Ævintýri á Delhi – vingjarnlegur leigubílstjóri Hádegið var rétt handan hornsins og ég skráði mig af hótelinu. Samkvæmt áætlun, átti flugvélin að fara í loftið 3:45 um nóttina. Ég hafði hugsað mér að í millitíðinni myndi ég hanga. Hugmyndin var góð, en ekki gallalaus, því ég var með fullt að töskum sem ég átti erfitt með að geyma. Eftir mikil heilabrot kom lausnin. Auðvitað! Ég panta mér bara leigubíl fram á kvöld og geymi draslið í honum. Það var lausnin!
Á meðan ég beið eftir leigubílnum hlustaði ég á Smiths. Ég hafði náttúrulega ekki hugmynd um það þá, en lagið sem ómaði í höfði mér, átti eftir vera lýsandi fyrir ferðalagið sem beið mín. Lagið Ask.
Bílstjórinn minnti á Mamúð Soldán úr 1001 nóttu, skeggmikill og burðugur, vafinn í hvít klæði með voldugan túrban á kollinum. Það eina sem hann vantaði var bogadregið sverð. Til einföldunar, skulum við bara kalla hann Soldáninn hér eftir.
Soldáninn virtist ágætur karl. Hann sagði mér, að í þessum leigubíl ríkti fullkomið trúnaðartraust á milli bílstjóra og farþega. Ekkert sem ég segði honum, myndi yfirgefa bílinn. Hann færði meira að segja nokkur rök fyrir því, að ég gæti treyst honum betur en bestu vinum mínum. „Sjáðu til: Vinir þínir þekkja fólkið í kring um þig og þ.a.l. er möguleikinn fyrir hendi, að leyndarmál þín kvisist út.“ Sagði hann sannfærandi. „Ég, á hinn bóginn, þekki engan sem tengist þér. Ég gæti engum sagt!“ Hljómaði rökrétt.
Við keyrðum bæinn þveran og endilangan. Hann var fróðleiksfús og spurði margs. Fyrst voru spurningarnar einfaldar. Hvað heitirðu? Hvað gerirðu? Hvað ertu gamall? Og þar fram eftir götunum. Ég svaraði honum af hreinskilni og sagði deili á mér eins og var. Hann hélt áfram að spyrja.
Eftir tvo klukkutíma stoppuðum við í fallegum garði. Ég teygði úr mér og bauð bílstjóranum að koma með mér í göngutúr. Enn sem komið var, var ég fullkomlega hrekklaus um innræti Soldánsins. Hvern hefði grunað þennan vinalega mann um annað en góðmennsku?
Ég og Soldáninn í garði elskenda
Hann sagði mér að þessi garður, væri garður elskenda. Hér hittust þeir, í þeim tilgangi að gefa væntumþykjunni lausan tauminn. Ég orða þetta svona, vegna þess að öll pörin sem ég sá, voru í sakleysislegum faðmlögum. Ég gat ekki séð, að nokkur staðar fengi lostinn að ráða för. Ásetningurinn virtist af allt öðrum toga.
Soldáninn benti mér á nokkra tólf ára stráka sem voru uppi á virkisvegg að spila krikett. „Sérðu strákana þarna?“ Sagði hann rannsakandi. „Á eftir, þegar garðurinn lokar, munu þeir leggja frá sér kylfurnar og njóta ásta.“
Leggja frá sér kylfurnar og njóta ásta? Hvað þýðir það eiginlega, hugsaði ég án þess að spyrja frekar.
Við yfirgáfum garðinn og ég bað hann að keyra mig á góðan veitingastað. Hann lofaði að skutla mér á einn fínasta staðinn í Delhi. Gott mál.
Á leiðinni verð ég þess var, að Soldáninn er byrjaður að spyrja ágengari spurninga. Og satt best að segja, kunni ég ekki alveg við tóninn í þeim. Hann spurði hvað ungir drengir gerðu sér til skemmtunar á Íslandi.
- Þeir leika sér.
- Hvernig?
- Bara, gera það sem þeim dettur í hug.
- Hvað dettur þeim í hug?
- Bara, fara í alls konar leiki, eða láta reyna með sér í íþróttum.
- Hvers konar leiki?
- Umm... Bara... umm...
Soldáninn virtist ekki ánægður með tilsvör mín. Hann gerði lokatilraun:
- Hvað gera strákarnir saman, þegar þeir eru búnir að leika sér?
- Umm... Þá fara flestir heim til sín í mat. Og svo horfa þeir kannski á sjónvarpið, eða eitthvað.
Nú virtist allur vindur úr bílstjóranum.
- Eru íslenskir strákar þá ekkert í neinni tilraunastarfsemi hver með öðrum?
- Umm...
- Þú veist, að í þessum leigubíl ríkir algjör trúnaður. Ekkert sem sagt er hér, mun yfirgefa bílinn (Innsk.: En þar skjátlaðist honum hrapalega, því innan skamms verður þetta komið á netið).
- Ég veit ekki alveg hvað þú átt við með tilraunastarfsemi?
Hann sagði mér frá því í löngu máli. Í stuttu máli er það þannig: Ungt fólk á Indlandi má ekki rugla saman reitum fyrr en við giftingu. Ströng viðurlög eru við lostafullum athæfum. Því er það svo, að margir Indverjar svala forvitninni með eigin kyni þegar náttúran byrjar að gera vart við sig. Jahérna hér!
Ég sagði honum að íslenskir strákar væru ekki mikið að dufla við samkynhneigð. Það væri eiginlega ekki inni í myndinni – það gilti alla vega hjá flestum þeirra. „Hvað áttu við með samkynhneigð?“ Spurði Soldáninn sár í röddinni. „Þetta snýst ekkert um samkynhneigð. Ungir drengir vilja bara vita hvernig annað fólk virkar. Þeir vilja finna að í brjósti þess slær hjarta, og upplifa einhverja nálgun á ást.“ Ég vissi ekki hverju ég ætti að svara, og áréttaði að náttúran hefði annan gang á Íslandi.
Veitingastaðurinn bar þess ekki merki að vera sá fínasti á Indlandi. Og reyndar sá ég mýs skjótast til og frá undir næsta borði. Ég lét mér það lynda, og borðaði það sem fyrir mig var látið. Það er kannski óþarfi að taka fram, en í kjölfarið varð ég frekar veikur. En hvað um það.
Nú var komið kvöld og ég bað bílstjórann og keyra mig á flugvöllinn. Hann bauð mér að setjast fram í; boð sem ég þekktist. Soldáninn byrjar að segja sögur af sjálfum sér.
- Regla indverskra manna er 2 – 1 – 1.
- Hvað þýðir það?
- Jú, sjáðu til, maður má sofa hjá tveimur konum fyrir giftingu, svo er það eiginkonan og svo má maður halda framhjá einu sinni.
- Og hefur þú haldið framhjá?
- Já.
Þögn. Ég vissi ekkert hvað ég átti að segja (og eiginlega hefði hann átt að segja eitthvað). En jæja. Ég var farinn að átta mig á þessum gæja, og í kjölfarið hafði áhugi minn á samræðum minnkað. Þögnin varði um stund, þangað til að hann hefur upp raust sína:
- Veistu, ég sendist mikið með erlenda kaupahéðna.
- Já, er það? (innan í sjálfum mér: ssspennandi).
- Já, þeir eru oft frekar stressaði.
- Segðu...
- Veistu hvað sumir gera þegar þeir eru stressaðir?
- Nei.
- Þeir leita á mig.
- Ha?
- Já. Þeir strjúka mér og þukla, og stundum fara þeir alla leið. Þetta gera þeir til þess að losa um spennuna.
- Og hvað? Hvað gerir þú?
- Ég leyfi þeim það.
Smá þögn. Ég var að melta þetta.
- Veistu. Ég get ekki betur séð en að þú sért hómósexúal.
- Nei... Nei! (Hann var pirraður á þessari greiningu minni). Þessu er öðruvísi farið hér á Indlandi. Það er ekkert kynferðislegt við þetta.
- Varstu ekki að segja að stundum færu þeir alla leið?
Þögn. Skuggi færðist yfir andlit Soldánsins.
- Hvað er langt á flugvöllinn?
- 10 mínútur.
Þögn. Nokkrar mínútur liðu.
- Ef þú vilt, þá máttu alveg snerta mig. Ég myndi ekki stoppa þig. Við getum alveg farið lengri leið á flugvöllinn.
Í huga mínu hljómaði Smiths lagið. So, if there's something you'd like to try. If there's something you'd like to try. Ask me I wont say no, how could I?
- Nei. Förum beint á flugvöllinn.
Á flugvellinum heimtaði hann að ég hringdi í yfirmann sinn og segði honum hvernig mér líkaði ferðin. Ég gerði það og hrósaði Soldáninum í hástert. Ég var mjög háfleygur í orðavali mínu. Ég var náttúrulega bara að bulla, fannst þetta svo fjarstæð tillaga af hans hálfu. En enginn fattaði það og ég varð þess vað að Soldáninum leiddist ekki hrósið.
Ég gerði upp (borgaði 3.000 kr) og kvaddi. Eitthvað virtist togna á kveðjustundinni hjá Soldáninum, eins og hann ætti eitthvað eftir ósagt. Annað hvort það, eða hann væri að bíða eftir því að ég segði eitthvað. Ég nennti þessari vitleysu ekki og fór. Og þar skildust leiðir okkar.
Þó að margt í fari hans hafi verið mér með öllu óskiljanlegt, var þessi ágæti leigubílstjóri mér hvað skýrasti spegilinn inn í sálarlíf og hugsanagang Indverja. Nú veit ég ekki hvort þetta er rétt hjá mér, en ég komst að niðurstöðu: Ef sett eru óeðlileg bönn á eðlishvatirnar, virðast þær bara leita í aðrar áttir. Rétt eins og hjá kaþólskum prestum. Eða föngum í bandarískum bíómyndum. Hvort sem þessi kenning er rétt eða ekki, þykist ég vera einhvers vísari. Það er alla vega ljóst, að sinn er siðurinn í landi hverju.