sunnudagur

Hit me baby one more time

Fyrir ári síðan hrökk ég upp með andfælum af værum svefni. Á vörunum var stórkostleg uppgötvun. Mig hafði dreymt svarið við spurningu, sem hafði verið mér höfuðverkur í mörg ár. Hvað í veröldinni á Britney Spears við, þegar hún segir:
Hit me baby one more time...
Að mínum dómi, hafði þessi setning verið ótvíræð. Það var ekki hægt að skilja þetta öðruvísi, en að hún væri að biðja einhvern um að tuska sig til. Það liggur í orðana hljóðan. Eða hvað?

Nei, þennan sæla sumardag árið 2007, áttaði ég mig loksins á því, að merkingin var önnur. Þegar hún segir hit me, er það í sömu merkingu og í spilinu 21. Hún er semsagt að frýja einhvern fantinn, að taka sénsinn á sér aftur. Auðvitað.

mánudagur

Í dag er mánudagur

Nú verð ég að fara að skrifa eitthvað á þessa síðu. Annars hætta þeir sárafáu sem enn lesa hana (og aðallega af vorkunsemi við mig) að líta við.

Um daginn lá leið mín upp Klapparstíginn. Það er í sjálfu sér ekki frásögu færandi, nema vegna þess að þar mætti ég einhverjum ljótasta kvenmanni sem ég hef nokkurn tímann augum litið. Ég veit að það er ljótt að segja svona, en ég held að flestir myndu taka undir, hefðu þeir verið í mínum sporum. Hrossatúlli, var lýsingarorðið sem lifnaði við í kollinum á mér. Þessi kona var sannkallaður hrossatúlli.

Þá skyndilega rann upp fyrir mér, að hún ýtti á undan sér barnavagni. Hrossatúllinn átti barn. Hvernig má það vera? Nokkrar skýringar virtust líklegar:

- Vagninn var tómur.
- Tæknifrjóvgun.
- Galdrar.
- Hún var að stela barninu.
- Hún var að stela barninu, af því að hún er norn (sem borðar lítil börn).
- Meyfæðing.

Mig langaði helst til þess að hlaupa á eftir henni og krefja hana svara, en ég hafði það ekki í mér. Bæði var ég nýbúinn að borða, og svo var ég líka pínulítið hræddur. Kannski bar hún með sér einhverja pest? Svo var möguleiki að hún væri setin illum anda? - Það er eins konar regla hjá mér, að leggja ekki lag mitt við þess háttar fólk.

Ég veit svosem ekki hver punkturinn með þessum skrifum er. Ég bara varð að létta á hjarta mínu. Einhver varð að hlusta. Ég gat bara ekki haldið þessu inni, það var ekki hægt. - Á morgun segi ég kannski frá stóra manninum sem ég sá í fyrradag. Meeen... var hann stór! Eins og tré, ég sver það. Eins og tré! Það voru meira að segja fuglar í honum. - Meira á morgun.