sunnudagur

Radio Ninja komin í loftið

Nú er síðan, sem ég er búinn að vinna í undanfarið misseri, loksins komin í loftið:
www.radioninja.com. Hún er náttúrulega mjög flott og allt það, en er þó ekki gallalaus. Ég held að hún sé samt nógu góð til þess að hleypa henni út. Nú er að sjá hvort hún flýtur eða ekki.

Í gær sendi ég tölvupóst á 200 manns, með tilkynningu um að ég væri búinn að opna síðuna. Þremur klukkustundum síðar datt hún út (og var ekki virk í tíu klukkustundir). Það var svoldið lúðalegt. En hvað um það, hún er komin aftur í loftið núna.

Ég útbjó þennan playlista á RadioNinja í gær. Þetta er gott stöff.


föstudagur

Bara Bröst

Mér var hugsað til þess um daginn, þegar ég heyrði fréttirnar af sænsku samtökunum Bara Bröst, þegar Hannes, strákur sem spilaði með mér fótbolta í gamlar daga, klæddi sig í sundbol og fór í sund. Hann lenti nefnilega í því sama og sænsku stelpurnar, þegar þær reyndu að fara í sund í sundskýlu einum fata. Hann var tekinn á teppið hjá sundverðinum, þar sem útskýrt var fyrir honum að svona gerðu menn ekki. Og svo var hann sendur upp úr.

Jújú, gott og vel. Þetta er ágæt saga og allt það. En það er samt eitt sem truflar mig pínulítið: Hvers vegna í veröldinni var Hannes í sundbol? Hvað vakti eiginlega fyrir honum? Hmm...

þriðjudagur

Josef Fritzl ofl

Ég er búinn að hugsa svoldið um þetta mál þarna í Amstetten, og ég verð að segja að ég er ekki sammála þeim sem taka upp hanskann fyrir Josef Fritzl.


Jú, jú. Það mál vel vera, að hún hafi ,,brotið allar reglurnar". Og það má vel vera, að með því að loka hana inni, hafi herra Fritzl komið í veg fyrir að hún yrði fíkniefnunum að bráð. En... kommon! Öllu má nú ofgera.

Ég er á því, að þeir, sem hafa undanfarna daga borið í bætifláka fyrir Josep, ættu að hugsa málið aðeins betur. Það er eiginlega ekki hægt að réttlæta þetta (Og - í guðanna bænum - hættið að gera gæsalappir með puttunum, þegar þið talið um skrímslið frá Amstetten. Það má alveg færa ágæt rök fyrir því að hann hafi hegðað sér ómanneskjulega).

Að öðru. Ég rakst á tvær skemmtilegar myndir úr símanum mínum. Önnur er tekin í kirkjugarði í Boston. Hin er úr Viggó viðutan bók.

Á legsteininum stóð: Hér hvílir John Hancock (auðvitað, hvar annars staðar)


Eyjólfur: Ég er að drukkna í vinnu! Er að fara á taugum. Verð að fá mér að reykja! Gefðu mér eld! Viggó: Jæja! Ég vona að þú róist við þetta. Jói Ben (í hljóði við sjálfan sig): Já, það vona ég svo sannarlega líka.