fimmtudagur

Úr einu í annað

Fjórar heimsóknir! Nú eru meðmælin, með síðu Guðmundar Jóns, búin að standa efst á síðu minni í tvær vikur, og hann segir mér að það hafi aðeins skilað fjórum heimsóknum. Þetta er algjör skandall!

Ég kíkti á kaffihús fyrr í kvöld. Vinur minn og ég mæltum okkur móts á Barnum, og ætluðum síðan að fara þaðan eitthvert annað. Á Barnum tók við heldur undarleg sjón. Hann var troðinn af unglingum sem voru að reykja sígarettur. Þá er ég ekki að tala um einn og einn, heldur mundaði hver einasta sála þarna inni líkistunaglann. 50 manns allt í allt, ég taldi. Þetta voru greinilega samantekin ráð. Menn eru að bjóða kerfinu birginn. Það styttist í uppreisnina.

Ég sá myndbrot af Steve Hawkins á YouTube. Hann sat í stólnum sínum og hreyfði sig ekki neitt. Einhvers staðar heyrðist rödd vélmennis útskýra ýmis vísindaleg fyrirbæri. Ég fór að spá í þessu. Er hann ekki bara löngu dauður? Það gæti alveg verið einhver sjúkur brandari í gangi. Þegar hann dó, var hann látinn liggja áfram í stólnum og stýrt með fjarstýringu. Svo talar einhver fyrir hann með talstöð. Ef rétt reynist, þá er þetta sjúkt.

Hvað meira..? Jú, Helgi og Sigurveig eignuðust barn um daginn. Það á ekki að heita Jóhannes B. Helgason, eins og ég hafði vonað, heldur Sigurður Arnar. Mér finnst þetta gott nafn. Án vafa næstbesta nafnið sem þau hefðu geta fundið. Lélegasta nafnið er hins vegar Zhongsheng, en
það þýðir ,,fæddur í mannþröng". Frábært.

Ég var að spá í að skrifa um borgarmál, en ég er eiginlega orðinn of seinn. Mig langar samt að segja: Hefur einhver séð húsin á Laugavegi 4 og 6? Þetta eru ljótustu hús í allri Reykjavík, og þótt víðar væri leitað. Hvernig í veröldinni dettur mönnum í hug að vilja varðveita þau? Eru menn klikkaðir?

miðvikudagur

Meðmæli

Ég mæli enn og aftur með
síðu Guðmundar Jóns. Hann er nýlega búinn að skrifa góðar og fróðlegar færslur um Dustin Hoffman og Clint Eastwood, svo ekki sé minnst á stórkostlega greiningu hans á bíómyndinni The Highlander. Þetta er kjötmikið stöff.

mánudagur

Tala dýrsins (Færsla í anda Da Vinci Code)

Í Opinberunarbók Jóhannesar segir:
,,Og dýrið lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín og kemur því til leiðar að enginn geti keypt eða selt nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess. Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins því að tala manns er það og tala hans er sex hundruð sextíu og sex."
Hvað í veröldinni þýðir þetta? Og hvernig fær hann þetta út? Þetta er einhver leikur. Hann segir beinum orðum, að hægt sé að reikna tölu dýrsins og einnig að það sé tala manns. Ég fór á Wikipediu og fletti þessu upp. Það kom mér mikið á óvart, en þar kemur fram, á ótvíræðan hátt, hver það er sem Jóhannes kallar ,,dýrið".

Áður en ég segi frá svörum Wikipediu, ætla ég að segja hvað ég hélt að þessi tala þýddi. Án þess að hafa brotið heilann mikið um hana, hef ég alltaf haldið að talan ætti á einhvern hátt að vera táknmynd djöfulsins. Ég veit ekki hvaðan ég hef það, en ég hugsa að flestir séu sömu skoðunar.

Og eitt verður að koma fram, áður en ég svipti huluni af þessari mögnuðu ráðgátu. Dýrinu er lýst í Opinberunarbókinni:
,,Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn. Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. [...]

Þá hófst stríð á himni: Mikael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar hans börðust á móti en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum."
Jahhá! Drekanum var bara varpað til hins gamalkunna höggorms, Satans. Það er ekkert annað. - Það er reyndar talað um dýr á öðrum stað í Opinberunarbókinni, lítið saklaust lamb, með hrjúfa rödd eins og dreki. En það er annað mál. Í þessari sambandi er einblínt á fyrra dýrið. Sjöhöfða drekann.

Wikipedia segir, að margir fræðimenn telji að 666 sé dulbúið nafn Nerós, sem var keisari Rómaveldis um þetta leyti. Dæmið lítur einhvern veginn svona út:

Á hebresku er Neró keisari skrifað ,,נרון קסר
. Af því leiðir:

Resh Samekh Qoph Nun Waw Resh Nun TOTAL
200 60 100 50 6 200 50 666

Í elstu þekktu útgáfu Opinberunarbókinnar er tala dýrsins 616. Það vegna þess, að hún er líklega þýdd upp úr latínu og þar er nafn Neró skrifað öðruvísi (sem verður til þess að reiknisdæmið hér að ofan gefur útkomuna 616).

Árið 64 eKr brennur Róm, á meðan Neró leikur á fiðlu sína. Í kjölfar eldsvoðans var skuldinn skellt á hóp uppreisnarmanna, sem sögðust vera Kristnitrúar. Þeir voru leitaðir uppi og drepnir, og er talið að lærisveinarnir Pétur og Páll hafi farist í þessum ofsóknum. Annar hálshöggvinn, hinn krossfestur á hvolfi. Talið er að Jóhannes skrifi Opinberunarbókina sama ár.

Jóhannes lýsir drekanum með sjö höfuð. Það er jafnmörg höfuð og hverfi Rómaborgar. Dýrið gæti verið myndlíking hennar. Jóhannes segir einnig að hægt sé að reikna þessa tölu út, og að hún sé tala manns. Það hefur verið gert, sbr. dæmið hér að ofan. Ofan á allt annað, er bókin skrifuð í kjölfar ofsókna Nerós á hendur Kristinna manna. Er einhver að tengja? Dýrið er Neró. Það fer ekki á milli mála!

Ég veit ekki af hverju mér finnst þetta svona merkilegt. Ég bara varð að segja frá þessu.

föstudagur

SMS

Ég á frekar erfitt með að skrifa SMS. Hef ekki þolinmæðina í það. Af hverju ekki bara að hringja? Það er miklu auðveldara.

Ef ég þarf að skrifa SMS, reyni ég að hafa það eins stutt og ég mögulega get.
,,?" er algengasta spurningin og ,,Ok" er algengasta svarið.

Svo er líka svo auðvelt að misskilja SMS. Tek dæmi þar sem ég fæ SMS sent frá vinkonu minni um að hittast á kaffihúsi. Ég svara með SMS: ,,Gott mál". Þó að svarið sé stutt og laggott, má samt skila á þúsund mismunandi vegu. Eðlilegast er að skilja textann á þann hátt, að ég taki vel í uppástunguna (lögfræðingar myndu líklega kalla þetta, að túlka svarið eftir orðanna hljóðan). Í öðrum tilfellum gæti vinkonan hins vegar lagt allt annan skilning í SMSið. Um leið og hún les skilaboðin, heyrir hún í huga sér rödd mína óma. Tónninn er rennandi blautur af yfirlæti og kaldhæðni; ég er augljóslega að draga dár að henni. Vinkonan verður fúl og sendir snubbótt/hastarlegt SMS á móti. Og í kjölfarið klóra ég mér í kollinum yfir SMSinu; hvað á hún eiginlega við? Er þetta grín eða alvara?

Þess vegna nota sumir broskarla. Broskarlarnir taka af allan vafa. Ef ég svara: ,,Gott mál ;)", fer það ekki á milli mála að hver tónninn er. Og þá fengi ég líklega svar, sem innihéldi annan broskarl. Gott mál.

En ekkert er svo gott, að það boði ei eitthvað slæmt. Þessir broskarlar... Ég þoli þá ekki [1]! Eða... orðum þetta öðruvísi. Mér finnst gaman að fá broskarla í SMSi, en þegar ég þarf að búa þá til sjálfur, renna á mig tvær grímur. Er það virkilega þess virði að menga textann með þessum fíflalegu skrípum, í skiptum fyrir ótvíræðan skilning? Erfitt að segja.

Það er undarleg staðreynd, en staðreynd engu að síður, að ég myndi aldrei setja broskarl í SMS til stráks. Hann myndi bara hugsa: Hvað er málið með Jóa? Er hann alveg búinn að tapa sér? Ég held að strákar skeyti síður um tóninn í SMSinu, skilaboðin eru það sem máli skiptir. Stelpur eru hins vegar miklu meiri pólitíkusar. Þær hugsa: Hann segir þetta, en hvað meinar hann í raun og veru. Hmm...

Jæja, nú er ég byrjaður að fabúlera. Ætli það sé ekki best að hætta hér. Niðurstaðan: SMS eru til vansa. Það er miklu betra að hringja bara.


[1]
Ósköp er þetta eitthvað fýlupokaleg staðhæfing.

mánudagur

Nýtt ár

2007 var ekki merkilegt ár. Ef ég ætti að gefa því einkunn, fengi það 6,3. Það er ekki nógu gott. Og því ber að breyta.

Það sem bar hæst á árinu, er líklega árangur Valsmanna í knattspyrnu. Það verður líklega eina minningin um árið 2007. Það er ansi dapurleg staðreynd.

Þrjár setningar í röð sem byrja á ,,það". Nú hringja viðvörunarbjöllurnar. Ég er of þreyttur til þess að skrifa neitt af viti. Ætla að detta í háttinn. Áður en ég geri það, ætla ég samt að segja frá ákvörðun minni um árið 2008. Það skal heita ár hugdirfsku. Og þá er að tala um að sýna ofur-hugrekki, þar sem flestir myndu kjósa að sitja hjá. - Það var pælingin.