sunnudagur


Um daginn bankaði maður uppá hjá mér og rétti mér bréf. Ég spurði um innihaldið, en hann forðaði sér bara. Þetta var krafa frá skattinum. Árið 2004 hafði ég ekki borgað í lífeyrissjóð og nú var komið að skuldadögum. Þetta voru litlar 125.000 kr, sem ég hafði ekki hugmynd um að ég skuldaði. Og reyndar skuldaði ég bara helming í lífeyrissjóð, restin af kröfunni voru einhver formsatriðagjöld sem höfðu hrannast upp með tímanum. Stærsti hlutinn fór þó í þóknun lögfræðingsins. Það kostar víst 35.000 kall að afhenda svona bréf.

Ég hringdi út um allan bæ og hellti úr skálum reiði minnar, en allt kom fyrir ekki. Krafan stendur. Einhvern veginn svona var samtalið við skattinn:

- En af hverju létuð þið mig ekki vita?
- Af því að þú varst skráður í Danmörku. Við náðum ekki í þig.
- En af hverju senduð þið ekki póstinn heim til foreldra minna (eins og allir aðrir gerðu á þessum tíma)?
- Foreldra þinna? Hvernig áttum við að vita að við áttum að senda póstinn þangað? Þú tilkynntir það ekki til Þjóðskrár.
Átti maður að gera það? Hugsaði ég.
- En af hverju reynduð þið ekki að hafa upp á mér áður en þetta fór í kröfu? Það er hægt, til dæmis með að senda bréf á síðasta skráða heimilisfang. Eða með því að fletta mér upp í símaskrá. Eða með því að slá mig upp á netinu. Eða með nokkrum símtölum... Það hefði sparað mér meiri hlutann af upphæðinni.
- Það er mikið að gera hjá okkur, við getur ekki endalaust verið að þefa fólk uppi. Við fáum okkar upplýsingar úr Þjóðskrá.
Þú ert bjáni, hugsaði ég og hreytti í hann einhverjum bituryrðum. Svo lauk þessu ágæta samtali.

Af hverju ætti mér ekki að vera sama þó að þeir hafi mikið að gera? Þeir eiga að gefa sér tíma til að vinna vinnuna sína, áður en þeir læðast aftan að fólki með 125.000 kr kröfu. Og ef þeir geta það ekki, skal ég taka þetta djobb að mér. Ég tek 30.000 kall fyrir hvern einstakling, í staðinn fyrir 35.000 kallinn sem þeir borga lögfræðingum fyrir að reka erindið. Það hefði tekið mig ~ 5 mínútur að hafa upp á manni í sambærilegri stöðu og ég var.

Já, og lögfræðingar! Þeir eru sannarlega vondir menn. Svo ljótar sálir. Ég sé fyrir mér, að þeir endurfæðist í næsta lífi sem tjara. Jebb. Sem tjara! Svört og slepjuleg, rétt eins og innræti þeirra. Þegar ég hringdi í lögfræðistofuna, sem sér um innheimtuna, fékk ég alltaf þetta svar: Ég er bara að vinna vinnuna mína. Sorrý. En ég var að velta þessu fyrir mér. Þeir sem reka fólskuleg erindi fyrir aðra menn - eru þeir ekki fól sjálfir? Rétt eins og handrukkarar. Er hægt að réttlæta framferði þeirra á nokkurn hátt, þ.e.a.s. öðruvísi en að þeir séu með skerta siðferðiskennd og svona hagar þannig fólk sér. Nei, ég spyr.

Æ, þetta er ekki nógu gott. Og það sem er asnalegast af þessu öllu, er að það er lífeyrissjóðurinn sem stingur mig í bakið. Ég hélt að hann ætti að hjálpa mér. Bjarga mér frá vergangi, frekar en að senda mig þangað. Þetta á ekki að vera svona.

(Ég er hérmeð formlega orðinn nöldurbloggari. Hér eftir kemur ekkert skemmtilegt frá mér. Bara nöldur og kvein. Ok? Ok!)

fimmtudagur


Datt maður ekki inn í íslenskt þjóðfélag á frekar óheppilegum tíma? Íbúðarverð fór til fjandans, rétt áður en ég flutti heim frá Danmörku. Og í Mogganum segir, að skuldir Reykvíkinga séu 1.050.000 á mann. Þetta er ekkert ósvipað erfðasyndinni. Maður geldur fyrir skuldasöfnun forfeðra sinna. Uss suss suss... Þetta er ekki alveg nógu gott.

Það er líka gaman að fylgjast með stjórnmálaflokkunum núna, svona þegar þeir eru að læðast af stað í kosningabaráttuna. Exbé (Framsókn) vill byggja flugvöll á Lönguskerjum. Svo spyrja þeir ögrandi: Ertu með? Dagur og félagar í Samfylkingunni vilja leggja Sundabraut í jarðgöng. Já, hvers vegna ekki?

Æ, ég skal ekki segja. Báðar hugmyndirnar hljóma eins og mjög dýrt ævintýri. Loforð sem eru búin til og gefin af fávitum, fyrir fávita. Svo getur líka verið að þeir ætli sér aldrei að efna þessi loforð. Rétt eins og þegar Framsóknarflokkurinn lofaði eiturlyfjalausu Íslandi árið 2000. Hvernig er hægt að lofa þessu?

Nú bíð ég eftir útspili Sjálfstæðisflokksins. Hvernig ætla þeir að fanga ævintýramennina? Þeir gætu til dæmis lofað því, að breikka götur borgarinnar þannig að svifnökkvar geti flotið á þeim (það væri reyndar svoldið töff). Eða kynna til sögunnar nýja ofur-lögregluþjóna sem nota svifnökkva til að fanga glæpamenn. Þessir ofur-lögregluþjónar væru líka vélmenni (sem er reyndar líka frekar töff). Nei, bara hugmynd.

Jæja, hvað sem verða vill, held ég að ég kjósi þann flokk sem lofar minnstum ævintýrum. Ég vil frekar að peningurinn fari í eitthvað annað sem skiptir mig máli. Til dæmis í mig.

sunnudagur


En það var einmitt Andrés Önd sem samdi ljóðið í síðustu færslu. Á einhvern óskiljanlegan hátt virðist setningin: ,,með boga mínum og píl, ég skaut niður fýl" festast í hausnum á öllum sem lesa þetta ljóð.

föstudagur


Að mér herðir hugar víl
því með boga mínum og píl
ég skaut niður fýl.

mánudagur


Í gamla daga var ég áskrifandi að Æskunni. Þegar ég fletti í gegnum blaðið í huganum, kemur í ljós að það virðist alltaf hafa fylgt sömu formúlunni. Þessari hér:

Forsíða
Mynd af einhverjum krökkum sem voru að leika í leikriti.

Aðalviðtal

Talað við krakkana á forsíðunni. Lífið í leikhúsinu virtist vera spennandi, en þó var það líka strembið. Frægðin virtist ekki stíga þeim til höfuðs.

Þrautir

Stafarugl, völundarhús og ,,finndu þessi orð, í þessu bókstafaneti"-þraut. Sérstaklega skemmtilegar voru myndgáturnar, þar sem maður átti að finna fimm villur. Reyndar ekki jafnskemmtileg og
þessi, en þær voru samt mjög góðar.

Tónlistarumfjöllun

Allar heitustu stjörnurnar teknar fyrir. Ég skildi aldrei neitt í þessum dálki, ekki nema þeir væru að tala um Michael Jackson. Þá var ég með á nótunum.

Annars var einhvers konar hreintungustefna í gangi hjá ritstjórninni og hetjan mín fékk hið gamalgróna ramm-íslenzka nafn: Mikjáll Jakobsson. Það fannst mér svívirða. Og einhverra hluta vegna var Bruce Springsteen alltaf kallaður Brúsi frændi. Enn þann dag í dag klóra ég mér í kollinum yfir þessu nafni. Brúsi frændi...

Ég man líka, að mér fannst Madonna og Prince flott. Samt hafði ég ekki heyrt neitt eftir þau. Þau höfðuðu bara vel til manns. En svo var stundum talað um einhverja hljómsveit sem hét The Smiths. Af myndunum að dæma, voru þessir menn augljóslega algjörir dólgar. Komust ekki með tærnar þar sem Prince og Madonna höfðu hælana.

Kæra hjálp
Einhvern veginn virtust allir hafa sama vandamálið. Þeir voru skotnir í einhverri stelpu (eða öfugt), en vissu ekki hvort ástin væri gagnkvæm. Það var líka alltaf mjög mikilvægt að þessari mjög svo áleitnu spurningu yrði svarað sem fyrst.

Draumaprisinn/-prinsessan
Þennan dálk las maður vandlega. Allir draumaprinsarnir virtust vera skolhærðir og utan af landi. Skolhærðir? Hvaða litur var það? Ég hafði ekki hugmynd. Og sumir voru meira að segja með strípur, hvað svosem það nú þýddi...

Sjálfur gerðist ég aldrei svo frægur að rata inn á þessa blaðsíðu, enda var ég bara dökkhærður Reykvíkingur. Uss... En ég man að skólabróðir minn Óttar var þarna einu sinn. Þá var mikið skrafað um það hver leyniaðdáandinn var. Var það Guðný? Tinna? Eða var það kannski hann sjálfur? Hver veit?

Annars er maður aldrei of seinn. Ég sé fyrir mér næsta tölublað:
Draumaprinsinn minn er dökkhærður, grannvaxinn og heitir Jói Ben. Hann er 26 ára gamall og er fæddur í hrútsmerkinu. Hann spilaði fótbolta með Val þegar hann var lítill og vann einu sinni bikar fyrir framúrskarandi árangur í knattþrautum Coca-Cola.

Kveðja,
Xxxx Xxxxxxxxxx
Þá yrði ég voða glaður. Og svo kæmu pælingarnar: Hvað þýða þessi ,,x"? Fyrst eru þau fjögur, svo tíu. Kannski Anna Guðnadóttir? Nei, það eru fjórir og ellefu. Jú, þetta gæti gerst.

Kalli í knattspyrnu
Þetta var uppáhaldshlutinn minn. Teiknimyndasagan um Kalla. Hann var breskur millistéttardrengur sem ólst upp hjá gamalli frænku sinni. Hann hafði mikinn áhuga á fótbolta og snerust sögurnar að miklu leyti um það. Einn daginn fann hann rykfallna takkaskó í kassa uppi á lofti. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þetta voru gömlu skórnir hans Hemma Gunn. Þegar Kalli mátaði skóna, voru þeir þeirrar náttúru, að þeir gátu stjórnað honum; voru alltaf að láta hann gera eitthvað sem hann vildi ekki gera. Til dæmis að hlaupa upp hægri kantinn. Kalli vissi að það var rangt, en samt fannst honum hann þurfa að hlaupa þangað. Það var eins og að skórnir vildu að hann færi þangað. Hann fylgdi hugboðinu, fékk draumasendingu upp kantinn og skoraði.

Það var samt eitt sem ég skildi aldrei. Takkaskórnir hans Hemma Gunn. Af hverju voru þeir eitthvað merkilegri en aðrir takkaskór? Þeir gleymdu nefnilega að segja frá því, að Hemmi hafi verið íþróttahetja og mikill markakóngur í gamla daga. Í mínum augum var hann bara hress gæi í sjónvarpinu. Hvað er merkilegt við takkaskóna hans?

En nú dettur mér annað í hug. Hvað ef Kalli hefði fundið djamm-skóna hans Hemma? Hefði hann þá fengið hugboð um að kíkja út á lífið? Hann vissi, að það var rangt. En einhverra hluta vegna fannst Kalla hann þurfa að fara á barinn. Það var eins og að skórnir vildu að hann færi þangað. Hann elti þetta hugboð, sem endaði auðvitað með því að hann skoraði. Hahaha! Ég er svo fyndinn!

Baksíða:
Jón Páll að auglýsa Svala.


Einhvern veginn svona blasir þetta barnablað við mér, rifið upp úr kommóðu minninganna.
White Ninja á afmæli í dag og ég líka.


Á miðvikudaginn næsta ætla ég að halda upp á daginn. Og þá verður gaman. - Ef einhver hefur enn ekki fengið skilaboðin frá mér, er honum hérmeð boðið (mér finnst ég endilega vera að gleyma einhverjum).
Geimið byrjar klukkan níu á Týsgötunni.

Ath! Þeir sem ekki hafa áhuga á íslensku máli, geta sleppt því að lesa þennan texta.


Einhvern tímann var Jón Ólafsson, hljómborðsleikari Nýrrar danskrar, með sjónvarpsþátt þar sem hann rabbaði við þekkta íslenska poppara. Þetta var mjög áhugaverður þáttur, þar sem farið var yfir feril viðkomandi í bland við skemmtilegt spjall um ekki neitt.

Í einum þættinum kom Björn Jörundur, söngvari/lagasmiður Nýrrar danskrar, í heimsókn. Jón Ólafsson tók honum eins og hverjum öðrum gesti og fór yfir helstu afrekin. Ég man hvað Jón dáðist að því, hvað Björn var flinkur að semja texta og spurði sérstaklega út í það ferli. Björn svaraði spurningunum af fullri alvöru og lét eins og þessar vangaveltur Jóns kæmu honum ekkert á óvart; hann virtist fullkomlega meðvitaður um eigið ágæti þegar textasmíði var annars vegar. Og aðrir virðast vera á sama máli. Maðurinn er snillingur.

Samt ekki.

Ok. Hann getur samið grípandi melódíur og flott lög. Textinn hittir í mark á þann hátt, að það er auðvelt að syngja og muna hann. En hann er samt drasl. Algjört drasl. Og nú tek ég dæmi. Mörg gítarpartý byrja svona:

Börn!
Og aðrir minna þroskaðir me-enn.
Fór'að grams'í mínum einkamálum,
þegar ég var óharðnaður e-enn.
„Og aðrir minna þroskaðir menn.“ Hvaða aðrir eru þetta? Hann var að tala um börn. Rökréttara væri að segja:

Börn!
Og önnur minna þroskuð börn.

Eða:

Menn!
Og aðrir minna þroskaðir menn.

Eða bara:

Börn!
Og menn sem eru minna þroskaðir en þau.
Þetta er kannski ekki mikill glæpur, en það sem fer í taugarnar á mér er þegar hann byrjar að rembast. Velur þung orð, sem heyrast ekki oft í daglegu tali manna, og skeytir saman í setningu. Og, jú. Setningin virðist vera til vitnis um dýpt skáldsins. Svo djúpt, ó svo djúpt, hann hugsar! En, bíðum hæg. Þetta meikar engan sens.

Dæmi:

Bölmóðssýki og brestir,
bera vott um styggð.
Lymskufullir lestir
útiloka dyggð.
Getur einhver sagt mér hvað Björn Jörundur er að reyna að segja með þessum orðum? Hann lætur þetta hljóma eins og einhverja speki. En þetta er bara drasl. Drasl! Eina ástæðan fyrir því að „styggð“ er notað, hlýtur að vera af því að það rýmar við „dyggð“. Og að hverju beinist styggðin? Hvað er það, sem styggir einstaklinginn? Nei, ég spyr. Og hvernig - í andskotanum - ber sjúklegur bölmóður (svartsýni) og brestir (væntanlega karakterbrestir) vott um styggð? Það er ekki beint orsakasamhengi þarna á milli. Þetta er bara bull. Og næsta lína: „Lymskufullir lestir“. Þ.e. lævísir lestir. Hvernig geta lestir veri lævísir? Og hvers vegna í ósköpunum ættu lestir (sama af hvaða tagi þeir eru), að útiloka dyggð. Það er ekkert sem beinlínis útilokar dyggð. Æ, æ, æ! Mig verkjar í hausinn, þetta er svo rembingslegt! Það er bara kjánalegt að kryfja þennan texta frekar.

Jæja, ég nenni þessu ekki lengur. Því enda þessi skrif hér.