sunnudagur


Randver

Ok. Bara svona til þess að taka það fram einhvers staðar, að þá var það Guðmundur Jón sem átti heiðurinn af síðustu færslu. Hér er
síðan hans. Hún er sniðug.

En talandi um sniðugheit: Veit einhver af hverju Randver Þorláksson var látinn fara? Eitthvað hlýtur að hafa gerst. DV sagði á forsíðu sinni, að þeir ætluðu að birta ,,alla söguna". Það eina sem þeir sögðu, var að Spaugstofubræður hefðu ekki allir sopið eitt kál í þessum slag. - En það var nú eiginlega augljóst.

Ég held að hann hafi verið rekinn, vegna þess að hann er ekkert fyndinn. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar. Bróðir minn hitti naglann ágætlega á höfuðið þegar hann sagði, að það eina sem var fyndið við Randver var nafnið hans - og það er eiginlega ekkert sérlega fyndið. Meira svona broslegt. - Sammála.

En, já. Ef einhver er með skúbb á þetta, má hann endilega skjóta því inn í kommenta-kerfið. Ég er forvitinn.

fimmtudagur


Skrif um tannkrem

Mig langaði að benda á skrif eins vinar míns. Ég get reyndar ekki gefið linkinn á síðuna hans, því hún er uppfull af dónalegum myndum af útlenskum karlmönnum sem eru að gera við gamlan vörubíl. Þess vegna ætla ég að bregða á það ráð, að birta pistilinn hans í heild hér á síðunni minni. Ef ég þekki hann rétt, verður hann mér bara þakklátur. Hér er pistillinn.


Krem

Það er svo margt í þessu lífi sem maður gerir umhugsunarlaust. Um daginn var ég næstum farinn að raka mig með tannkremi. Þá varð mér hugsað til þess, þegar ég var krakki og var næstum búinn að bursta tennurnar með rakkremi. Þetta þótti mér merkileg og ljóðræn speglun og hugsaði með mér: svona snýst lífið hring eftir hring.

Í kjölfar þessa atburðar fór ég að hugsa alvarlega um tannkrem.



Þegar ég var lítill var alltaf keypt Colgate og ég burstaði tennurnar með því. Síðan þá hef ég prófað hinar ýmsu tegundir (Solidox og Aquafresh koma fyrst upp í hugann, þó þær hafi verið fleiri) auk þess að hafa smakkað fjölmargar undirtegundir Colgate. Þetta hef ég gert í algjöru hugsunarleysi í mörg ár. Á morgnana, þegar heilinn er ekki vaknaður, og á kvöldin, þegar hann er búinn að slökkva á sér.

En þar sem ég stóð þarna um miðjan dag, með lófafylli af tannkremi á vinstri kinninni hugsaði ég með mér: Er einhver munur á öllum þessum tannkremstegundum? Hef ég nokkurn tíma prófað nýtt tannkrem og hugsað með sjálfum mér:

Vá, þetta er tegundin fyrir mig! Tennurnar mínar hafa aldrei verið svona hvítar. Ef Mikjáll hefði svona hvítar tennur myndi enginn sjá fallega brosið hans!
eða
Uss, þetta tannkrem stenst engan veginn kröfur. Tennurnar mínar eru næstum því brúnar og matarleifarnar eru farnar að mynda grýlukerti í jöxlunum. Þetta er skandall á stærð við Watergate. Þetta er Colgate-gate!
Á sínum tíma var það gífurleg bylting í tannhirðu og gómheilsu þegar Dr. Calvin Colgate markaðssetti tannkrem í túpum, fyrstur manna. Þar áður hafði fólk notast við duft sem blanda þurfti með vatni svo úr varð krem. Þetta var tímafrekt og dýrt, fólk kaus frekar að láta tennurnar rotna og fá sér gervitennur í staðinn. En Dr. Colgate, sem var efnafræðingur með plast sem sérfræðisvið, hannaði plasttúpu sem hægt var að loka þannig að súrefni kæmist aldrei að kreminu, en þá myndi það harðna og eyðileggjast.

Þannig að Colgate fann í rauninni bara upp tannkremstúpuna.



Tannkremið er mun eldri uppgötvun og var vinsælt meðal ýmissa suður-evrópskra sérvitringa á 17. og 18. öld. Þegar spænski landkönnuðurinn Piaro uppgötvaði Choxzul indíanana við Mexíkó-flóa, komst hann að því, að þeir notuðu tannkrem sem steypu til að festa saman múrsteina, en húsagerð þeirra má rekja alla leið aftur til miðalda.

Til að gera indjánana að athlægi, bað hann þá um að blanda fyrir sig smáræði af steypu og notaði það svo til að bursta tennurnar. Hann varð þá sjálfur að athlægi þegar tannkremið harðnaði og læsti munninum. Liðsmenn hans reyndu árangurslaust að bleyta upp í steypunni í meira en viku og neyddust að lokum til að brjóta úr honum allar tennurnar svo hann gæti matast, en hann var þá orðinn ansi illa haldinn af hungri.

Það kom í ljós að þótt steypa indjánanna væri lík hinu vestræna tannkremi, þá reyndist efnablanda indjánanna mun sterkari og munaði þar mestu um lím sem þeir bjuggu til úr pálmaberki.

Eftir þetta varð Piaro meiriháttar brandari í heimalandi sínu og hlaut viðurnefnið Piaro tannlausi sem þótti einstaklega fyndið (en þá var ekki enn búið að uppgötva hnyttni). Piaro féll úr náð við hirðina, tapaði aleigunni og ráfaði um Spán í meira en tíu ár þar til hann gekk fram á klaustur og gerðist munkur.

Í klaustrinu lærði hann grunnatriði málarakúnstinnar og varð fljótt einstaklega hæfur trúarlegur málari. Piaro sérhæfði sig í myndum af Jósefi þar sem hann eyddi smá quality time með syni sínum. Meðal frægustu verka hans voru: Jesú og Jósef í eltingarleik, Feluleikur í Getsemane-garði og Hinir heilögu feðgar smíða kofa. Hann hlaut þó ekki viðurkenningu fyrir list sína fyrr en hann var allur.

Michelangelo sagði um hann: Piaro var ágætur. Fyrir þau orð var Michelangelo dreginn fyrir rannsóknarréttinn, enda var túlkun Piaros á hinum týndu árum Krists ekki vinsæl meðal kardínálanna. Michelangelo var þvingaður til að taka orð sín tilbaka, en á leiðinni úr réttarsalnum heyrðist hann muldra með sjálfum sér: Hann var nú samt ágætur.

En, já, tannkrem.

Það hefur sem sagt bara verið ein raunveruleg bylting í heimi tannkremsins, þ.e.a.s. tannkremstúpan. Ég legg til að næsta bylting verði í formi tannfroðu. Hún virkar eins og rakfroða sem maður sprautar upp í sig, þannig að munnurinn, hver einasta hola og skora, fyllist af tannhreinsiefni. Í þessu kremi eru svo nanóvélmenni sem breyta matarleifum í munnskol og tannstein í tannþráð. Maður leyfir nanóvélmennunum að vinna sína vinnu í tvær mínútur meðan maður smyr sér nesti og svo skyrpir maður kreminu út og skolar munninn. Búið.

Einhvern veginn þykir mér ólíklegt að við sjáum þessa tæknibyltingu á markaðnum næstu árin síðan flestir stærstu tannkremsframleiðendurnir selja líka tannbursta.

Já, líkt og ástin geta fjármálasamsæri verið blind - SIÐBLIND.

mánudagur

þriðjudagur

Dansaður drengur, dansaðu!

Að dansa. Það er nokkuð sem ég get ekki. Ég verð of var um mig. Hvað ef einhver er að horfa? Það væri glaaatað.

Og af hverju ætti ég að dansa? Af hverju ætti ég að tapa sinni mínu og ráði, vegna þess að ég heyri einhverja tóna? Það er langt frá því að vera sjálfgefið.

Sumir geta ekki hamið sig. Um leið tónlistin byrjar, eru þeir komnir út á gólf. Fara jafnvel upp á stóla eða borð. Þeir ráða ekki við sig. Losa um bindið, hneppa frá. Eitt leiðir af öðru, og þarna eru þeir, einir uppi á borði, berir að ofan, að dilla bossanum út í loftið og Prince er í græjunum. - Kommooon!

En, ok. Ok. Maður má ekki vera svona neikvæður.

Ástæðan fyrir þessari bjánalegu þörf er mjög djúpstæð. Mannfólkið getur ekkert gert til að losna undan henni, enda er hún ofinn inn í grunneðli þess. Dansinn (og tónlist Prince) er nefnilega eina leið kynjanna til að stíga í vænginn hvort við annað. Þannig hefur það alltaf verið [1].

En ég spyr: Þarf þetta að vera svona? Af hverju er þetta ekki eins og hjá dýrunum? Þá er oftar en ekki nóg fyrir karldýrið að ná kvendýrinu. Svo einfalt er það. Ég sé fyrir mér stelpur tala saman:
Stelpa #1: Hvernig kynntistu Tuma?
Stelpa #2: Jahh... Þetta var árið 1998. Ég var á gangi á Skólavörðuholtinu og skyndilega byrjaði hann að elta mig. Hann náði mér rétt hjá Bernhöftsbakaríi og við höfum verið saman síðan þá.
Stelpa #1: Jónatan náði mér í hjá Olíutönkunum úti á Granda árið 1991 [andvarpar þungt]. Það verður nú seint sagt að hann Tanni minn sé mikill rómantíker.
Stelpa #2: Oseisei...
Eða eins og hjá öðrum dýrategundum. Þá hreppir sá hnossir, sem nær að gera sig hvað rauðastan í framan. - Ég get gert mig ansi rauðan í framan. Af hverju er það ekki málið?

Jæja, jæja. Ég get svosem litlu breytt um þetta nú. Örlög mín voru að fæðast í líkama manns. Ég verð bara að taka því. Ég verð bara að gera mér dansinn að góðu (og vona að einhver taki eftir því hvað ég er rauður í framan).


[1]
Nema á miðöldum. Þá var bannað að dansa. Þetta er eitthvað sem ráðamenn nútímans mættu taka sér til fyrirmyndar. - Vilhjálmur Vil gæti e.t.v. kynnt hana í blöðunum fyrir mig, enda veitir honum ekki af góðum hugmyndum.

mánudagur

Pútín - óbeislaður, hrár, ótaminn

Fyrir á að giska tveimur mánuðum birti rússneskt dagblað myndir af Vladimir Pútín berum að ofan. Fjölmiðlar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og kepptust um að mæra þennan stælta kropp, sem væri öðrum Rússum sannarlega góð fyrirmynd. Gott og vel.


Ég veit ekki af hverju ég er að átta mig á þessu núna, en öllum fréttunum af þessu stripli Pútín fylgdi athugasemd frá samfélagi homma. Þeir áttu ekki orð yfir þessu framtaki Pútíns. Slíkan karlmann höfðu þeir vart augum barið, o.s.frv. Einhverra hluta vegna kom samlíkingin við Brokeback Moutain fyrir oftar en einu sinni. Ekki kann ég því frekari skýringa.


Ég á erfitt með að átta mig á þessu. Af hverju heyrðist svona mikið í hommunum? Hvar voru allar konurnar? Höfðaði Pútín bara til homma? Nei, því trúi ég ekki...

Jæja, hvað um það. Úr því að ég er byrjaður að skrifa um þetta (en ráðgáta dagsins í dag er einmitt, hvers vegna byrjaði ég að skrifa um þetta?), get ég allt eins birt myndirnar af þessu sveitta kjötstykki. Þó ekki væri nema fyrir hommana.

Hér er maðurinn: Pútín - óbeislaður, hrár, ótaminn:

Hey, babe...! Do you think I'm hot?


Catch me if you can...


I party all night...!

I can feel your heartbeat...

fimmtudagur

þriðjudagur


Maradona

Ég notaði netið um daginn í fyrsta skiptið til að kaupa mér dót. Keypti mér plaggat af Maradona. Fáránlega töff gæi. Fáránlega
töff plaggat.

Hér er YouTube myndband sem mér finnst nokkuð lýsandi fyrir Maradona kúltúrinn. Fyrir þá sem tékka á þessu, takið eftir stemningunni í kring um þennan mann. Takið líka eftir öllum fótbolta-múvunum. Hann er að gera hluti sem maður hefur ekki séð nokkurn annan gera. Annað dæmi um það. Þetta er alveg hreint magnaður maður.

Ein spurning að lokum: Hvernig verður maður svona feitur? Getur verið að þetta tengist á einhvern hátt osmósun?

miðvikudagur

mánudagur


Vinur minn einn sagði, að það væri betra að skrifa stuttar færslur. Skrifa stutt, en oft. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þá speki, en ég er að hugsa um að prófa það.