mánudagur

Fuglanöfn

Ekki veit ég hvort það er rétt, en einn vinur minn sagði að Einar Ben hafi skírt öll sín börn eftir fuglum (þ.e. millinafnið). Það sem gerir þetta merkilegt, er að hann átti sex börn. Og það sem gerir þetta mjög merkilegt, er að Einar var fyrstur Íslendinga til þess að nefna börn sín eftir þessum fuglum.

Börnin hétu:

Finnur Múkki Einarsson
Grímur Albatros Einarsson
Guðný Fýll Einarsdóttir
Jón Svartbakur Einarsson
Bjarni Pelíkani Einarsson
Sigríður Mörgæs Einarsdóttir

Nei nei. Þetta er bara bull. Ég veit ekkert hvað börnin hétu. - En ég hef verið að hugsa um mannanöfn sem eru dregin af fuglanöfnum. Þau eru mistöff. Ég bjó til lista:

Þetta eru lúðar: Þröstur, Svanur, Gaukur, Már og Andrés.
Þetta eru töffarar: Haukur, Örn, Hrafn og Smyrill.

En þá er það næsta pæling: Af hverju er ekki skírt eftir fiskum? Urriði gæti haft sömu beygingu og Indriði, og Hákarl eins og Karl. Kolmuni hljómar líka eins og alvöru nafn. Kolmuni Árnason. Þetta gæti alveg gengið.
Vertu ekki að plata mig

Björgvin Halldórsson lagið Vertu ekki að plata mig byrjar svona:

Ég sá hana í horninu á Mánabar, hún minnti mig á Brendu Lee.

Hver er þessi Brenda Lee? Google segir að þetta sé hún. - Svaka skutla.

Seinna segir:

Ég er ekki eins og allar stelpurnar,
sem hoppa upp í bíla með hverjum sem er.

Hoppa upp í bíla? Var hann að taka einhverjar bíladruslur á löpp? Bíladruslu, sem í þokkabót minnir hann á Brendu Lee. Vel gert.

P.s.
Ellert var að tala um að þetta væri fáránlega gott lag. Ég hef mínar efasemdir.

þriðjudagur


Misvandaðir fréttamenn skrifa um drápin í Virginíu

Ég hef alltaf haft mikið álit á Mogganum. Ég les hann spjaldanna á milli ef ég kemst í hann, týni mér jafnvel í minningargreinunum ef ég er þannig stemndur (sem er reyndar sjaldnast). Styrmir ritstjóri er maður sannleikans og góðra gilda. Sérhvert orð úr munni þessa risa er klettur í mínum augum. Óhagganlegur sannleikur.

En lofum þá ekki um of. Mogginn er ekki fullkominn. Sérstaklega ekki mbl.is, sem fellur alltaf meira og meira í áliti hjá mér. Það gerist í réttu hlutfalli við fjölda slúðurfrétta. Auk þess er ég farinn að verða þreyttur á spekingunum á Moggablogginu; þetta eru ekki beinlínis Íslands bestu synir (þó ýmsir góðir leynist þar inn á milli). Mér finnst þessi meðalmennska vera fyrir neðan virðingu Moggans.

Ofan á allt saman, eru fréttirnar á mbl.is oft illa skrifaðar og af fljótfærni.
Það er mín prívat kenning, að þangað séu reynslulitlir blaðamenn sendir til þess að slíta barnsskóm. Langar til að taka dæmi, þar sem Mogginn skrifar um skotárásirnar í Virginíu:

Um tveimur tímum síðar réðist hann inn í Norris Hall, byggingu í um 800 metra fjarlægð frá heimavistinni þar sem verkfræðideild skólans er til húsa. Þar réðist hann inn í skólastofu og skaut á fól.
Skaut á fól? Æ, kommon. Ekki gera þessa villu. Maður fer strax að hugsa: Hvernig gat hann vinsað fólin frá hinum? Eða gerði hann kannski ráð fyrir því, að þeir væru allir fól fyrst þetta var í verkfræðideild skólans? - Þetta er frekar óheppilegur staður fyrir rangan innslátt. Hvernig er það, les þetta enginn yfir áður en þetta er sett inn á mest lesna fréttavef landsins?

Seinna dæmið:


Lög um skotvopnaeign í Virginíu ein þau vægustu í Bandaríkjunum
Brady-samtökin, sem berjast gegn hertum reglum um skotvopnaeign í Bandaríkjunum, gefa Virginíu einkunnina C mínus, á skalanum A til F, fyrir hversu öflug skotvopnalöggjöfin þar er. 32 af 50 ríkjum Bandaríkjanna fá D eða F í einkunn hjá samtökunum.
Þetta er ekki rétt staðhæfing. Ef 32 ríki fá einkunnina D eða F, fá þau lægri einkunn en Virginía. Því má segja að lögin í Virginíu séu almennt harðari en gengur og gerist í Bandaríkjunum, ekki vægari.

En mbl.is er ekki alslæmur. Alla vega ekki jafnlélegur og visir.is. Ef ég vissi ekki betur, myndi ég ætla að fréttahaukarnir þar væru á fyrsta ári í framhaldsskóla. Þeir eru merkilega lélegir. Tek dæmi þar sem visir.is skrifar um skotárásirnar (leiðréttingar mínar eru í hornklofa):

Kóreumenn óttast fordóma
Utanríkisráð [Utanríkisráðuneyti] Suður Kóreu [Suður-Kóreu] hræðist fordóma vegna skotárásar kóranska [kóreska] nemandans Cho Seung-Hui [Útlend blöð skrifa: Cho Seung-hui] við Virginia Tech Háskóla [háskóla] í Bandaríkjunum. Um 500 kóreanskir [kóreskir] [Hér vantar orð] og kóreanskir [kóreskir] Bandaríkjamenn eru nemendur við skólann og vonast utanríkisráðherran [utanríkisráðherrann] til þess að þau [þeir] verði ekki fyrir aðkasti vegna þessa.

Cho Seung-Hui [Cho Seung-hui] var búin [búinn] að búa í Bandaríkjunum frá því árið 1992. Hann var samt sem áður frekar vinafá [vinafár]. Haft er eftir kóreanskri [kóreskri] stelpu við skólann að aðrir kóreanskir [kóreskir] nemendur innan skólans kannist ekki við hann.
Ofan á allar villurnar, bætist við að textinn er með eindæmum ósmekklegur. Tek seinni efnisgreinina sem dæmi:

Vísir: Cho Seung-Hui var búin að búa í Bandaríkjunum frá því árið 1992.
Athugasemd 1: Búinn að búa. Þetta er ósmekklegt.
Athugasemd 2: Væri ekki fallegra að segja:
Cho Seung-hui hafði búið í Bandaríkjunum...
Eða jafnvel:
Cho Seung-hui hafði verið búsettur í Bandaríkjunum...
Athugasemd 3: Væri ekki fallegra að segja: ...Bandaríkjunum frá árinu 1992.

Vísir: Hann var samt sem áður frekar vinafá.
Athugasemd: Þessi setning er alveg taktlaus. Kemur eins og álfur út úr hól á eftir fyrri setningunni. Betra hefði verið að segja: Þrátt fyrir að hafa búið í Bandaríkjunum í fimmtán ár, var Cho Seung-hui frekar vinafár.

Vísir: Haft er eftir kóreanskri stelpu við skólann að aðrir kóreanskir nemendur innan skólans kannist ekki við hann.
Athugasemd: Hér virðist
vera einhver ruglingur í gangi með nútíð og þátíð. Ég myndi frekar segja: Haft var eftir kóreskri stelpu, að Kóreubúar innan skólans hafi ekki þekkt til hans.

Niðurstaða: Mogginn fer dalandi. Vísir er fyrir löngu orðinn hluti af forarsvaðinu.

mánudagur


Svertingi

Ég man eftir því þegar ég sá svertingja í fyrsta skiptið. Mér fannst það mjög merkilegt. Ég var í bakaríi með mömmu og spurði hana út í manninn. Ég man ekki hverju hún svaraði.

Ég man líka eftir því þegar ég sá svertingja í annað skiptið. Það var í rúllustiga í Stokkhólmi. Ég var að leika mér með He-man karl á einhverju torgi (minnir að ég hafi verið að kasta honum - láta hann fljúga) og þá flaut jakkafataklæddur svertingi upp rúllustigann við torgið. Ég horfði á eftir honum, gapandi af undrun.

Á seinni árum hef ég aðeins einu sinni verið lostinn sambærilegri undrun, en það var þegar ég sá örn í fyrsta skiptið. Þá var ég átján ára og þetta var einhvers staðar rétt hjá Breiðdalsvík. Verkstjórinn stöðvaði bílinn og við gláptum allir upp í loft á þennan fugl ,,sem flaug hæst allra fugla". Þetta var mikil upplifun.

þriðjudagur

Rik og tími

Ryk hefur alltaf verið mér hulin ráðgáta. Hvaðan kemur það? Myndast það bara úr engu? Nei, það getur ekki verið. Ég er farinn að hallast að þeirri kenningu, að á nóttunni læðist inn til mín maður með ryk í poka. Hann stígur fallegan dans og skvettir því um íbúðina. Á meðan hrýt ég eins og göltur inni í herbergi. Hvað þessum manni gengur til, skal ég ekkert fullyrða um. Líklegast er hann snarbilaður. En, já. Þessi kenning stendur, þangað til annað hefur verið sannað.

Ryk er eitt af þessum orðum, sem maður gæti aldrei stafsett rang. Rik. Þetta hljómar eins og útlenska, gæti verið danska. Boðháttur af sögninni rikker, sem gæti jafnvel verið dónasögn. ,,Han rikker for meget," myndi áhyggjufullur foreldri segja við lækninn, í samtali um náttúru sonarins. Flott sögn. (
Samt pínu klikkað, ef til er fólk sem notar þessa sögn í boðhætti. Hmm...)

Önnur orð sem er ekki hægt að stafsetja rangt: Fyrir, yfir, sími,
tími, líf, tíu...

En talandi um rik. Í dag á ég afmæli.

Ég fór snemma á fætur og horfði í átt til skýjanna. Í gluggakistunni hafði safnast firir rik, sem ég reit nafnið mitt í
. Hugsa sér týmann, sem tekur þetta rik að safnast firir. Týu ár, hið minnsta. Og hugsa sér manninn, sem kemur hingað á hverri nóttu og dansar rik-dansinn. Hvílík bilun! - Þá skyndilega truflaði sýminn þanka mína. Þetta var maður að selja lýftriggingar og lif firir ynnifly. Nei, takk! Ekki í dag, sagði ég og lagði tólið frá mér. Ekki í dag.

Já, þetta er búið að vera ágætur dagur.

mánudagur

Úr einu í annað

Það krotuðu einhverjir ræflar að húsið mitt. Þeir skrifuðu: 101 Kingz. - Töff.

Mig langar til þess að finna þessa gaura og krota á fötin þeirra. Mér finnst það sambærilegt. Ég myndi skrifa eitthvað hallærislegt. Everybody loves Raymond, það ætti að duga.

Mér tókst að plata vinkonu mína í gær, á 1. apríl. Hún spurði hvort ég væri svangur, og ég sagði nei (en það var ekki satt, hehehe). Þetta var hrekkur aldarinnar!

Mæli með
WhiteNinja teiknimyndinni hér að neðan. Þetta finnst mér ákaflega fyndið.

Er kominn með nýjan uppáhalds rappara. Hann heitir Reh Dogg og er mjög svalur. Hér að neðan er myndband með hetjunni. Ég á reyndar pínulítið erfitt með að átta mig á þessu myndbandi, það hangir eitthvað svo illa saman: Hlaupin í skóginum... sturtuatriðið... þegar hann kastar sér á jörðina og hleður byssuna... að ógleymdum blessuðum börnunum. Ég skil þetta ekki alveg. - En hann er samt góður.

Beh Dogg rokkar kofann í klessu

Vangavelta: Breytingin frá mannimenni. Svipar það til breytingarinn frá fuglifygli. Hljóðvarp og hvorkynsvæðing gerir hvort tveggja að ,,einhverju vondu". Óþekkt barn, gæti með þessari reglu verið kallað berni. Ojj. Þetta er viðbjóðslegt orð. Berni.

Annars rak ég augun í mjög ljótt orð um daginn: Milliinnbankaborð. Það er samt ekki jafnljótt og orðið næststærsta, sem er ljótasta orð Íslendinga
. Það ætti að banna þessi orð.

Það ætti líka að banna slagorð Íslandshreyfingarinnar: Lifandi land. Taktlausara innrím hefur ekki sést á byggðu bóli. Ég hef sömu tilfinningu fyrir þessu slagorði og gleym-mér-einni (hamborgari með miklum gráðosti) á Vitabarnum: Þetta er ógeðslegt og ef ég fæ mér meira, mun ég kúgast. - Jæja. Kannski ekki alveg, en mér finnst þetta samt mjög ljótt.