miðvikudagur

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar

Í gær ávarpaði Geir Haarde Íslendinga og sagði meðal annars:
Sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot. Engin ábyrg ríkisstjórn teflir framtíð þjóðar sinnar í slíka tvísýnu, jafnvel þótt sjálft bankakerfi þjóðarinnar sé í húfi. Til slíks höfum við, ráðamenn þjóðarinnar, ekki leyfi. Íslenska þjóðin og framtíð hennar gengur framar öllum öðrum hagsmunum.
Með öðrum orðum var hann að segja, að íslenska ríkið myndi skorast undan því að bera ábyrgð á gjaldþroti bankanna - en yfirleitt hefur verið haldið fram að ríkið gripi fallið, ef svo ólíkleg stað kæmi upp.

Davíð Oddsson staðfestir þessa ákvörðun í Kastljósi í gær. Bankarnir verða gjaldþrota og lánardrottnarnir verða látnir taka skellinn, ekki íslenska þjóðin, eins og ríkisstjórnin hafði látið í veðri vaka fram að þessu.

Ég hef verið að velta þessu fyrir mér. Er réttlætanlegt af Íslendingum að svíkja loforð sem þeir hafa gefið? Með ákvörðuninni glatar Ísland óneitanlega trúverðugleika sínum út á við; gildi þess verða dregin í efa. Á móti kemur, að Íslendingar sleppa við hallæri sem gæti varað í áratugi.

En var þetta réttlætanlegt? Brýtur nauðsyn lög? Eða er betra að deyja með sæmd, en að lifa með skömm? Ég veit að þetta hljómar mjög dramatískt hjá mér, en ég finn bara ekki léttari orð til gera þessum vangaveltum skil.

Ég hef ekki komist að niðurstöðu sjálfur. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar veldur því að veraldleg gæði Íslendinga haldast áfram góð. En hvað með gildin og sjálfsvirðinguna?

Mér verður hugsað til Völuspár, þar sem æsirnir rufu eiða sína við borgarsmiðinn. Eftir það fór að síga á ógæfuhliðina með hinu endanlega uppgjöri: Ragnrökum.

Ég ætlaði nú ekki að enda þessi skrif á að varpa fram dómsdagspá, heldur var tilgangurinn með Völuspártilvísuninni að benda á hugsunarhátt Forn-Íslendinga. Þeir sem brjóta eiða sína, eru komnir á hættulegar slóðir.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hvernig getur svona lítil þjóð eins og Íslendingar ábyrgst sparisjóðsreikninga útlendinga svona margra útlendinga?

Svo sýnist mér að Eimskip og Flugleiðir standi illa.

Sem þjóð erum við komin aftur á 13. öld þegar við gengum Hákoni Noregskonungi á hönd.

Má ég mæla með því að við tökum upp refsingar þess tíma. Mér sýnist að nokkrir aðilar hafi unnið sé inn skóggang, þ.e. ævinlanga útskúfun úr íslensku samfélagi.

föstudagur, 10 október, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Já, það er nokkuð til í þessu hjá þér. Ísland er að færast aftur í tímann. Mér sýnist vísitalan vera komin meira en 10 ár aftur, gjaldeyrir er skammtaður úr hnefa, allir bankarnir í eigu ríkisins o.s.frv...

Veit ekki með skógganginn. Hef þó heyrt af Björgólfum á vappi í Drangey. Maður veit svosem ekkert hvað er rétt í því; margar fiskisögurnar sem fljúga þessa dagana.

föstudagur, 10 október, 2008  
Blogger Guðmundur Jón said...

Á Íslandi hefur verið blússandi (og svússandi) hagvöxtur seinasta áratuginn, menn kunnu ekki prósenta sinna tal. Það er gott að búa að þessum hagvexti á svona óvissutímum.

Nei, bíddu, hagvöxtur er bara einhver galdratala sem þýðir í rauninni ekki neitt. Verst að það var enginn búinn að benda okkur á það. Fyrir utan kommana, öfundarmennina og afturhaldsseggina, náttúrulega.

Þessi grein þín er svolítið úrelt, geri ráð fyrir því að álit þitt á aðstæðum hafi breyst. Auðvitað kemur það ekki til greina að Ísland neiti að greiða skuldir sínar. Ríkinu ber skylda til að dekka hvern einstakling með íslenskt ríkisfang, þ.m.t. fyrirtækin. Enda varð hún Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra í Norge eitt spurningarmerki þegar hún frétti af þessum ummælum Davíðs og Geirs.

Best yrði ef Norðurlandaþjóðirnar myndu slá saman og lána okkur fyrir þessu. Að öðrum kosti væri ágætt að fá peningana frá fleiri en einni hítu, annað gæti leitt til þrældóms.

IMF kemur EKKI til greina. Þeir eru ekkert annað en hrægammar. Hef haft það á tilfinningunni að þetta sé að miklu leyti aðför að Íslendingum af hálfu UK og BNA. Bisnesskallarnir ætli að nota Ísland til að redda sjálfum sér úr kreppu.

Máli mínu til stuðnings:

1. BNA skrifaði undir gjaldeyrisskiptasamning fyrr á árinu við allar Norðurlandaþjóðirnar NEMA Ísland.

2. Ísland bað um lán frá þessum félögum og þeir neituðu okkur umhugsunarlaust og þrýstu á, að við leituðum til IMF.

3. Fyrr á árinu skýrði seðlabankastjóri að það hefði verið gerð aðför að krónunni utanfrá. Hverjir voru þar á ferð?

4. Árásin á Kaupþing í skjóli hryðjuverkalaga. Þar sannaði Gordon Brown fyrir öllum, að hryðjuverkaógnin svokallaða er bara skálkaskjól fyrir óvinsæl lög og skerðingu á mannréttindum.

5. Orka er það arðbærasta í heiminum þessa stundina. Einn grundvallarþáttur þessarar kreppu, sem fáir virðast þora að nefna, er fyrisjáanleg olíukreppa. Sumar tölur benda til þess að olíuframleiðslan haldi ekki lengur í við eftirspurnina. Ég veit ekki um það, en endurnýjanleg orka er mjög freistandi hverjum þeim auðmanni/herríki sem hugsar til framtíðar. Það er enginn sem neitar því, að olían muni klárast á þessari öld. Eitthvað verða menn að nota í staðinn.

Með því að siga IMF á okkur myndu þeir geta sett öll sín vanalegu skilyrði fyrir láninu, að selja auðlindir og virkjanaréttindi, afnema velferðakerfið, einkavæða svotil allt nema lögregluna og herinn. Allt verður þetta svo í eigu erlendra stórfyrirtækja, meðan Íslendingar munu aldrei geta borgað aftur þetta lán. Þá eru okkur gert að gefa upp meira af lífsgæðum okkar og auðlindum, þar til ekkert er eftir nema auðug elíta nokkurra útvalinna og blankur almúgi sem er rukkaður um drykkjarvatnið.

Þetta eru ekki samsæriskenningar. Þetta er ástandið í S-Ameríku. Svokallaðir öfgamenn eins og Hugo Chavez hafa barist gegn þessu, en þeir eru jafnan rakkaðir niður í frjálsum fjölmiðlum og fólki talið trú um að þeir séu geðbilaðir.

Mér sýnist GH og DO skilja þetta, enda er það góður leikur að daðra við Rússana. Þvingar hina til að gefa eftir og sýna smá samstarfsvilja.

En ég spyr: Hvað fengum við Íslendingar fyrir stuðning okkar við stríðið í Írak? Einhverjar tilgátur?

laugardagur, 11 október, 2008  

Skrifa ummæli

<< Home