mánudagur

Bara að prófa

Ok. Nú þarf einhver að prófa þennan takka hér að neðan, ég get það ekki sjálfur. Ég veit að þetta hljómar eins og eitthvað svindl af minni hálfu, en það er það ekki. Ég lofa.


Jói Ben Donation











En þá er það spurningin: Gefur nokkur maður peninga á netinu? Þarf ekki að vera einhvers konar hvati til þess að fólk láti til leiðast? Einhver gulrót?

Ok. Prófum þá það: Sá sem gefur í söfnunina hér að ofan, fær ritaða um sig einstaka lofgjörð sem mun birtast á á síðunni www.woodyallen.com/joiben. Þetta er once-in-a-liftime tækifæri. Láttu það ekki ganga þér úr greipum. Gefðu núna!

föstudagur

Ástarvella Bítlanna

Ástin er rauði þráðurinn í mörgum bítlalögum. Ég renndi í gegn um fyrstu plötu þeirra Please, Please Me og þar kemur orðið love fyrir 68 sinnum í þeim fjórtán lögum sem þar er að finna. Þar vegur lagið Love Me Do þyngst, með 25 tilfelli. Þ.e. rétt rúmlega fjórða hvert orð er love.

Ég hitti einu sinni stelpu úti í Danmörku sem var með ofnæmi fyrir sjálfri sér. Hún þurfti að ganga með hárkollu, vegna þess að líkaminn hafði hafnað hárinu. Ég veit að þetta kann að hljóma undarlega, en mér finnst eins og það sama gæti gerst fyrir mig ef ég hlusta meira á Bítlana. Ástarvellan verður svo yfirþyrmandi, að eyrun losna af mér. Líkaminn hafnar þeim.

Setningar á borð við þær sem eftir fylgja, vekja upp óþolsviðbrögð.

Dæmi:
I give her all my love
That's all I do
And if you saw my love
You'd love her too
I love her
- And I Love Her
Undanfarna daga hef ég hlustað svolítið á fyrstu fjórar Bítlaplöturnar. Þar nálgast þeir ástina sem frekar einfalt fyrirbæri. Hún virðist geta kviknað algerlega upp úr þurru, hjá fólki sem var að hittast í fyrsta skiptið. Það þarf bara eitt augnsamband og eftir það verður ekki aftur snúið.

Dæmi:
And I saw her standin' there
well she looked at me, and I, I could see
that before too long I'd fall in love with her.
- I Saw Her Standing There

Before this dance is through
I think I'll love you too.
– I’m Just Happy to Dance with You

If you need somebody to love,
just look into my eyes,
I'll be there to make you feel right.
- Any Time At All

Kommon! Þetta er ekki svona einfalt.

Ég veit ekki hversu mikið meira ég þoli af þessari vellu. Ofan á þetta bætist síðan umfjöllun blaðanna um ástarmál Paul McCartneys. Maður er hvergi óhultur. Það þyrfti bara einhver að segja við Macca: Hey! You got to hide your love away.

miðvikudagur

Skrifæði

Dyggir lesendur þessarar síðu hafa undanfarna daga hringt í mig, með skorpna sál (eins og þeir orða það sjálfir). Hver er ástæðan? spyr ég hógvær. Næringarskortur, stynja þeir aumlega. Andlegur næringarskortur. Jói! Þú verður að fara að skrifa eitthvað, annars er fer illa fyrir okkur. Og þá segi ég: Ojú-jú. Ég skal sjá til hvað ég get gert...

Það er hellingur sem ég hef ætlað að skrifa um undanfarna daga. Til dæmis strandhögg Moldvörpufólksins í Euróvisjon. Hvernig þetta lag fékk 50.000 atkvæði er með öllu óskiljanlegt.

Fyrir þá sem ekki þekkja Moldvörpufólkið, býr það neðanjarðar og borða mold. Margt í fari þessa fólks er mjög óljóst. Þó er víst, að enginn stendur upp úr þessum hópi. Allir virðast hafa sömu persónueinkennin, en það hefur löngum verið bitbein fræðimanna hvort það sé yfirhöfuð rétt að tala um einstaklinga innan þessa hóps? Meistari Reinman segir, að réttara væri að líta á hóp Moldvörpufólksins sem eina lífveru – en það er annað mál.

Í gegn um tíðina hef ég gert töluverðar rannsóknir á þessu fólki. Til dæmis komst ég að þeirri niðurstöðu, að það hefur húmor. Á óskiljanlegan hátt, skemmtir það sér konunglega yfir öllu sem Laddi gerir. Elsa Lúnd og Dengsi eru í sérstöku uppáhaldi. Í rannsóknum mínum á þessu hópi, hef ég einnig leitt að því líkum að Moldvörpufólkið borði Toffe súkkulaði og Leo.

Ég er þeirrar kenningar, að Moldvörpufólkið hafi alltaf verið til staðar. Ætli reglan sé ekki, að þar sem finna má lágkúra, þar má einnig finna Moldvörpufólk. Ég hef til dæmis oft brotið heilann um það, hvaða fólk hafði gaman að kveðskapi Æra-Tobba?

Dæmi:

Vambara þambara þeysingssprettir
því eru hér svona margir kettir,
agara gagara yndisgrænum,
illt er að hafa þá marga á bænum.

Einhver hlýtur að hafa haft gaman af þessu bulli, því annars hefði þetta ekki verið gefið út. Mig grunar Moldvörpufólkið. Æri-Tobbi hefur verið Laddi 18. aldar. Alveg hreint óborganlega fyndinn.

En jæja. Ég gæti skrifað endalaust um Moldvörpufólkið. Það lætur ekki að sér hæða.

Ég ætlaði líka að segja nokkur orð um pólitík. Ég hef á undanförnum dögum komist að því, að Sjálfstæðismenn í borginni eru aular. Af hverju eru þeir með þetta vesen. Þetta er bara spurning um að taka ákvörðun. Og þegar út í það er farið, liggur ákvörðunin ljós fyrir. Auðvitað á Hanna Birna að vera næsti borgarstjóri. Til hvers er verið að raða fólki á lista, ef hægt er að hlutast til um þessa uppröðun seinna meir.

Og Ingibjörg Sólrún, heillin. Verð aðeins að kommenta á hana. Um daginn hélt hún ráðstefnu, þar sem rætt var um hvað konur gætu gert til þess að leysa vanda Ísraela og Palestínumanna. Ég verð að viðurkenna, að ég skil þetta ekki almennilega. Af hverju ætti það að skipta máli hver leysir þennan vanda? Af hverju ætti að einskorða þessa ráðstefnu við hóp kvenna? Það meikar engan sens. Solla: Ég veit að þú lest síðuna mína, ef þú getur svarað þessum vangaveltum mínum, endilega skildu eftir komment.

Svo ég haldi nú áfram um Ísrael og Palestínu. Ég er byrjaður að hallast á sveif með Ísraelum. Palestínumönnum er vart viðbjargandi. Maður þarf ekki að gera annað en að horfa á fréttirnar til þess að komast að þessari niðurstöðu, og þó eru flest allir fréttamiðlarnir hallir undir Palestínu. Ég fæ að eiga það inni, að rökstyðja þetta. Því mig langar að ljúka þessari langloku með smá kosningu.

Hvort nafnið er betra á tónlistar-netsíðu:


Tilgangur þessarar kosningar kemur í ljós seinna (þó að eðli hennar hljóti nú að gefa fólki einhverja hugmynd um hvað málið snýst um).