sunnudagur

Getur Björgólfur ritskoðað þetta?

Það hafa líklega fáir Íslendingar eytt jafnmiklu púðri í að endurskrifa söguna og Björgólfur Guðmundsson. Hann hlaut þyngstan dóminn í Hafskipsmálinu, tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi. Nú fyrir skemmstu kom út bók um málið, fyrir atbeina Björgólfs, þar er málið rakið. Og það kemur ekki mikið á óvart, þegar höfundur lætur í veðri vaka að dómstólum hafi í þessu tilfelli skjátlast; Björgólfur var fórnarlamb í málinu, ekki skúrkur. Einnig er það vel þekkt, þegar Björgólfur lét eyða fyrsta upplagi bókar um Thorsarana, því þar voru skrif sem vörðuðu fortíð fjölskyldu hans, sem voru honum ekki að skapi. Thorsaranir kom því fyrir sjónir almennings í ritskoðaðri mynd.


Nú stefnir allt í það, að Eimskip verði gjaldþrota. Þetta er þá annað skipafélagið sem Björgólfur setur á hausinn, en það er Íslandsmet. Um þessar mundir er Landsbanki Íslands einnig kominn í þrot. Komið hefur fram, að íslenska ríkið þarf að ábyrgjast skuldbindingar bankans í útlöndum. Mér reiknast það til, að þær skuldir nemi um 4m íKr á hvern Íslending, en líklega ganga eignir bankans eitthvað upp í þær skuldir. En við þessa tölu bætast að sjálfsögðu aðrar skuldir bankans.

Björgólfur bregður á leik kankvís á svip

Ef við vendum kvæði okkar um stund í kross, og skoðum forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, sem hefur undanfarin ár kappkostað við að greiða götu víkinga og landvinningarmannanna. Hvað eftir annað hefur hann reynt að minna á, að hann eigi nú sjálfur pínulitla hlutdeild í afrekum viðskiptajöfranna. Sjáum til hvort hann rifji það upp núna.

Samband Ólafs Ragnars við Björgólf hefur verið æði litríkt í gegn um tíðina. Í Hafskipsmálinu voru þeir svarnir fjendur. Nú eru þeir bandamenn, enda á hvor um sig nokkurn hag af hinum.

Ólafur Ragnar í fullum skrúða

Rifjum upp ummæli Ólafs Ragnars í kjölfar málsins:
Herra forseti, góðir Íslendingar. Hafskipsmálið er stærsta gjaldþrotamál í sögu lýðveldisins. [...] ...en þegar upp er staðið og Hafskipsskatturinn kemur til okkar hinna, standa Ragnar og Björgólfur og allir hinir forstjórarnir í matadorkeðju Sjálfstfl. uppi ríkari, miklu ríkari en þegar þeir hófu þennan leik. Það verður ekki gengið að þessum eignum þeirra. Þeir tapa ekki. En það erum við hin sem munum borga.
Það verður forvitnilegt að sjá hvort forseti Íslands muni hafa eftir álíka ummæli nú, á þessum síðustu og verstu tímum. Staðan er margfalt verri nú, en hún var við þetta tilefni. Og það er önnur spurning, hvar er Ólafur Rangar nú? Af hverju heyrist ekkert í honum?

Einhver mun líklega segja, að Björgólfur beri sjálfur ekki mikla ábyrgð á þessum vanda. En þar er ég ósammála. Fyrirtæki starfar í umboði stjórnar og eftir þeim línum sem hún leggur. Björgólfur var áhættusækinn. Það var hann sem sleppti hundunum lausum, þess vegna ber hann ábyrgðina á tjóninu sem þeir valda [1].

Og nú kemur útgangspunktur þessa skrifa: Hvernig hefur elsku karlinn hugsað sér að endurskrifa þennan kafla lífs síns? Það verður forvitnilegt að sjá hann reyna.


[1]
En auðvitað ber hann ekki einn ábyrgð á vandanum í dag. Ætli hann skrifist ekki á græðgi og óhóflega dýrkun á kapítalisma. Auk staðbundinna aðstæðna og óheppilegrar atburðarrásar (sem þó hefði líklega alltaf endað á einn veg).

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Spyr sá sem ekki veit. Hverjir bera ábyrgð á því að gera íslenska ríkið að ábyrgðaraðila fyrir bankana á erlendri grundu?

Önnur spurning. Að hve miklu leiti héldu einkabankarnir landinu á floti? Var okkur ekki talin trú um það við þyrftum svo mikið á þessum mönnum að halda? Staðreyndin er hins vegar sú að Íslendingar voru í hópi 10 til 12 ríkustu þjóða í heimi fyrir tilkomu einkabankanna. Á árunum 1960-1980 var hagvöxtur hér meiri en hann var eftir 1995.

sunnudagur, 12 október, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Ég veit ekki svarið við fyrri spurningu þinni.

En hvað hina spurninguna varða, kom fram í einhverjum spjallþætti að fyrir tveimur árum hafi skattar Kaupþings greitt upp hluta menntakerfisins í fjárlögum. Þannig að eitthvað hafa nú Íslendingar grætt á þessari starfsemi.

sunnudagur, 12 október, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Í öllu þessu brjálæði þá kemst bara ein pæling hjá mér varðandi þessa færslu:

Djöfull er ég viss um að ef Ólafur Ragnar hallar aftur höfðinu á styttunni af Jóni Sigurðssyni þá er svona stór rauður takki þar sem opnar leynileið í ofurhetjuhellinn hans Ólafs. Ég þori að veðja!

mánudagur, 13 október, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Og inni í hellinum klæðar hann sig í Skattmann gallan sem hann notaði síðast í áramótaskaupinu 87 (held ég):)

mánudagur, 13 október, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Innskot: Það var talað við Ólaf í Kastljósinu í gær. Hann sagðist hafa fundað með fyrirtækjum í landinu undanfarna daga. Minnir að hann hafi tínt til Granda og CCP (sem eru í hópi sárafárra íslenskra fyrirtækja, þar sem innkoman er í erlendri mynt). Hann sagði að fólkið þar hefði almennt séð verið nokkuð jákvætt. - Auðvitað.

miðvikudagur, 15 október, 2008  
Blogger Guðmundur Jón said...

Þessi mynd af Björgólfi minnti mig ansi mikið á þig. Þá er ég að tala um ljósmyndina, ekki myndina sem þú dregur upp af manninum.

fimmtudagur, 16 október, 2008  

Skrifa ummæli

<< Home