miðvikudagur

Fyrir um hálfum mánuði síðan frömdu þrír fangar sjálfsmorð í Gúantanamó fangabúðunum. Gegndrepa af hroka og mannfyrirlitningu, lýsti yfirmaður búðanna því yfir, að þarna hafi verið á ferðinni „óhefðbundnar hernaðaraðgerðir“; einhvers konar áróðursbrella af hálfu fanganna; hafa líklega viljað vekja athygli á sér. Og útgangspunktur hans virtist vera: Við skulum ekki gera mál úr þessu. Gerum þessum athyglissjúku föngum það ekki til geðs. Ef við gerðum það, þá hafa þeir náð takmarkinu sínu.

Svo núna, er búið að birta
niðurstöðu læknarannsóknar sem gerð var fyrr í mánuðinum. Hún sannaði að fangarnir voru ekki þunglyndir. Og það rennir stoðum undir kenningar yfirmannsins, segir læknir búðanna. Að „pólitískar ástæður“ hafi rekið þá í gröfina - ekki ill meðferð.


Pólitískar ástæður [1]. Já, ég skal ekki segja. Vafalaust er það að einhverju leyti rétt hjá þeim. Þetta eru samantekin ráð. Það fer ekki á milli mála. Það fer heldur ekki á milli mála, að þrjú sjálfsmorð eru meira áberandi en eitt. En að sama skapi, finnst mér það deginum ljósara að þetta afleiðing örvæntingar fanganna. Þeir eru búnir að vera þarna í um fimm ár, í fullkominni óvissu um hve lengi í viðbót þeir mun þurfa að dúsa þarna [2]. Auðvitað líður þessum mönnum ömurlega og sumir þeirra hljóta að vera komnir á heljarþröm. Það er ekkert undarlegt að þeir grípi til örþrifaráða.


Og þá er það aðalspurningin (og spurningin sem yfirmaður búðanna ætti að spyrja sjálfan sig): Hefðu þessir menn svipt sig lífi, ef þeir hefðu fengið sanngjarna málsmeðferð og möguleikann á að afplána dóm sinn með reisn? Ég er viss um að þeir hefðu ekki gert það [3].


[1]
Pæling: Ef þetta voru pólitískar ástæður, þá dóu þessir vesalings menn fyrir einhvern pólitískan málstað. Sem hlýtur að gera þá að píslarvottum. En auðvitað er ekki fjallað um þá sem slíka (sem væri reyndar fáránlegt).

Önnur pæling: Verða menn píslarvottar bara ef þeir deyja fyrir málstað sem allir eru sammála um að sé göfugur? Og það sama gildir um hryðjuverkamenn. Þeir eru kallaðir skæruliðar ef málstaður þeirra er talinn vera göfugur. Það voru alltaf skæruliðar í Téténíu fram að 11. september 2005. En svo breyttust þeir í hryðjuverkamenn.

Mogginn á oft erfitt með að ákveða sig hvort kalla eigi einhver hryðjuverkamann eða skæruliða (aðallega í tengslum við Palestínu). Þá kallar hann viðkomandi yfirleitt vígamann. Það er skemmtilega hlutlaus nálgun á viðkomandi mann, hann er einhvers staðar mitt á milli þess að vera hryðjuverkamaður og skæruliði.


[2]
Einhvers staðar las ég, að á daginn hírist þeir í búrum gerðum úr hænsnaneti. Þá er búið að takmarka helstu skynfærin, með því að binda fyrir augu þeirra, eyru og munn. Og svo kæmi það mér ekki á óvart, ef fangaverðirnir stunduðu níðingsleg og niðurlægjandi vinnubrög - eins og starfsbræður þeirra í Írak gerðu (og Dick Cheney vildi færa í lög, þegar hann talaði máli pyndinga). En hvað veit maður.


[3]

Talsmaður herstöðvarinnar lýsti því yfir í fyrra, að 36 sjálfmorð hefðu verið reynd af 22 föngum (#). Þetta hljóta að vera lægri mörk á fjölda sjálfsmorðstilrauna. En gefum okkur, að þetta sé rétt tala, þýðir það að 5% fanga við Gúantanamóbúðirnar hafa reynt sjálfsmorð. Það er frekar mikið.

þriðjudagur


Mogginn góður. Í gær var ásjóna netmiðilsins bleik en ekki blá, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Með þessu voru þeir að sýna femínistum samstöðu. Ekkert nema gott um það að segja, nema svo ramba ég inn á þessa síðu, þar sem Morgunblaðsmenn eru enn að reifa samskipti sín við félag femínista. Virðast í lagi. En bíðum hæg. Er það rétt?


Við nánari athugun má sjá tvær auglýsingar á síðunni. Í fyrri er spurt: Vantar þig drátt? Og næst keyrir appelsínugulur dráttarbíll yfir síðuna, sem heitir Vaka. Þ.e. ef mig vantar drátt, get ég hringt í Vöku. Hún reddar málunum. Í seinni auglýsingunni er hreinlega sagt: Mamma sér um öll þægindi heimilisins. Og svo er þrætt í gegn um þjónustu Mömmu.

Mogginn er sannur.

miðvikudagur


Ég er búinn að vera bissí síðustu daga, en nú er aðeins farið að rofa til. Í gær svaf ég mína venjulegu sextán tíma og vaknaði með leiðinlegan verk í bakinu. Hafði víst sofið í óþæginlegri stellingu. En þetta var ágætt. Ég endurnærðist eftir langa og hvíldalitla vinnutörn.

Ég reyni að horfa sem mest á HM. Nýjasta tískuorðið í fréttamannabransanum virðist vera ,,klárlega". En fréttamenn brúka það í tíma og ótíma.
,,Þetta var klárlega hendi," segir einn fréttamaðurinn. ,,Klárlega, alveg klárlega." Tekur hinn undir.

Tískuorðið hjá vitlausum framsóknarmönnum (aðallega notað í kring um fundarhöld) virðist vera ,,eindrægni". Nokkur dæmi:
Halldór, Siv, Björn Ingi, vefsíða framsóknarflokksins og Rúv um miðstjórnarfundinn. Svo skiptust þeir Halldór og Guðni Ágústsson að segja þetta í fréttatímunum þegar framsóknar-sundrungin reis hvað hæst.

Ég var skammaður um daginn fyrir að hafa tekið kommenta-kerfið út. Skammirnar komu í kjölfar ásakana, um að ég hlaði menn óhróðri hér á síðunni, án þess að gefa þeim tækifæri á svara fyrir sig. Þessu er ég fullkomlega ósammála. Það er bara fáránlegt að halda þessu fram. Þetta er álíka fáránlegt og brandarinn sem Ellert Guðjóns (kt. 040380-3559) sagði mér um daginn:

Gáta: Hvaða ávöxtur er bestur í leikfimi?
Svar: Banana-splitt!

Eða, þegar hann í fjölmörgum orðum útlistaði fyrir mér af hverju Bono væri svona mikill snillingur. Ég get ekki sagt að ég skilji hann. Eins með ásakanirnar. Þær eru alveg út í hött! Að halda því fram að ég leggi öðru fólki orð í munn. Klárlega út í hött.