Netið liggur niðri hjá mér þessa stundina, og ég á örugglega lítið eftir að láta í mér heyra á þessum stað. Alla vega um stund. En, já. Þetta er ágætt.
sunnudagur
Netið liggur niðri hjá mér þessa stundina, og ég á örugglega lítið eftir að láta í mér heyra á þessum stað. Alla vega um stund. En, já. Þetta er ágætt.
föstudagur
Jæja, þá er ritgerðin loksins komin í hús. En kannski þarf ég að pússa hana eitthvað aðeins, ég veit ekki. En það verður þá bara smávægilegt. Þetta endaði í 96 síðum, sem er miklu meira en ég hafði hugsað mér (stefndi á 50 síður). En, já. La Fontain... einhver...?
fimmtudagur
Ég var að læra nýtt orð. Facer. En það er enska og þýðir erfitt vandamál (skv. Orðabók Aldamóta). Tek dæmi um hvernig hægt væri að nota það:
- These bullets seem to bounce off the polar bear. This is serious. Very, very, serious...
- Yup...! It's a facer.
þriðjudagur
Er það rétt að Ögmundur Jónasson hafi lokið ræðu sinni á Alþingi í gær með orðunum: Allar stelpur pissa í kopp, allir strákar borða popp. Er það viðeigandi, svona í miðri baráttu kvenna fyrir auknum réttindum? Og er þetta yfir höfuð rétt hjá honum. Ég er til dæmis ekki búinn að fá mér popp lengi. Og ég er ekki viss um að allar stelpur pissi í kopp. Kannski litlar stelpur, en ekki stórar. Það er einfaldlega ekki rétt. Þetta er ekki alveg nógu málefnalegt hjá honum Ögmundi. Uss.
mánudagur
Ég skil ekki Hells Angels og Banditos. Hvernig fúnkera þeir? Þetta eru fullorðnir menn, sem reyna eftir fremsta megni að bjóta reglur samfélagsins. Það er þeirra metnaður. Skíta metnaður. Og barnalegur. Af hverju fá þeir sér ekki bara alvöru vinnu? Það er eins og þeir finni til upphefðar í illvirkjum sínum. Til dæmis fá meðlimir með morð á samviskunni aukanafnbót, sem mig minnir að heiti dauðastjarnan. Þó man ég það ekki. Þessir menn njóta meiri virðingar en aðrir. Æ, þetta er bara eitthvað svo sorglegt. Þeir myndu örugglega reykja njóla í tonnavís ef það væri sett inn í danskar reglur, að bannað væri að reykja njóla. Og ég tala nú ekki um upplitið á þeim. Það er eins og keppikeflið sé að vera sem ljótastur. Utan á leðurfötunum eru hauskúpur, eldur og eitursnákar með uppglennt skolt. Undir leðurfötunum eru sambærilegar myndir tattúaðar. Æ, ég segi það aftur. Þetta er eitthvað sorglegt. Og mótorhjólaruglið. Hvað er það? Ég hef einu sinni spurt mann sem átti stórt mótorhjól hvert fúttið væri. Hann svaraði mér því, að ef ég væri sjálfur með 400 hestöfl á milli lappanna myndi ég alveg vita hvað fúttið væri. Góður. Fyndnari en Laddi.
sunnudagur
Mogginn enn með frekar undarlegar myndir. Jú, maður veit að fuglaflensan er skæð fuglum. En er þetta góð mynd við frétt með fyrirsögnina: Bretar vilja banna innflutning lifandi fugla til ríkja ESB.
Undir myndinni stendur: Dauð önd í Eskiltuna í Svíþjóð.
Og svo er önnur mynd sem ég átta mig ekki alveg á.
Undir myndinn stendur: Ungir menn að leik við strendur Havana á Kúbu í gær. Búist er við að Wilma skelli á Kúbu í dag. Er það vitleysa, eða snýr einn maðurinn á hvolf? Ég næ þessu ekki alveg.
laugardagur
fimmtudagur
Búinn að byrja á sömu setningunni hundrað sinnum og aldrei hljómar hún rétt.
The tabulist range...
The range of the tabulist...
The tabulist size range...
The size of the tabulist range...
The range of differently sized tabulists
Kylie Minogue is very hot and the tabulist size range...
Ég gefst upp.
þriðjudagur
Mogginn er góður. Hér er frétt um konu sem setti köttinn sinn í þvottavél. Jú jú, voða skondið. En svo hafa þeir mynd af dæmigerðum heimilisketti við hliðina á greininni. Þegar betur er að gáð má sjá að kötturinn er klemmdur í dýraboga. Vel valið.
[Update: Þeir eru búnir að skipta um mynd]
mánudagur
Ætli Baugsmenn fari ekki bráðum að átta sig á nauðsyn þess að vera með Ríkisstjórnina á sínu bandi? Ég var að velta þessu fyrir mér. Þeir hafa allt í hendi sér nema pólitískusana. Þurfa þeir ekki að fara að kaupa þá? Þeir verða helst að gera það, vilji þeir ekki missa flugið. Ríkisstjórnin vill hertar samkeppnisreglur og koma í veg fyrir hringamyndanir í viðskiptalífinu, eitthvað sem kæmi sér mjög illa fyrir Baugsmenn.
Ég sé fyrir mér að bráðum komi tími spilltra stjórmálamanna. Þingmanna sem skipta út hugsjónum sínum fyrir peninga. Kannski ekki beinhörðum peningum í svartri skjalatösku, heldur frekar peningar í formi frjálsra framlaga í kosningasjóði. Æ sér gjöf til gjalda. Og það hefur gerst, munið Ólaf Ragnar. Baugmenn keyptu hann á sínum tíma. Borguðu fyrir hann kosningaskuldirnar í kjölfar forsetakosninganna (minnir að þær hafi numið um 10 - 15 milljónum). Hann endurgalt greiðann með því að hafna fjölmiðlafrumvarpinu. Í kjölfarið bíður íslenskt þjóðfélag þvílíka niðurlægingu í ærumeiðingar-herferð Baugsmiðlanna. Eitthvað sem hefði aldrei gerst hefðu fjölmiðlalög verið til [1]. Gott múv hjá Óla.
Ég held að sé kominn tími til að stjórmálaflokkarnir opni bókhald sitt. Þá er ekki hægt að þiggja mútur, nema kannski í svatri skjalatösku.
[1]
Sem ég held að hafi verið ágæt lög, þannig séð. Og öðrum fannst það líka. Steingrímur J., Össur Skarphéðinsson (þó gæti mig misminnt með hann) og Ólafur Ragnar voru allir búnir að stinga upp á sambærilegum lögum áður.
laugardagur
Þegar við systir mín vorum lítil, var stundum lesið fyrir okkur áður en við fórum að sofa. Oftast var lesið upp úr Nýju lífi eða Samúel, og einstaka sinnum var Bláa nunnan dregin fram. Nei nei. Bara bull. Þjóðsögurnar voru yfirleitt á boðstólnum og þar var Sæmundur Fróði uppáhalds fígúran mín. Ég var að hugsa um eina söguna um daginn, en hún segir frá þegar Sæmundur segir einni þjónustustúlkunni frá óskastundinni og að ósk hennar muni rætast ef hún óski sér nú. Hún óskaði þess að verða ólétt eftir Sæmund. Þegar Sæmundur frétti það, varð hann alveg brjálaður og rak hana úr vistinni. Og þar með lýkur sögu.
Ég get ekki annað en tekið ofan fyrir þessum manni. Að láta sér detta þetta í hug. Konan hans hefur komið til hans alveg brjáluð, vegna þess að sögusagnir voru uppi um að hann hafi barnað eina þjónustustúlkuna. Hann hefur orðið vandræðalegur. Ömm... ömm... Jú, sko... Ég get útskýrt þetta... Og svo kemur sagan.
Sama með Maríu mey. Hefur haldið framhjá og orðið ólétt. Ömm... ömm... Jú, sko... Ég get útskýrt þetta... Og svo kemur einhver vitleysa um heilagan anda.
föstudagur
fimmtudagur
Í nótt hlóð ég helling af tölvumat inn í aðaltölvukerfi DTU. Það fór ekki betur en svo að kerfið hrundi og komst ekki aftur á fyrr en klukkan 9:30 í morgun (ég faldi mig í sauðagæru í einu tölvuverinu að hlusta á alla amast, það var frekar athyglisvert). Þetta var mjög óheppilegt, því í kjölfarið lokuðu þeir á tölvukeyrslurnar mínar sem voru alveg að verða búnar. Held að það hafi verið tveir - þrír tímar eftir af þeim. Mjög heimskulegt, því nú þarf ég að keyra þær aftur á sömu tölvum í einn og hálfan dag. Ekki alveg nógu töff.
miðvikudagur
þriðjudagur
mánudagur
Ég sendi Björk Hauks hróp fyrir að benda mér á laust hleðslutæki. Hlynur bróðir hennar fær einnig hróp fyrir að eiga ónýta tölvu, en heilt hleðslutæki. Íris og Furstinn fá hróp fyrir að hræða mig með hrottalegum sögum um hvað gert er við slugsa eins og mig. Ég á ekki eftir að geta sofnað í nótt. Og að lokum fær Anna Helga hróp fyrir eldamennsku. Ég lærði nýtt orð í dönsku í dag sem er svo lýsandi fyrir matseld hennar. Ömm... Ég er reyndar búinn að gleyma þessu orði, en á íslensku þýðir það framúrskarandi. Jú, alveg rétt. Nú man ég. Fremerskerende.
Á leiðinni til Hlyns hjólaði ég Istergate. Fyrir framan yfirgefnu kirkjuna var hópur af smælingjum að aumingjast, og ein konan sat á kantsteininum sprautaði sig. Ég nam staðar, sleginn einkennilegri aðdáun. Gat það verið? Konan ljómaði. Þessi dama... Það var eitthvað við hana. Gat verið, að þarna væri komin stúlka drauma minna? Var hún prinsessa í álögum? Gat það verið? Hún brosti til mín og ég sá að það vantaði eina tönn. Ugh...! Ég fór án þess að kveðja.
sunnudagur
Neistar og brunalykt. Já, hleðslutækið bræddi úr sér. Ekki er það nú sniðugt. Nú verð ég að klára verkefnið á tölvu niðri í Lyngby, bæ tómleikans. Æ, hvað þetta er óheppilegt. Ekki nógu gott mál.
Ef einhver á gamalt hleðslutæki fyrir ThinkPad IBM tölvu, gerð R40, má hann slá á þráðinn. Síminn er 222 68 200. Ég mun borga rausnarlega fyrir þannig apparat. 10.000 spírur.
laugardagur
En ef maður myndi setja menn í staðinn fyrir dýr, myndi þá bókin ekki meika betur sens? Þá myndi hún kannski heita Man Farm í staðinn. Já, ég held að það væri sniðugra.
fimmtudagur
Var að lesa Animal Farm um daginn. Hvað er málið með öll dýrin? Af hverju geta þau talað? Það er eitthvað krípí við þetta.
miðvikudagur
Ég er búinn að vera veikur, en er þó frískur nú. Tölvan var líka með vírus, veit ekki hvort hún er í lagi nú. Og enn á ég eftir að skila þessu guðsvolaða verkefni. Ég get ekki sagt leiðbeinandanum mínum ástæður seinagangsins. Það hljómar bara eins og léleg afsökun.
Kennari: Af hverju ertu ekki búinn að skila?
JB: Uuu... hundurinn minn át ritgerðina... (gúlp!)
Kennari: Af hverju prentarðu hana ekki út aftur?
JB: Ömm... hundurinn át líka prentarann.
Kennari: Já, ok. Allt í lagi. Þú skilar henni bara seinna.
JB: Hjúkk! Þar skall hurð nærri hælum. En verð ég svo heppinn næst?
þriðjudagur
Vírus á tölvunni. Venjulega ætti það að vera í allt í lagi, en þessi truflar aðra netnotendur þannig að það var slökkt á netaðganginum mínu. Afskaplega ergilegt. Til þess að laga tölvuna, þarf ég að fara á vissa vefsíðu og sækja vírusaforrit. En til þess þarf ég einmitt aðgang að netinu. Já, það er ekki alltaf gaman.
mánudagur
Vasadiskó. Þetta er fyndið orð. Diskó sem maður geymir í vasanum. Diskó. Það er líka fyndið orð. Friskó líka. Líka að koma sér í bobba. Bobbi. Hvað er það? Eða darraðardans. Þegar allt gengur á afturfótunum. Ég hef alltaf ímyndað mér sveitaball í hlöðu einhvern tímann á 17. öld (eða var kannski bannað að dansa þá?). Maður að nafni Darraður hefur ætlað að heilla einhverja dömu, en með klaufalegum hreyfingum rak hann sig í hitt og þetta og á endanum hrynur hlaðan. Síðan þá byrjaði fólk að tengja dans Darraðar við klaufagang.
Á sænsku er vasadiskó kallað freestyle. Það finnst mér líka fyndið. Og í rauninni er það miklu betra orð (fyrir utan að vera sletta). Svíarnir reikna alla vega með að maður hlusti á eitthvað annað en diskó.
sunnudagur
Mér hefur stundum þótt nafnið mitt vera of Biblíulegt. Það fór alltaf pínulítið í taugarnar á mér. Ég sá fyrir mér Jóhannes skírara þvo fæturna á læriföður sínum Jesú. ,,Fætur þínir eru hreinir, meistari." Ohh... hvílíkur auli! Hugsaði ég þá, og setti skeifu á munninn. Svo einu sinni datt mér í hug að gera Nýja Testamentið að nýju strætóbókinni minni. Ég blaðaði hratt í gegn um hana, en fann ekki kaflann um erótíska fótanuddið. Hins vegar gerði ég merka uppgötvun. Guðspjallamaðurinn Jóhannes var ekki sami maðurinn og Jóhannes skírari.
Það er frekar langt síðan ég las þetta, og ég segi kannski ekki alveg rétt frá, en ég ætlaði að segja frá örlögum guðspjallamannsins Jóhannesar. Þannig var, að einhver drottning varð yfir sig ástfangin af honum og vildi giftast honum. Hann þrást við og drottningin verður skúffuð og hendir honum í djúpa dýflissu. Líður og bíður og dag einn blæs drottningin til veislu. Mig minnir að þetta hafi verið að undirlagi einhvers annars, ég man það ekki, en þegar bakki drottningar er borinn fram liggur hausinn á guðspjallamanninum á honum, með lokuð augun og epli í munninum. Drottningin varð mjög ánægðu, og það var sungið og trallað í höllinni langt frameftir nóttu. En, já. Þannig dó guðspjallamaðurinn Jóhannes.
Þetta var miklu skemmtilegri saga en ég hafði þorað að vona. Og nú er ég alveg sáttur með Biblíuupprunann. Gott mál.