þriðjudagur

Fálkaorðan, tvífari dagsins og gáta

Ég var að lesa mér til um íslensku fálkaorðuna. Er hún nokkurs virði? Í bréfi Danakonungs, árið 1921, segir:
,,Oss hefur þótt rétt, til þess að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar að einhverju leyti, opinbera viðurkenningu, að stofna íslenska orðu. “
En er það svo? Hafa allir, sem fá þessa orðu, ,,skarað fram úr öðrum í eflingu heiðurs og hags fóstujarðarinnar“. Fær ekki bara ósköp venjulegt fólk þessa orðu? Jú jú. Það er duglegt í starfi, ég efa það ekki í eina sekúndu. En uppfyllir þetta fólk hin metnaðarfullu skilyrði konungs?

Ég þræddi í gegn um listann. Á hverju ári fá 30 - 40 manns þessa orðu, þar af kannaðist ég bara við tvo eða þrjá. Svo eru einhverjir samningar í gildi, að útlendir embættismenn eru sæmdir orðunni ef þeir koma í heimsókn. Þannig fengu tveir þýskir einkaritarar og einn senidráðneutur (hvað svosem það nú þýðir)
orðuna árið 2003.

Þetta finnst mér gera lítið úr ágæti orðunnar.

Árið 2005 fékk Fransesca von Habsburg [1]orðu, en engin skýring fylgdi með. Sagan segir, að hún hafi fengið orðuna fyrir að vera vinkona Dorritar. En það sel ég að sjálfsögðu ekki dýrar en ég keypti.

Ok. Hverjir fá þessa orðu? Hellingur af einhverju fólki í Breiðholtinu, einhverjir útlendingar og vinir Dorrit. Frábært. Er orðan ekki verðlaus? Fylgir nokkur sómi þessari orðu? Er hún ekki bara til vitnis um hégóma þeirra sem þiggja hana? Nei, ég spyr.


Þyrfti ekki bara að stofna nýja orðu. Hún yrði veitt aðeins einu sinni á ári, einum eða tveimur einstaklingum í senn. Enginn fengi hana sjálfkrafa (eins og raunin er nú með ráðherra). En kannski væri einhver kvóti í gangi. Á fimm ára tímabili væri orðan veitt tveimur stjórnmálamönnum,
tveimur listamönnum, tveimur athafnamönnum, einum íþróttamanni og þremur ,,wildcördum“ sem gæti verið hver sem er. Þessi orða bæri nafnið Æðsta orða íslenska lýðveldisins. Svo væru aðrar orður í gangi. Til dæmis Vinir Dorritar og Útlendir diplómatar orðurnar. Nei, bara pæling.

Önnur pæling. Á einhvern mjög undarlegan hátt líkist merki okkar dáða og mjög svo virta forseta ...

...þessari mynd af David Hasselhoff:


Skrýtið...

Að lokum langar mig að athuga hvort einhver fatti gátuna mína. Hér er hún:
Yfir hvaða haf, sigldi Sæmundur fróði yfir á selnum? Og um hvað var hann að tala um, þegar hann spurði selinn: Á hvort ætlar þú að trúa á, ljósið eða myrkrið? Í hvoru liðinu, góða eða vonda, viltu frekar vera í? Með hvorum, englunum eða púkunum, heldur þú með? Og við hvern var Sæmundur fróði í ,,raun og veru“ að tala við, þegar hann spurði þessara spurninga?
Ok. Það má svara þessum spurningum hér að ofan. En það hefur samt enga merkingu, því þetta er bara búllshitt. Alvörugátan er: Hvað er undarlegt við gátuna hér að ofan?

Verðlaunin eru ekki af verri endanum, enda eigið þið möguleika á því, að vinna ykkur inn: Tíu tíma kort í Keiluhöllina, aaadídas íþróttavörur o.s.frv...

mánudagur


Í gær sá ég Superman Returns. Hún er léleg. Atriðið í endann, þegar hann rífur heilt land upp með rótum og flýgur með það út í geim, er alveg fáránlegt. Er kröftum hans engin takmörk sett? Að lyfta bíl eða rútu. Jú, ég skal gúddera það. En ekki heilu landi. Það er bara rugl.

Þegar hann er kominn með landið út í geim, kastar hann því í burtu, örmagnast og fellur til jarðar. Og með því bjargaði Súperman málunum. Með því að kasta landinu út í geim. Svona eftir á að hyggja spyr maður sjálfan sig hvort þetta nýja land skipti nokkru máli. Var ekki bara allt í lagi að leyfa því að vera? En, jæja. Það var kannski ekki það sem ég ætlaði að skrifa um.

Súperman eins og við þekkjum hann í dag.

Geimferðir Súpermans eru undarlegt fyrirbæri. Nú er ég ekki sleipur í geimvísindum, en einhvern tímann heyrði ég það að hlutir ættu það til að fuðra upp í gufuhvolfi jarðar. En... Jæja, jæja. Lítum framhjá því um stund. Það sem fór meira í taugarnar á mér, var hvernig myndin er tækluð eftir að hann er kominn út í geim. Ok. Hann er úti í geimnum á náttfötunum. Verður honum ekki kalt? Það er -260°C stiga hiti þarna. Og hvernig andar hann? Það er ekkert súrefni. Og ætti hann ekki að blása út eins og blaðra og springa, þar sem loftþrýstingurinn er ekki lengur til staðar? Það er ekkert við þetta sem meikar sens.

Hefði ég skrifað handritið, hefði það verið allt öðruvísi:

...Og Súperman reif landið upp með rótum og tók stefnuna út úr sólkerfinu.
[Nærmynd á Súperman, við heyrum hugsanir hans]
- Guð minn almáttugur, þetta er þungt! Heilt land. Hvað er ég að spá? Af hverju er ég að fljúga með það út úr sólkerfinu? Jæja, fyrst ég er byrjaður, get ég eins klárað þetta.
Nú fór áhrifum gufuhvolfsins að gæta og landið sem Súperman hélt á byrjaði að molast í sundur. Sjálfur upplifði hann hræðilegan sársauka og veinaði af angist.
- Aaa... aaa... aaa...! Aaa... aaa... aaa..! Aaaaaa....!
Þegar ofurhetjan komst út fyrir þyngdarsvið jarðar var hann þrekaður mjög og sviðinn eftir eldtungur gufuhvolfsins.
- Brr... það er svoldið kalt hérna. Og... ég get ekki andað. Samt gott að ég er ofurhetja. Ég er geðveikt góður að halda niðri í mér andanum.
Hann hélt áfram að fljúga. Þyngdaraflsins gætti ekki lengur og nú var landið orðið létt sem fis í höndum ofurhetjunnar. En þar sem þyndaraflið var ekki lengur til staðar, byrjaði Súperman að tapa jafnvæginu. Það er nefnilega kunn staðreynd, að fljúgandi verur eiga mjög erfitt með að fóta sig í nýju þyngdarsviði. Hann flaug því, stjórnlaus eins og drukkinn mávur, út í svartan geiminn.
- Brr... það er fáránlega kalt! Af hverju klæddi ég mig ekki betur. Og þegar út í það er farið, af hverju er ég alltaf í þessu hommalega búningi? Hver gengur eiginlega með skikkju nú til dags? Hvað er ég að spá? Og hvað er að gerast núna? Ég er allur að belgjast út! Ónei. Þetta hefur örugglega eitthvað að gera með loftþrýstinginn...
Og í því gliðnaði líkami ofurmennisins í sundur og sprakk í miklum hvelli. Samt var ekkert stórbrotið við þessa sprengingu. Bara hár hvellur.

Ofurhetjan verpir eggi.

Nú var ég skyndilega að muna eftir öðru. Í gamla daga ætluðum við Baldur Héðins að stofna skólablað. Við höfum líklega verið 11-12 ára og vorum mjög metnaðarfullir. Blaðið hét Sámur frændi og í fyrsta tölublaðinu var viðtal við Árna Tryggvason leikara (en hann stakk einmitt upp á þessu ágæta nafni). Fyrsta tölublaðið innihélt líka teiknimyndasöguna Slúperman, en það var feit og klaufaleg ofurhetja sem gat ekki gert neitt rétt. Hann gat ekki einu sinni flogið, því hann var svo þungur - og hvort fyrsta sagan hafi verið um einhvern megrunarkúr, ég man það ekki. En þetta blað var ágætt. Þó getur útgáfubransinn verið harður og það fengum við Baldur að reyna. Nafnið á blaðinu fór eitthvað fyrir brjóstið á einum kennaranna, sem tilkynnti okkur að blað með þennan titil yrði ekki gefið út innan veggja skólans. Og þarmeð var málið afgreitt. Við Baldur hættum við útgáfu og þannig fór fyrsta og síðasta skólablað ÆSK fyrir lítið.

Um helgina hitti ég ágætan vin mitt á American Style í Tryggvagötu. Eins og venjulega voru ofurkraftar ofarlega á baugi, en hann sagði að ef hann ætti að velja sér krafta, myndi hann helst vilja fljúga. Ég benti honum á nokkur tæknileg atriði sem gott er að hafa á bak við eyrað, til dæmis að hafa ætíð meðferðis áttavita ef ske kynni að hann myndi lenda í þoku. Hann þakkaði mér góða ráðleggingu og byrjaði að hjala um þau góðverk sem hann gæti gert. Ég hristi hausinn og benti honum á að líklega myndi hann bara gagnast í flutningum, og þó er það ekkert víst. Þó hann geti flogið, verður hann ekkert sterkari fyrir vikið. Líklega gæti hann bara unnið við að þrífa glugga, og ekki er það nú skemmtilegt. Hann tók undir það og vildi skipta um ofurkrafta, en var of seinn. Hann var búinn að velja.

En, já. Þetta var ágætt.

þriðjudagur



Við hliðina á mér býr gömul kona. Hún læðist út á nóttunni og tekur öll rafmagnstækin mín úr sambandi. Um daginn tók hún ísskápinn minn úr sambandi. Þá varð ég pínulítið reiður. En þetta var í fyrsta skiptið sem hún gerði þetta, þannig að ég fyrirgaf henni það. Yfirleitt lætur hún sér nægja að slökkva á gang-ljósið og port-ljósið, en stundum tekur hún líka þvottavélina úr sambandi. Ég skil hana ekki.

Ég hef oft mætt henni. Hún fer á stjá á milli tvö og þrjú á nóttunni, í drifhvíta náttsloppnum sínum. Minnir einna helst á vofu. Þegar ég stend hana að verki verður hún skömmustuleg, segir ekki neitt og hverfur aftur inn í íbúðina sína. Og ef ég ávarpa hana, freistar hún þess að læðast burt óséð. Rétt eins og ég geri þegar stórir hundar gelta að mér. Ef ég fer nógu hægt í burtu taka þeir síður eftir mér.

Ég er að hugsa um að leggja helling af músgildrum í íbúðina mína. Þá kannski hættir hún sér síður hingað yfir. Eða koma fyrir einhvers konar skynjara sem byrjar að blikka þegar hann nemur hreyfingu. Myndi jafnvel pípa eða gefa frá sér sírenuhljóð. Nei, ég má það ekki. Þá myndi hún bara fá hjartaáfall og ég yrði settur í fangelsi fyrir óþekka leigjendur.

Reyndar kom það fyrir um daginn að gömul kona lá dauð fyrir framan útidyrnar mínar. Ég var nývaknaður, á mínum venjulega göngutúr út í bakarí, og hrasaði nánast við líkið. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Átti ég að tékka á hjartslættinum? Reyna munn-við-munn aðferðina? Nei, ojj. Ekki á svona gamlli konu. Hefði þetta verið hugguleg dama hefði málið kannski horft öðruvísi við. En í þessu tilfelli ákvað ég að halda mig við +3 ára regluna. Engar gammeljunkur.

En hvað? Hvað átti ég til bragðs að taka? Var hún ekki á mína ábyrgð, liggjandi þarna við innganginn minn? Og fleiri hugsanir sputtu upp í kollinn. Hafði hún reynt að komast inn yfir nóttina, en þrotið örendi þegar enginn opnaði fyrir henni? Hvað vildi hún mér? Í eina sekúndu datt mér í hug að fela líkið. Já! Það var málið. Fela líkið. Ég greip í annan fótinn og reyndi að draga hana inn í portið til mín, þar sem ruslatunnurnar göptu sársoltnar við mér. Ef ég set síðan pizzakassa ofan á konuna, finna ruslakarlarnir hana ekki. Hugsaði ég með mér. Já! Það er málið.

Bíddu hægur! Heyrði ég einhvern kalla. Hvað ertu að gera? Ég fraus. Geðbiluð kona á fimmtugsaldri rasaði í flasið á mig. Þessi kona er flogaveik. Án þess að hugsa reyndi ég að læðast burt. Hvað ætlaðirðu eiginlega að gera við hana? Ég gat ekki sagt henni að ég hafi ætlað að fela hana í ruslatunnunni og þagði bara í staðinn. Svaraðu mér? Hvað ætlaðir þú að gera við hana? Ef ég fer nógu hægt í burtu, sér hún mig ekki. Hugsaði ég. -Og þannig slapp ég.

Þegar ég kom aftur úr bakaríinu, fékk ég þær fréttir að hún væri komin á sjúkrahús og væri öll að braggast.

En þetta var útúrdúr. Ég var að tala um gömlu konuna sem tekur öll rafmagnstækin mín úr sambandi. Hvað skal til bragðs taka? Kannski gera eins og í spurningaþættinum SPK [1], þar sem grænu slími var hellt yfir keppendur ef þeir giskuðu á rangt svar. Nema í mínu tilfelli, myndi ég skvetta slíminu á hana ef tekur ísskápinn minn aftur úr sambandi. Nei. Það er of brútal. Ég þarf einhvern veginn að hræða hana. Láta hana halda að hún hafi sett eitthvert þjófavarnarkerfi í gang. Já, ég held að það sé málið.



[1]
En SPK var með lélegasta upphafsstef sem hefur verið samið fyrir sjónvarp. Þarna var rappað:
Þið eigið möguleik'á því,
að vinna ykkur inn:
Tíu tíma kort,
í keilu höllina,
Aaa-dídas íþróttavörur
(svo man ég ekki meira)