mánudagur

Nokkrar línur um Írakstíðið

Nú eru liðin nokkur ár frá því að Bandaríkjamenn blésu til sóknar í Írak með yfirgangi og hroka. Mikið fannst mér þeir óheilir. Hvað eftir annað báru fréttaveiturnar okkur heimskan róg ættaðan frá Bandaríkjunum. Og alltaf varð maður jafnpirraður á dellunni.


Það er athyglisvert að skoða aðdraganda stríðsins úr nokkurra ára fjarlægð. Ég ætla að rekja hann hér á eftir, en langar til að byrja á því að skoða yfirlýst markmið Bandaríkjamanna sem þeir gáfu út í upphafi stríðs. Þetta voru átta liðir.

1. Enda ógnarstjórn Saddam Husseins.

2. Finna, einangra og eyða þungavopnum Íraka.

3. Finna, handsama og gera brottræka úr Írak þá hryðjuverkamenn sem þar eru.

4. Skaffa upplýsingar um tengslanet hryðjuverkamanna.

5. Skaffa upplýsingar um ólögleg tengslanet sem tengjast þungavopnum.
6. Losa um pólitíska- og viðskiptalega fjötra og hjálpa þeim sem eru í neyð staddir.

7. Standa vörð um (secure) olíueign Íraka og aðrar auðlindir þeirra.

8. Aðstoða Írakan að koma á fót fulltrúalýðræði
.

Mér finnst rétt að bæta við einu atriði í viðbót sem hefur vafalaust vegið þungt í ákvörðun Bush:


9. Hefna fyrir ófarir pabba úr fyrra Persaflóastríðinu.


Bush í vígahug

Rekjum nú áróðursstríð Banadaríkjamanna.


Árið 2002 tönnluðust haukarnir í stjórn Banaríkjanna á því að fara ætti fram vopnaleit í Írak
[1]. Um svipað leyti kynnti yfirmaður CIA fyrir Bush niðurstöður sem hnigu að því, að Saddam Hussein ætti engin þungavopn. Bush skellti skollaeyrunum við þessari vitleysu og hélt áfram sínu striki.

Á sama tíma leitaði Bush allra leiða til að tengja stjórn Saddams við hryðjuverkasamtök Al Qaeda [2]. Það hefði að sjálfsögðu verið frekar heppilegt ef tengingin hefði verið fyrir hendi. En því miður hafði Saddam ímugust á Bin Laden og vildi helst ekki vita af honum. En hvað um það, dagskipunin var ljós: Finna tenginguna hvað sem það kostar.


CIA fór í málið og niðurstaðan var eftirfarandi: Engin tenging á milli Saddam og Al Qaeda. Í kjölfarið settu haukarnir Dick Cheney og Donald Rumsfeld á laggirnar leyniprógram til þess að „endurmeta“ sönnunargögnin og skilgreina
upplýsingarnar sem bárust frá CIA sem „jaðar“ upplýsingar. Niðurstöður leyniprógramsins (sem voru oftar en ekki mjög vefengjanlegar) var síðan lekið til fjölmiðla frá skrifstofu varaforsetans. Þessum upplýsingum svaraði Cheney síðan í viðtölum og vísaði í tilsvarandi fjölmiðla, og tók þ.a.l. ekki ábyrgð á upplýsingunum.

Dick Cheney brosir fallega

Nú bárust sögur af viðskiptum Íraka við Nígeríumenn. Þeir áttu að hafa keypt úraníum frá Afríkumönnunum. Bush hélt því statt og stöðugt fram, að þetta atriði eitt og sér myndi réttlæta stríð á hendur Íraka. CIA rannsakaði skjölin sem sönnuðu söluna og komst að þeirri niðurstöðu að þau væru líklega fölsuð. Bush skellti enn og aftur skollaeyrunum við frásögn CIA og hélt áfram að blása í herlúðrana, á grundvelli úraníumkaupa Íraka. Frontmaður CIA (í þessu tiltekna máli) skrifaði í kjölfarið grein í blöðin og kynnti niðurstöður sínar[3]. Bandaríkjastjórn hætti að tala um þetta í kjölfarið.

Ótvíræðasta vísbendingin um raunverulegan ásetning Bandaríkjanna var dregin fram í dagsljósið árið 2005, en það er minnisblað frá árinu 2002 sem var kallað Downing Street minnisblaðið. Það hljómaði þannig:

„Bush wanted to remove Saddam, through military action, justified by the conjunction of terrorism and WMD. But the intelligence and facts were being fixed around the policy.“
Minnisblaðið vísaði einnig í þáverandi utanríkisráðherra Breta, Jack Straw, sem sagði að það væri alveg ljóst að Bush hefði gert upp hug sinn að grípa til hernaðaraðgerða, en þetta mál væri mjög tæpt, og að lögfræðingur Breta hefði varað við því að það gæti reynst erfitt að réttlæta árásina á lagalegum grundvelli.

Hvorki Bush né Blair neituðu tilvist þessa minnismiða, en bandarískur pólitíkus benti réttilega á að „fixed“ hefði tvöfalda merkingu, og í þessu samhengi þýddi orðið „komið kirfilega fyrir á traustum grunni“ frekar en „fiffað“. – Ég hef mínar efasemdir um það.


Í áróðurstríðinu má einnig tína til ál-túburnar sem Írakar reyndu að kaupa, og Bandaríkjastjórn sagði að væri ótvíræð sönnun þess að Írakar væru með virka kjarnorkuáætlun. En þessar sannanir voru máttlausar og hraktar af sérfræðingum.

Seint á árinu 2002 ýtti þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Paul Wolfowitz, úr vör nýrri einingu innan Pentagon, sem bar heitið Office of Special Plans. Hlutverk hennar var að skaffa sönnunargögn gegn Írak, en starfsemin laut ekki hefðbundnum leyniþjónustuferlum. Gamall CIA stjóri lýsti þessari einingu sem grúppu af hugsjónamönnum, með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um raunveruleikann
, sem hlustaði aðeins á það sem væri þeim í hag og litu viljandi framhjá öllu öðru. Hann sagði grúppuna ljúga til um og/eða hagræða upplýsingum sem sneru að Saddam Hussein, í því skyni að réttlæta herförina gegn honum.

Rétt áður en atkvæðagreiðsla fór fram, í bandaríska þinginu, um hvort veita ætti ráðamönnum umboð til þess að ráðast inn Írak, var 75 öldungardeildarþingmönnum sagt á lokuðum fundi, að Írakar gætu sent flota af ómönnuðum flugvélum, með efna- eða lífefnavopn, til Bandaríkjanna. Þetta var að sjálfsögðu vitleysa, en hefur vafalaust haft áhrif á atkvæðagreiðsluna [4].


Með þessar sannanir í farteskinu réðust Bandaríkjamenn inn í Írak. Skolthelt mál.



Ef við skoðum nú aftur yfirlýst markmið Bandaríkjamanna í upphafi stríðs, sjá hér að ofan, má segja að þau hafi lukkast misvel.

Lokið:

1. Enda ógnarstjórn Saddam Husseins.

7. Standa vörð um (secure) olíueign Íraka og aðrar auðlindir þeirra.

8. Aðstoða Írakan að koma á fót fulltrúalýðræði – á þó eftir að sanna sig.


On going:

3. Finna, handsama og gera brottræka úr Írak þá hryðjuverkamenn sem þar eru.

4. Skaffa upplýsingar um
tengslanet hryðjuverkamanna.

Óljóst hvort er lokið eða ekki:

6. Losa um pólitíska- og viðskiptalega fjötra og hjálpa þeim sem eru í neyð staddir. – Ef Bandaríkjamenn eru á leið frá Írak er ég ansi hræddur um að þetta muni ekki ganga eins og ætlað var.


Ekki hægt:

2. Finna, einangra og eyða þungavopnum Íraka

5. Skaffa upplýsingar um ólögleg tengslanet sem tengjast þungavopnum.


Atriðið sem ég bætti við, númer níu, hefur líklega heppnast. Vissulega náði Bush að hefna ófara föður síns með því að niðurlægja Saddam Hussein og drepa. En hefndin var dýr, því hún kostaði Bandaríkin trúverðugleikann.

Gosi laug stöðugt að engisprettum

Og loks: Hvaða lærdóm má draga af þessu ævintýri Bandaríkjanna?

Svar: Maður á ekki að ljúga; á endanum kemur það alltaf í bakið á viðkomandi.


[1]
En það var í samræmi við ályktun 1441, sem kvað á um „lokatækifæri Íraka til þess að uppfylla afvopnunarskuldbindingar sínar“. Í kjölfarið fór Hans Blix fyrir hópi af vopnaeftirlitsmönnum um landið þvert og endilangt í leit að vopnum. Niðurstaðan var blankó. Engin vopn hér.

[2]

Ég held að Al Qaeda sé bara tígrisdýr úr pappír. Um leið og ráðist var inn í Afganistan flosnuðu þessi samtök upp, annað getur ekki verið. Öflugasti her í heimi ætti auðveldlega að geta knésett þessa einingu manna sem lutu beinni stjórn Bin Laden. Það liggur í augum uppi.

Al Qaeda er í raun og veru efsta stigið á skilgreiningu manns sem fremur voðaverk.

1. Byssumaður
2. Skæruliði
3. Vígamaður
4. Hryðjuverkamaður
5. Al Qaeda

Árið 2003 var skyndilega byrjað að tala um sellu Al Qaeda í Írak. Þegar nánar er að gáð var þetta hópur andspyrnumanna sem hafði starfað lengi í Írak. Hann var ekki tekinn alvarlega og vildi breyta því. Þess vegna byrjaði hann að kenna sig við Al Qaeda og í kjölfarið varð hann stóóórhættulegur. Ég ætla að þetta gildi um aðrar sellur samtakanna. – Þetta hentar Bandaríkjastjórn líka vel. Það er betra að vera í átökum við Al Qaeda en hóp af byssumönnum.

[3]
Í kjölfarið á þessum skrifum gerðist nokkuð sem er alveg óskiljanlegt. Skrifstofa Dick Cheneys lekur því til fjölmiðla, að eiginkona frontmanns CIA (í úraníummálinu) sé njósnari Bandaríkjamanna. En skv. bandarískri löggjöf
er það alvarlegur glæpur . Þannig hugðust haukarnir ná fram hefndum. En hefndin snerist auðvitað í höndunum á þeim eins og allt annað og úr varð hið vandræðalegasta mál fyrir Bandaríkjastjórn.

[4]

Þetta var meðal þeirra sannana sem Colin Powell, þáverandi utanríkisráðherra, bar á borð Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði þennan flota vera í startholunum í flugi sínu til Bandaríkjanna.

miðvikudagur

EM í knattspyrnu

Nú er EM byrjað og ég fylgist með af mikill áfergju. Íþróttafréttamennirnir tala tungumál sem ég skil ekki, en þeir tala um sweepera, bakverði og hafsenta. Svo nota þeir orðið ,,klárlega" í óhófi, sem er alveg hreint óþolandi. Jafnvel verra en þegar fólk líkir eftir Borat, sem er eignlega það versta.

Ok. Ég get ímyndað mér hlutverk bakvarðar. Hann er einhvers konar varnarmaður. En sweeper og hafsent... Ég er alveg blankó. Sweeper ,,sópar" e.t.v. boltanum á milli manna og stjórnar þannig spilinu. Hann er sem sagt miðjumaður. Og hafsent (klæddur í sjóliðaföt með múrskeið í annarri hendinni) hleypur með litla miða frá þjálfaranum til fyrirliðans og kemur þannig mikilvægum skilaboðum í umferð.

Nei, ég skal ekki segja. Ef einhver getur gert grein fyrir hlutverkum hafsent og sweeper, má hann endilega lauma því í kommentakerfið. Ég hef spilað fótbolta í 20 ár og hef aldrei heyrt þetta notað af neinum inni á vellinum. Þetta er eitthvað skrítið.

Gott myndband með WKUK:

sunnudagur

Wikipedia: Wilt Chamberlain, Pelé og Galileo Galilei

Af öllum vefsíðum, finnst mér Wikipedia skemmtilegust. Ég get verið inni á henni í marga klukkutíma, án þess að átta mig á því. Hún nærir mig og svalar.

Tíni til nokkrar skemmtilegar staðreyndir í boði Wikipediu.


Wilt Chamberlain
Þegar Chamberlain var unglingur, var hann mjög óöruggur með sjálfan sig. Hann upplifði sig eins og frík, vegna þess að hann var svo hávaxinn (2,16 m). Hvítt fólk átti það til að snúa sér á götum úti og segja: ,,By golly, look how tall that nigger is." Það kemur ekki á óvart, að þetta útlimalanga frík átti ekki upp á borðið hjá kvenþjóðinni.


Þær voru ekki allar fallegar, konurnar í lífi Chamberlains

Svo byrjaði hann að spila körfubolta, þá breyttist allt. Hann varð frægur og ríkur. Nú hrönnuðust ástleitnar konur upp við fótskör hans, og hann svaf einu sinni hjá 23 konum á tíu dögum. Það þýðir, að í a.m.k einu tilviki hefur hann sofið hjá fleiri en þremur konum sama daginn. Skoðum þetta nánar:

6:30 - Chamberlain vaknar. Hann þarf að fara snemma á fætur, því enn eru til konur í Ameríku sem hann hefur ekki sofið hjá.
6:30 (tveimur sekúndum seinna) - Chamberlain sparkar konunni
út sem gisti hjá honum um nóttina. Dýrmætur tími fer til spillis.
6:45 - Chamberlain skimar í gegn um myndasöguhluta Morgunblaðisins. Í huganum sefur hann hjá konu Dags Blómsturbergs.
6:52 - Chamberlain fer út í búð að kaupa gervi-lim. Á leiðinni þangað sefur hann hjá átta konum og svívirðir hjólagrind.

6:57 - Chamberlain gengur frá kaupunum og sefur hjá þremur í viðbót. Á leiðinni heim berar hann sig við þá sem hann mæti, og gegnir þá einu hvort um ræðir menn, málleysingja eða plöntur.
7:00 - Chamberlain lætur móðan mása, sóló, í lyftunni á leiðinni upp. Hann endurtekur leikinn fyrir utan lyftuna.
7:02 - Chamberlain tekur upp tólið (símtólið) og fær beint samband við klámlínuna. Chamberlain ranghvolfir augunum í mikilli sælu. Þetta er lífið.

Wó! Nú hafa aðeins 32 mínútur liðið og Chamberlain er búinn að sofa hjá ellefu konum. Ég fattaði ekki hvað þetta var létt. Nú finnst mér 23 konur á tíu dögum eiginlega vera frekar lítið. Wilt Chamberlain var algjör lúser.

Sjarmatröllið í skrúða Harlem Globetrotters. Hver fær hann staðist?

En ég var að tala um Wikipediu. Langar að taka fleiri dæmi um ágæti hennar.

Pelé
Pelé heitir réttu nafni Edison, nefndur eftir uppfinningamanninum fræga. Þega
r hann var unglingur, var hann í liði sem kallaði sig Skólausu gaurarnir. Þeir tóku þátt í ,,meistaramóti æskunnar" og sigruðu. Pelé var markahæsti maður mótsins með 148 mörk skoruð í 33 leikjum.

Pelé soccer?

Pelé stærsta hluta ferilsins með Santos, liði í brasilísku deildinni. Eftir HM í Chile, árið 1962, buðu mörg evrópsk knattspyrnufélög honum gull og græna skóga ef bara hann gengi til liðs við sig. Ríkisstjórn Brasilíu var hins vegar á öðru máli og sagði að Pelé væri ,,opinber þjóðargersemi" og hann mætti ekki spila með erlendum félögum. Því varð hann um kyrrt hjá Santos. Besta árið hans hefur líklega verið 1961, þegar hann skoraði 47 mörk í 26 leikjum.

Galileo Galilei
Galileo studdi sólmiðjukenninguna. Páfagarður var ekki hress með það, því kenningin stangaðist á við hugmyndir kirkjunnar um að jörðun væri nafli alheims og allt snerist um hana.


Þannig vildi til að ríkjandi páfi, Urban VIII, var vinur Galileos og bar mikla virðingu fyrir hugviti hans. Þess vegna var kaþólska kirkjan umburðalyndari gagnvart honum en öðrum óþekkum vísindamönnum. Galileo fékk leyfi hjá páfa til að gefa út bók um sólmiðjukenninguna, en aðeins með því skilyrði að að hann tæki ekki ótvíræða afstöðu með kenningunni; bókin átti að draga fram í dagsljósið rökin með og á móti kenningunni. Einnig áttu kenningar páfans að koma fram í bókinni. Menn voru á því, að þarna hefði Galileo landað nokkuð góðum díl.

Queen söng um Galileo

Það sem gerist næst er að Galileo skrifar mikið verk, sem skartar söguhetju sem heitir Simplicius. Simplicius ber nafn með rentu og talar máli kirkjunnar. Hvað eftir annað gerist hann sekur um þversagnir og þumbaskap. Og í nokkrum tilfellum segir Simplicius nokkrar setningarnar orðrétt eftir Urban VIII. Í kjölfarið er Galileo kallaður á teppið, eins og rakið er í símaauglýsingunni.

Ein aðalrök Galileos fyrir sólmiðjukenningunni voru sjávarföllin. Í kenningunni var jörðin á ferð um sólina. Sjávarföllin voru afleiðing hraðabreytinga jarðarinnar, rétt eins og vatn sem skvettist upp á veggi glass þegar því er sveiflað. Um þetta leyti bar Jóhannesar Kepler á borð kenningar sínar um samband tunglsins og sjávarfalla, en Galileo gaf ekki mikið fyrir þær og kallaði hugmyndirar ,,tilgangslausan skáldskap".

Mér finnst þetta heillandi. Þarna voru menn að leita svara við alvöru spurningum.

Ætli ég kalli þetta ekki gott í dag, þetta varð eiginlega lengra en það átti að vera. Niðurstaða? Hmm.. Wikipedia gleður mig. Wilt Chamberlain er lygari.