mánudagur


Nokkrar góðar myndir

Fann
ágæta myndasíðu á netinu. Margt þar sem hægt er að brosa að. Nokkur dæmi:




Annars er ég nýkominn frá Danmörku. Segi kannski frá ferðinni á morgun.

miðvikudagur


Æ, þetta er eitthvað svo einföld hugmynd. Samt gladdi þetta myndband mig.


Kossapróf

Í dag fékk ég stórkostlega hugmynd að brandara. Í fyrsta og síðasta skiptið, ákvað ég að senda hugmyndina til Spaugstofunnar. Ef þið sjáið Pálma og Randver í músabúningum á sunnudaginn, þá vitið þið hvaðan hugmyndin er komin.

mánudagur


Klárlega

Þetta orð: Klárlega. Ég þoli það ekki.

Alltaf sömu týpurnar sem nota það: Óöruggt fólk, sem er mjög umhugað um að falla inn í hópinn. Uppfullt af innri örvæntingu fleygir það ,,klárlega" hingað og þangað, til þess að geðjast viðmælanda sinn. Einhverra hluta vegna hefur þetta fólk alltaf mikinn áhuga á handbolta, og kann ég því enga skýringu.

Mér finnst þetta svo merkingalaust orð. Eins og það blasir við mér, er það alltaf notað til að samþykkja staðhæfingu viðmælandans. Skiptir í raun litlu máli hver staðhæfingin er, ,,klárlega" virðist alltaf vera svar sem passar. - Orð sem hægt er að nota svona - við öll tækifæri - getur ekki haft mjög skýra merkingu.

Sem atviksorð er þetta líka aumt. Skerpir ekki á nokkru lýsingarorði og þrengir heldur ekki merkingu þeirra. Gerir í raun og veru ekkert nema árétta þau. Sem er mjög aumt.

Ég á erfitt með að útskýra af hverju þetta orð kemur svona illa við mig. Mér fallast hreinlega hendur, þegar ég heyri fólk nota það í óhófi. Ætli það tengist ekki sleikjuskapnum sem mér finnst orðið endurspegla. Jú, ég held það. Það er slepjan sem fer í taugarnar á mér.

laugardagur


Jude Law

Ok. Fyrir það fyrsta: Jude Law. Hvers konar nafn er þetta? Gyðingalög? - Gott nafn.

En, jæja. Ég sá hann í gær á skemmtistað í Reykjavík. Frekar sveittur gaur. Og slísí. Hann var að fíra upp einhverja dömu og það gekk ekki nógu vel. Ég sá aumur á kauða og ákvað að hjálpa til.

Ég vatt mér upp að honum og sagði: Hey Jude. Don't be afraid. You were made to go out to get her. The minute, you let her under your skin, then you'll begin, to make it better.

Hann horfði á mig tortrygginn. Ég kinkaði kollinum sannfærandi til hans, og hóf að syngja: Naaa... na na nana-na naaa... nana-na naaa... Hey-y-y Jude...

Nú var eins og að kappinn skildi hvað ég ætti við. Go out and... hmm... get her? Yes, yes. Get her! That makes perfect sense. Hann kinkaði til mín kollinum til samþykkis. Við vorum að tala sama tungumálið.

Svo tók hann undir arm dömunnar og leiddi hana út. Ég brosti á eftir þeim og hugsaði: Þeir höfðu rétt fyrir sér eftir allt saman. Hverjum hefði dottið það í hug? Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag.

sunnudagur


Snooze

Í kjölfarið á ákvörðun minni um daginn, að hætta að hlusta á Smiths og Morrissey, lét ég hugann reika ennfrekar um líf mitt og hætti. Ég er vakandi sextán klukkutíma - er þeim rétt varið?

Í þessari greiningarvinnu, komst ég að því að sérhver dagur byrjar á klukkutíma snoozi. Það er, ég vakna fyrst klukkan 7:30. Svo vakna ég aftur klukkan: 7:35 - 7:44 - 7:53 - 8:02 - 8:09 - 8:18 - 8:27. Þegar þarna er komið við sögu, átta ég mig á því að ég er að verða of seinn og hraða mér út.

Þetta er náttúrulega bara fáránlegt. Af hverju ekki bara að sofa til klukkan 8:27? Ég ætla að gera það hér eftir.

Annað fáránlegt. Í sumar snoozaði ég einu sinni í fjóra klukkutíma. Það eru 24 skipti sem ég vaknaði og tók ákvörðun um að sofa aaaðeins lengur. Rugl.

Annað: Hvers konar fyrirbæri er Richard Simmons? Ég fór á Youtube til að fá spurningu minni svarað.


Jæja. Þetta er kannski ekki svakalegt myndband, en það gladdi mig.

fimmtudagur


Slagsmál kvenna

Frétt í Mogganum fyrir tveimur dögum: Kvenkyns geimfarar fljúgast á. Báðar voru þær skotnar í sama manninum.

Frétt í Mogganum fyrir fimm dögum: Kvenkyns fallhlífarstökkvari, kemur keppinaut sínum fyrir kattarnef. Báðar voru þær skotnar í sama manninum.

Þetta eru frekar undarlegar fréttir. Geimfarar og fallhlífastökkvarar. Ég veit ekki. Þetta er eitthvað skrýtið.

Smiths og Morrissey

Ég hlustaði alltaf á Smiths eða Morrissey á leiðinni í vinnuna á morgnana. Hvort um sig er í sérstöku eftirlæti og hefur verið lengi. Um daginn ákvað ég þó að hætta að hlusta á þessa tónlist.

Að hætta að hlusta á uppáhaldtónlistina. Það meikar engan sens, myndi einhver segja. Það er bara bjánalegt, myndi einhver annar segja. En það er ekki rétt. Þessi ákvörðun er frekar sniðug.

Ég tók nefnilega eftir því, að ég hugsa alltaf sömu hugsanirnar þegar ég hlusta á þessa tónlist. Sömu þungu hugsanirnar í fimmtán mínútur á hverjum degi. Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en nýlega.

En af hverju laðast maður, og eiginlega sogast, að vonleysinu í Morrissey? Erfitt að segja. Ætli það hafi ekki eitthvað að gera með það, að klárinn leiti þangað sem hann er kvaldastur? Gæti verið.

Hugsanir þessar eru alltaf eins: Hvað ef einn daginn, ég tæki upp 19. aldar klæðaburð? Ég tók fyrsta skrefið með börtunum, en það er ekki nóg. Þetta er bara spurningin um að fara alla leið. Ég er að tala um einglyrni, skikkju og pípuhatt. Og kannski lítinn staf, sem ég gæti sveiflað í kring um mig á gönguferðum mínum.

Ég yrði að breyta málfari mínu. Velja vandaðri orð. Helst tileinka mér hroka og nálgast samferðarfólk mitt af vandlætingu. Láta það finna, að ekkert er nógu gott fyrir mig. ,,Er nú eggið farið að kenna hænunni?", yrði aðalfrasinn minn.

Verst að það finnast ekki neinir betlarar á Íslandi sem ég gæti verið vondur við. Ég myndi gefa þeim aur, en kippa honum síðan aftur til mín (því hann yrði fastur í spotta) og hlæja hástöfum. Á góðum degi myndi ég kannski slá til þeirra með stafnum mínum. ,,Hafðu þetta! Og þetta...!", segði ég í tímaleysi andartaksins.

Já, þetta var draumurinn. En hann er breyttur.

Eftir að ég hætti að hlusta á Smiths og Morrissey umturnuðust hugsanir mínar. Vandláti 19. aldar maðurinn heyrði sögunni til. Og reyndar urðu hugsanir mína allt öðruvísi. Ég var ekki fastur í fortíðinni, heldur horfði ég fram á veginn:

Hvernig ætli fólk klæði sig í framtíðinni? spurði ég mig í sífellu. Ætli það séu með skikkju? Eða mun fólkið klæðast þröngum hjólabuxna-samfestingi eins og í Startrek og 2001 Space Oddity. Þarf ég ekki að tileinka orðaforð sem er meira móðins en gengur og gerist í dag? Nota ný orð, sem enginn hefur heyrt áður (en munu e.t.v. verða notuð í framtíðinni)? Zorblong... Zwapp... Zgnúsjon...? Er þetta það sem koma skal? Orð sem byrja á ,,z"? Erfitt að segja.

Og hvaða nálgun ætti ég að taka á samferðarfólk mitt? Handaband verður líklega úr sögunni, og mjaðma-dansinn kominn í staðinn. Nema ef maður ætlar að heilsa sköllóttum manni. Þá klappar maður honum á kollinn, eins og Benny Hill gerði forðum daga. Vélmönnum er óþarfi að heilsa.

Jæja. Eins og þið sjáið, er ég bættari maður eftir að ég hætti að hlusta á Smiths og Morrissey. Hraustari sál. Æ, ég ætla að hætta þessu bulli og detta í háttinn.


þriðjudagur

Woody Allen klippur

Safnaði saman klippum af Woody Allen,
þær má nálgast hér. Billy Graham stöffið er gott. Hitt er svona la-la.

mánudagur


Kaupmannahöfn

Jæja. Lítur út fyrir að ég kíki í stutta heimsókn 22.-25. febrúar. Meira um það síðar.