Skuldir
Mikið er að tala um að niðurgreiða eigi skuldir hins og þessa. Framsóknarmenn vilja gefa 20% afslátt jafnt á alla skuldara. Niðurgreiðsla af þessu tagi myndi falla á ríkissjóð og dreifast að lokum á skattgreiðendur. Gagnvart skuldlausum er þetta ekki sanngjarnt.
Dæmi:
Jói pípari er 28 ára og skuldar 40 milljónir. Hann eyddi úr hófi fram; keypti sér stórt hús og sportbíl fyrir peninginn. Framsóknarmenn vilja breyta þessari skuld í 32 milljónir, þannig myndu 8 milljónir falla á ríkissjóð. Þeir vilja m.ö.o. gefa Jóa pípara 8 milljónir.Gummi Ben skuldar hins vegar ekki neitt. Hann var skynsamur, tók engin lán og lifði knappt. Hann fær ekki krónu frá framsóknarmönnum (en hefði þó ekkert á móti því að fá frá þeim 8 milljónir).Báðir greiða sömu upphæð í skatt.
Hvers vegna í veröldinni ætti sá ráðvandi maður, Gummi Ben, að greiða niður skuldir þeirra sem eyddu úr hófi fram. Ekki bjó hann í stóra húsinu. Ekki fékk hann að keyra sportbílinn. - En nú þarf hann skyndilega að greiða niður húsið og sportbílinn hans Jóa. Það er ekki sanngjarnt.
Réttara væri, að skuldarar greiði niður skuldir sínar sjálfir. Jói gæti t.d. minnkað við sig, selt bílinn og húsið og leigt pínulitla kytru á Týsgötunni, eins og Gummi gerði. Skuldin sem eftir stæði myndi dreifast yfir langan tíma. Og ef hann gæti ekki staðið í skilum, myndi ríkið að sjálfsögðu sjá honum aumur með sínum aðferðum.
Þetta er auðvitað sárt. Menn sem hafa lifað eins og kóngar eiga erfitt með að kyngja Týsgötunni. En áttu þeir hvort eð er nokkuð í gamla lífstílnum? Er Jói pípari ekki bara kominn á þann stað í lífinu, sem eðlilegt er að 28 ára menn séu á? Ég held það.