hann loks drattaðist inn um dyrnar, klukkan fjögur um nótt, nötrandi af koffínsjokki og greinilega útriðinn, tók hún öllum afsökunum þegjandi og pakkaði honum ofan í rúmið.

Síðan er frægðinni og vinsældunum kippt undan honum og hann limpast niður eins og beinagrindin hefði verið dregin út um naflann. Hann smánar þessa yndislegu konu með því að láta taka myndir af sér með tepokann í testellinu sem hún erfði eftir nýdauða móður sína. Hún safnaði undirskriftum (að hans tilstuðlan) til að krefjast þess að hann fengi hlutverk í X-Factor, allt í nafni ástarinnar.

Og svo þykist hann vera fórnarlambið, sjúkur maður sem er yfirgefinn af konunni á ögurstund. Þetta er algjört hneyksli.

föstudagur, 24 október, 2008  
Blogger Helgi said...

Það er ljóst að þú, Jóhannes Benediktsson, hefur lagst undir keðjureykingarmanninn (betur þekktur sem Cigarette smoking man) í ástríðufullum nautnaleik við að ófrægja Hetjuna mína, hann Davíð Dukovony. Þú ert ekkert annað en glerjabrúsi og glópur að halda því fram að Hetjan mín hann Davíð, geti verið ábyrgur fyrir sambandslitum við Séssí.

Greinilega besti leikari í heimi, skv. þessari heimild: http://bestuff.com/stuff/david-duchovny þarf maann að undra eftir að Hetjan mín hefur leikið í stórvirkjum á borð við:
Don't Tell Mom the Babysitter's Dead og Beethoven.

En einnig mannlegur sem lýsir sér í kynlífsfíkninni, þeim mun meiri Hetja í mínum augum.

Nei eftir skrif Jóhannesar er ég eindreginn að gerast ötulli stuðningsmaður Davíðs, Hetjunnar minnar, minn gríski Guð, Adonis jafnvel og berjast fyrir að Vilhjálmur-Róbert verði stjaksettur fyrir að klæmast við Síssí.

föstudagur, 24 október, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Jón: Ekki vera öfundsjúkur.

BJ: Ég mun taka Sessí fyrir á næstunni og einnig mun ég kryfja líðan Vilhjálms Thorntos, sem er víst alveg í rusli þessa dagana fyrir að hafa verið bendlaður við þetta erfiða mál.

Annars liggur gatan mín samsíða Karl Marx Strasse. Verðlaunin er ritsafn Mikaels Torfasonar og bók Þorgríms Þráinssonar Hvernig gera á konuna sína hamingjusama.

Guðmundur Jón: Ég er sammála þér í einu og öllu. Ég var að taka eftir einu smáatriði á bolla-myndinni. Litliputti stendur út í loftið. Hvílíkur bjáni.


Helgi: Ég er brjálaður!

sunnudagur, 26 október, 2008  

Skrifa ummæli

<< Home