mánudagur


Ég las það í blað um daginn, að Ice-T og David Hasselhoff ætluðu að byrja að rappa saman. Það finnst mér skrýtið, og eiginlega alveg fáránlegt. Samkvæmt fréttinni, ætlaði David að taka upp rapp-nafnið Hassel the Hoff. Nokkuð gott, en samt. Ég kaupi þetta ekki alveg.

Ég fór á netið, aðeins til að fræðast um kappann. Og, jamm. Ekki amalegt líf sem hann hefur lifað.

Hann fæddist í Bandaríkjunum árið 1952 og byrjaði snemma að vinna sem fyrirsæta. Meðal þess sem hann auglýsti voru leðurjakkar, en þá auglýsti hann á pínuskýlu einum fata.

Hoffmalakoff á góðri stundu.

Það er eitthvað við sundskýlur sem meikar illan sans fyrir mér. Þær fúnkera bara einar. Eftirfarandi samsetningar ganga ekki:

  1. Sundskýla + axlabönd
  2. Sundskýla + pípuhattur
  3. Sunskýla + bindi eða slaufa um hálsinn
  4. Sundskýla + línuskautar
  5. Sundskýla + rúllukragapeysa

Jæja. Ætli ég gæti ekki talið upp allar samsetningar í heiminum og þær eru allar asnalegar. Aðalpunkturinn var s.s. að benda á glæpinn sem framinn er, þegar sundskýlu og leðurjakka er blandað saman. En ég var að tala um Hasselhoff.

Eftir nokkur ár sem fyrirsæta, fékk hann starf í þáttaröðinni um Knight Rider, þar sem hann lék aðalhlutverkið, Michael Knight. Knight þessi átti ansi forlátan bíl, sem var öllum græjum búinn og gat talað. Eins og við var að búast, sló þátturinn í gegn og Hasselhoff varð ofurstjarna.

David Hasselhoff og Gary Coleman, Knightrider lúrir í bakgrunni

Um þetta leyti var Berlínarmúrinn að falla, og Hasselhoff flýgur til Þýskalands í líki friðardúfu og gefur út lagið Looking for Freedom. Eins og við var að búast, slær lagið í gegn í Þýskalandi og verður eins konar sameiningartákn Þjóðverja á þessari sögulega merku stund. Fjölmiðlarnir í Þýskalandi töluðu meira að segja um, að hann væri stærsta nafnið í bransanum síðan Bítlarnir voru og hétu. Ég leyfi mér að efa það.

Þvínæst, árið 1989, hefjast tökur á Baywatch. Fyrsta serían gekk illa, en eftir að Hasselhoff keypti réttinn á þáttunum fóru hjólin að snúast.

Hinn síkáti Hoff, í hlutverki Mitch Bucannon

Þættirnir voru góðir, en mér er minnistæðast það sérstaka samband sem ríkti á milli þeirra feðga Mitch og Hoby. Ef minnið svíkur ekki, átti Hoby fullt af vandamálum, flest tengd raunum unglings sem var að þroskast til manns. En Mitch gat alltaf hjálpað honum, og leysti hvert vandamálið farsællega. Og Hoby þakkaði honum fyrir að vera svona góður faðir.

Eftir þáttaseríuna um Baywatch, ætlaði Hoff að leggja undir sig bandaríska tónlistarmarkaðinn. En sama kvöld og hann átti að halda jómfrúartónleika sína, var eltingarleikurinn við O.J.Simpson sýndur í sjónvarpinu. Og allir misstu áhugann á framlagi Hasselhoff. Eftir það hætti hann við að sigra Ameríku.

Undanfarin ár hefur kappinn stigið á fjalir leikhússins og tók meðal annars þátt í uppsetningu söngleiksins Chicago. Hann lenti í því fyrr á þessu ária að skera nokkrar sinar og slagæð í hendi, þegar hann rak sig í ljósakrónu á meðan hann var að raka sig. Ég skil ekki alveg hvernig hann fór að því, en ímynda mér að hann hafi verið að nota gamaldags rakhníf til starfans. Og svo, loks, les maður það í blöðum að hann ætli að hassla sér völl í rappgeiranum. Að hann sé kominn í samstarf við Ice-T. Og, ef allt fer sem horfir, verður hann orðinn heitasti rappari Bandaríkjanna innan tíðar. Hassel the Hoff.

En, já. Þetta er magnaður maður.

sunnudagur


Ég kíkti um daginn til Kaupmannahafnar í heimsókn. Eins og við var að búast skemmti ég mér konunglega, enda vinir mínir með eindæmum skemmtilegir. En ég er kominn aftur til Reykjavíkur, og það er líka allt í lagi.

Nú sit ég í Ráðhúsi Reykjavíkur, vegna þess að netið heima hjá mér er í ólagi. Og ég njósna. Ég njósna um stelpu eina, sem var með mér í menntaskóla. Þarna er hún, hönd í hönd við rígfullorðinn mann. Hann virðist vera fertugur. Kannski er þetta pabbi hennar? Samt ekki. Ég held að þau séu elskendur.

Hún gekk framhjá mér áðan, án þess að heilsa. Það getur bara þýtt þrennt.
  1. Hún man ekki eftir mér.
  2. Hún man eftir mér, en vill ekki heilsa mér því hún er hætt að tala við jafnaldra sína.
  3. Dulargervið er að virka (ég er í dulargervi).

En, hvað er málið? Þessi hressa og skemmtilega stelpa. Hún hefði getað náð í hvern sem er, en þarna er hún, að flétta fingrum við gammel Klaus. Uss suss suss... Ekki er það nú gott. Og, svona þegar ég hugsa um það, verður að stoppa þetta. En hvernig geri ég það?

,,Þú mátt þetta ekki!" Gæti ég öskrað. ,,Í nafni velsæmis og heilbrigðrar skynsemi, frábýð ég ykkur að haldast í hendur." Og svo myndi ég hringja í lögregluþjón, sem myndi færa þau burt í járnum. Og hún yrði send í fangelsi fyrir konur. Hann í útrýmingarbúðir.

Æ, hvað er ég að segja? Auðvitað mega þau þetta. Ástin er blind. Og þó hún væri að slá sér upp með dýri eða plöntu, ætti ég enga heimtingu á að stoppa það. Eða hvað?

Það ætti að setja lög um svona lagað. Þau gætu hljómað þannig:

Löggjöf um ást: Þegar karl og kona fella saman hugi, má ekki muna
meira en 15 árum á þeim í aldri. Annars...

Já, það væri töff.

Jæja. Ég ætla að hætta þessu. Konuanginn í afgreiðslunni er farinn að senda mér illt auga fyrir einokun mína á tölvunni.

mánudagur

Zidane og skallinn

Nokkur orð um HM. Hvað er málið með Zidane? Þessi geðþekki maður, sem alltaf virðist vera í jafnvægi. Hvað hljóp í hann? Að hann skuli stanga Ítala-skrattann í magann. Það er með öllu óskiljanlegt.

Og Ítalir! Af hverju unnu þeir! Ohh... Þeir geta ekki neitt! Nei, það er ekki rétt. Þeir kunna að hugsa vel um hárið sitt. Það er eitthvað sem Frakkarnir virðast vera lélegir í, enda 90% af liðinu með skalla. Sérstaklega Zidane. Hann er með ofur-skalla.

Fyrir um ári síðan skrifaði ég sögu um þennan skalla. Hún var ekki alveg jafngóð og ég hafði vonað, en þó allt í lagi. Þannig séð. Söguna má finna hér.

Og þessir Ítalir! Þessar guðsvoluðu mannleysur! Það fyrsta sem þeir gera, eftir að úrslitin voru orðin ljós, var að klippa hárið á einum liðsmannanna. Hvað annað. Svo var allt brjálað, ég átti erfitt með að átta mig á hvað var að gerast. Einn Ítalanna var kominn á nærbuxurnar. Tveir lágu á jörðinni, í full-innilegu faðmlagi. Annars staðar á vellinum sátu tveir Ítalir saman á stól. Þeir voru líka að faðmast.

Hvað er málið? hugsaði ég. Eru þetta eintómir hommar?

En, jæja. Hommar eða ekki. Skiptir ekki máli. Þeir unnu.

p.s.
Læt þetta ágæta Hasselhoff-myndband fylgja. Hann er svakalegur.