fimmtudagur

Britney finnst sopinn góður

Ég les alltaf fréttirnar um Britney Spears. Ég ræð ekki við mig. Ég er vandræðalega vel inni í einkamálunum hennar, jafnvel betur en inni í mínum eigin málum.
Samt finnst mér hún ekkert spennandi.

Hún fór víst í meðferð um daginn, ég fylgdist óviljandi með á hliðarlínunni. Þetta gerðist í meðferðinni:

  1. Britney og FedEx (eða hvað hann nú heitir þessi ræfill) hætta saman.
  2. Britney sækir grimmt á næturlífið með Paris Hilton.
  3. Britney lætur taka mynd af sér án brókar.
  4. Britney og Paris hætta að vera vinkonur.
  5. Britney rakar á sér kollinn.
  6. Hún fer í meðferð.
  7. Britney er ódæl í meðferðinni.
  8. Federline elskar hana enn.
  9. Britney drekkur 24 kókflöskur á dag í meðferðinni. Það gerir átta lítra. - Mitt persónulega mat, er að þetta hljóta að vera ýkjur.
  10. Britney hitti annan ræfil í meðferðinni og þau skiptast á dúllulegum nöfnum.
  11. Britney lokaði sig inni í skáp og heyrðist tala við einhvern ,,Justin". - Ég vil samt ekki útiloka að hún hafi sagt Dustin, en síðan hvíslað Hoffman þannig að enginn heyrði. Það er mín kenning.
  12. Federline segist ekki elska hana lengur.
  13. Innskot JB: Hvers konar maður segir svona lagað við blaðamenn. Federline er alger auli.
  14. Britney og K-Fed [1] ná samkomulagi um skiptingu eigna. Hann fær helling af milljónum og helming þeirra tekna sem hún aflaði á meðan þau voru saman.
  15. Britney útskrifast úr meðferð.
Ég kenni Mogganum um. Hann er alltaf að tala um Britney. Hvernig getur maður annað en lesið þetta, ef efsta fyrirsögnin í dálkinum Mest lesið er alltaf frétt um Britney. Mogginn skal hér með víttur.


[1]
Já, alveg rétt. K-Fed. Það var rapparanafnið hans. Lélegasta nafn frá því að Terminator-X var og hét. Hvers konar nafn er það? Minnti mig alltaf á þvottalög eða pöddueitur.

Samkvæmt Wikipediu, er x-ið stærðfræðitákn. Það er breyta sem getur verið hvaða tala sem er. Þetta hlýtur að hafa ruglað liðsmenn Public Enemy, því þeir vildi ólmir eyða þessari óljósu stærð. Þannig varð nafnið Terminator X til. Maðurinn sem eyðir allri óvissu. - Mjög nördalegar pælingar í gangi.

miðvikudagur

Jón og Jón

Ég rakst á eftirfarandi setningu í Fréttablaðinu:
Jón H. Snorrason bar vitni í Baugsmálinu síðastliðinn fimmtudag og var meðal annars spurður um samskiptin við Jón Steinar. Hann sagði að þeir hefðu hist á fundi hinn 13. ágúst 2002, áður en Jón H. hitti Jón Gerald og málið var kært. Spurður af Gesti Jónssyni, verjanda Jóns Ásgeirs, staðfesti Jón H. að hann hefði átt fleiri en einn fund með Jóni Steinari og hefði fengið fleiri gögn frá Jóni Steinari eftir 13. ágúst. Í framhaldinu hefði svo Jón Gerald verið kallaður til skýrslutöku.
Heita allir mennirnir í Baugsmálinu Jón? Þetta er bara fáránlegt.

þriðjudagur

Tvö YouTube myndbönd

Þetta finnst mér nokkuð gott:


Gæinn í bílaþættinum dáleiddur


Kvenlegustu fótboltaslagsmál sem ég hef séð

mánudagur


Fallega fólkið

Það er sagt, að fallegt fólk hafi samhverfara andlit en ljótt - að vinstri helmingurinn sé fullkomin spegilmynd þess hægri. Ég er ósammála, mér finnst það ekki fallegt.


Jú, ég sé punktinn. Ég sé af hverju fólki gæti haft þessa skoðun. En óþægilega mikil samhverfa virkar eiginlega öfugt á mig. Manneskjan verður kuldaleg og á einhvern hátt vélræn.

Vélræn segir hann. Hvað þýðir það nú eiginlega? Æ, þetta hefur að gera með sálina. Fólk með ofursamhverf andlit virkar sálarlaust á mig. Eins og dúkkur úr postulíni. Eða vélmenni.


Það var einmitt talað um, að vonda vélmennið í Tortímandanum 2 væri með fullkomlega samhverft andlit. - Ætlaði það ekki að tortíma mannkyninu? (Geri ráð fyrir því að nú hugsi flestir: Ahh... góður punktur hjá Jóa. Enn og aftur hittir hann naglann rækilega á höfuðið).

Nú er Glitnir með auglýsingaherferð. Fólkið í þessari auglýsingu er alveg ofboðslega fallegt, en það nær samt ekki alveg að geisla af fegurð. Það er með alltof samhverf andlit.

Hér fyrir neðan tek ég þrjú dæmi. Fyrst skoða ég Sigurð Kára, svo fallega Glitnisfólkið. Myndin lengst til vinstri sýnir þau venjuleg. Takið eftir því hvað samhverfan gefur myndunum óhugnanlegan tón. Vantar sálina.

Til þess að færa rök fyrir máli mínu, hef ég skeytt vinstri- og hægri helmingum andlitsins saman. Þá kemur það í ljós: Næstum því ekkert breytist.


Sigurður Kári og óhugnanlegt en fallegt fólk

fimmtudagur

Fimm villur

Ég rakst á myndina hér að neðan í blaði um daginn. Þetta er eitthvað skrítið, hugsaði ég. Þetta getur hreinlega ekki verið.


Á myndinni eru fimm villur. Hér fyrir neðan kemur stórt bil og svo svarið.





























(Hægt er að klikka á myndina til að stækka)

þriðjudagur

Jack Bauer og Tzar Bomba

Vinur minn einn var að segja mér frá sjónvarpsþáttunum 24. Jack Bauer virðist vera heljarinnar karl. Í þremur seríum, gerir hann eftirfarandi:

1. Bjargar forsetaframbjóðenda frá bráðum dauða.

2. Bjargar New York frá kjarnorkusprengju.
3. Bjargar því að á skelli heimsstyrjöld.
4. Bjargar mannkyninu frá eilífri glötun, með því að koma í veg fyrir að það verði drepsótt að bráð.

Ekki slæmt það. -Og allt þetta á 72 klukkustundum.

Ég var að velta þessu fyrir mér. Kjarnorkusprengja á New York. Það er nokkuð heví. Í framhaldinu fór ég á netið til að lesa mér til um karnorkuvopn. Bandaríkjamenn og Rússar eiga mest af þeim, eins og sýnt er á
myndinni hér að neðan.

Kjarnorkuvopnaeign Bandaríkjamanna og Rússa

Svo hélt ég áfram að lesa. Rússar hafa framleitt stærstu kjarnorkusprengju allra tíma, hina svo kölluðu Tzar Bomba. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá stærðinna á þessari sprengju, við hliðina á sprengjunni sem varpað var á Hiroshima.


Tzar og Hiroshima bornar saman

Í kjölfarið fór ég að velta þessu fyrir mér. Hvað ef við hefðum ekki menn eins og Jack Bauer? Hvað ef Tzar Bomba væri sprengd í New York? Já, hvað þá?

Eldský Tzar Bomba var með radíus 4,6 km. Fólk í 100 km radíus fékk 3. stigs brunasár. Skoðum nú, með hjá Google earth, hvernig það kæmi út fyrir New York:


Við anddyri Empire State byggingarinnar


Eldský Tzar myndi þekja þetta svæði

Eldskýið séð úr meiri hæð


Eldský er rautt á myndinni. Gula svæðið sýnir svæðið þar sem fólk myndi fá 3. stigs brunasár.

Sama svæðið, nema Ísland notað til að átta sig á stærðargráðunni.

Að lokum gerð tilraun til að sjá þessa mynd frá hlið.

Þetta væri alveg hrikalegt.