Svo núna, er búið að birta niðurstöðu læknarannsóknar sem gerð var fyrr í mánuðinum. Hún sannaði að fangarnir voru ekki þunglyndir. Og það rennir stoðum undir kenningar yfirmannsins, segir læknir búðanna. Að „pólitískar ástæður“ hafi rekið þá í gröfina - ekki ill meðferð.
Pólitískar ástæður [1]. Já, ég skal ekki segja. Vafalaust er það að einhverju leyti rétt hjá þeim. Þetta eru samantekin ráð. Það fer ekki á milli mála. Það fer heldur ekki á milli mála, að þrjú sjálfsmorð eru meira áberandi en eitt. En að sama skapi, finnst mér það deginum ljósara að þetta afleiðing örvæntingar fanganna. Þeir eru búnir að vera þarna í um fimm ár, í fullkominni óvissu um hve lengi í viðbót þeir mun þurfa að dúsa þarna [2]. Auðvitað líður þessum mönnum ömurlega og sumir þeirra hljóta að vera komnir á heljarþröm. Það er ekkert undarlegt að þeir grípi til örþrifaráða.
Og þá er það aðalspurningin (og spurningin sem yfirmaður búðanna ætti að spyrja sjálfan sig): Hefðu þessir menn svipt sig lífi, ef þeir hefðu fengið sanngjarna málsmeðferð og möguleikann á að afplána dóm sinn með reisn? Ég er viss um að þeir hefðu ekki gert það [3].
[1]
Pæling: Ef þetta voru pólitískar ástæður, þá dóu þessir vesalings menn fyrir einhvern pólitískan málstað. Sem hlýtur að gera þá að píslarvottum. En auðvitað er ekki fjallað um þá sem slíka (sem væri reyndar fáránlegt).
Önnur pæling: Verða menn píslarvottar bara ef þeir deyja fyrir málstað sem allir eru sammála um að sé göfugur? Og það sama gildir um hryðjuverkamenn. Þeir eru kallaðir skæruliðar ef málstaður þeirra er talinn vera göfugur. Það voru alltaf skæruliðar í Téténíu fram að 11. september 2005. En svo breyttust þeir í hryðjuverkamenn.
Mogginn á oft erfitt með að ákveða sig hvort kalla eigi einhver hryðjuverkamann eða skæruliða (aðallega í tengslum við Palestínu). Þá kallar hann viðkomandi yfirleitt vígamann. Það er skemmtilega hlutlaus nálgun á viðkomandi mann, hann er einhvers staðar mitt á milli þess að vera hryðjuverkamaður og skæruliði.
[2]
Einhvers staðar las ég, að á daginn hírist þeir í búrum gerðum úr hænsnaneti. Þá er búið að takmarka helstu skynfærin, með því að binda fyrir augu þeirra, eyru og munn. Og svo kæmi það mér ekki á óvart, ef fangaverðirnir stunduðu níðingsleg og niðurlægjandi vinnubrög - eins og starfsbræður þeirra í Írak gerðu (og Dick Cheney vildi færa í lög, þegar hann talaði máli pyndinga). En hvað veit maður.
[3]
Talsmaður herstöðvarinnar lýsti því yfir í fyrra, að 36 sjálfmorð hefðu verið reynd af 22 föngum (#). Þetta hljóta að vera lægri mörk á fjölda sjálfsmorðstilrauna. En gefum okkur, að þetta sé rétt tala, þýðir það að 5% fanga við Gúantanamóbúðirnar hafa reynt sjálfsmorð. Það er frekar mikið.