miðvikudagur

Mogginn er með frétt í dag:
Æ meira um vansköpun
Vansköpun og öðrum fæðingargöllum hefur fjölgað mjög í Kína eða um heil 40% á aðeins sex árum. Þetta þýðir, að á 30 sekúndna fresti fæðist vanskapað barn í landinu.
Hvaðan kemur þessi 30 sekúndna pæling? Hún er algjört drasl. Segir manni ekkert, nema það að Kína er stórt land. Ef sama tölfræði gilti um minni lönd, til dæmis Ísland, myndi fréttin hljóða svo:
Æ meira um vansköpun
Vansköpun og öðrum fæðingargöllum hefur fjölgað mjög á Íslandi eða um heil 40% á aðeins sex árum. Þetta þýðir, að á 36klst og 43mín fresti fæðist vanskapað barn í landinu.
Athyglisvert.

mánudagur

Rós er rós er rós

Í vikunni fékk ég senda rós. Búttaður starfsmaður frá Blómaval, afhenti mér poka, sem innihélt rósina, án frekari skýringa. Á kortinu var einungis nafn mitt og heimilisfang. Vantaði upplýsingar um sendanda. Ég hugsaði: Hvað á töffari eins og ég eiginlega að gera við rós? Ég setti pokann út í glugga, þar sem hann lá óhreyfður það sem eftir lifði dags.

Daginn eftir velti ég möguleikunum fyrir mér. Ég get ekki hent henni, það má alls ekki. Ég get heldur ekki sett hana á stofuborðið, það er alltof stelpulegt. Og loks get ég ekki haldið áfram að geyma hana í þessum poka; fyrst rósin er á annað borð komin í hús, verð ég að gera eitthvað sómasamlegt við hana.

Eftir mikil heilabrot, komst ég að niðurstöðu. Ég áfram-gef rósina. Með því móti, myndi ég losna undan ábyrgð að finna henni stað og hún fengi sess við sitt hæfi einhvers staðar annars staðar.

En hverjum á ég að gefa rósina? Það fylgja alltaf ákveðin skilaboð með svona blómasendingum. Hvaða stelpa (það hlaut að vera stelpa, svo mikið vissi ég) myndi ekki taka því sem ástarjátningu af minni hálfu, ef hún fengi svona sendingu frá mér? Mér datt bara ein í hug.

Ég bankaði upp á hjá nágrannakonunni, sem er 88 ára gömul, og sagðist hafa dottið í hug að gleðja hana með þessu smáræði. Hún þakkaði mér fyrir og sagðist myndu finna rósinni góðan samanstað. Eftir stutt og ánægjulegt spjall kvöddumst við. Þungu fargi var af mér létt.

Nema hvað, að nú áðan, geng ég framhjá húsi nágrannakonunnar og rek augun í eitthvað kunnuglegt sem lá í gluggakistunni. Þetta var rósa-pokinn góði. Hann var óupptekinn.

Hvað er málið? Getur verið að gamla konan sé í sömu rósa-vandræðum og ég? Er hún núna, akkúrat þessa stundina, að brjóta heilann um það, hverjum hún geti áfram-gefið þessa rós, án þess að það virki sem einhver játning af hennar hálfu. Og svo er það önnur spurning: Hver sendi mér rósina? Var það kannski einstaklingur, sem var að glíma við sama vandamál og ég og gamla konan? Var hún áfram-send á mig, til þess að losna undan ábyrgðar-farginu sem virðast fylgja þessari rós. Hafa margir fengið þessa rós senda áður en hún barst mér? Tíu? Tuttugu? Og hver í veröldinni keypti hana upphaflega? Hvað var hann eiginlega að spá?

miðvikudagur


Nýtt orð

Ég rakst á nýtt orð í gær: Raðfrumkvöðull.

„Kvöðull“ er ekki fallegt orð. Gæti verið sett saman út orðunum kvöð og böðull. Bæði orð innihalda mikla eymd. Framan við þetta orð eru sett tvö forskeyti (sem er ekkert sérlega smart). „Frum-“ tengi ég við forneskju; eitthvað sem er mjög frum-stætt og hrátt. „Rað-“ er forskeyti ég tengi aðallega við illvirki af einhverjum toga, til dæmis morð og nauðganir.

Svo er þessu öllu slengt saman í eitt orð og útkoman er „raðfrumkvöðull“. Smart.

mánudagur

Steggjun 2007

Einn góður vinur minn var steggjaður um helgina. Við fórum m.a. með hann í Kolaportið, þar sem hann brá sér í gervi götulistamanns og bauð gestum og gangandi upp á portret andlitsmyndir. Tók bara fimm mínútur að gera þær - og kostaði ekki meira en 500 kr.

Þetta var samt ekki svona auðvelt. Við vorum nefnilega búnir að teikna eitthvað dónalegt inn á öll blöðin, og fyrirmælin voru þau að hann mátti ekki krota yfir það. Hann mátti hins vegar ,,fela" dónaskapinn, með því að teikna í kring um hann og freista þess að láta hann á einhvern hátt ,,falla inn í umhverfið".

Eftir tvær mínútur af harki, kom fyrsti viðskiptavinurinn. Hann settist á koll fyrir framan stegginn, sem setti sig í stellingar. Á blaðinu fyrir frama hann var mynd af drjóla. Það var tómt að öðru leyti. Ég vissi strax, að þetta yrði mjög athyglisvert.

Steggjahópurinn blandaðist fullkomlega inn í mergð Kolaportsins. Engan grunaði að hér væri um einn hóp að ræða. Eftir nákvæmlega fimm mínútur lýkur steggurinn (sem var ekkert sérstaklega góður að teikna, bara svona eins og gengur og gerist) við myndina og býður viðskiptavininum að sjá. Það kom einhver svipur á hann. Síðan horfir hann á stegginn. ,,Ég ætla ekki að borga 500 kr fyrir þetta", sagði hann síðan og húrraði sér á brott. Hljómur setningarinnar, og þá sérstaklega hvernig hann sagði orðið ,,þetta", var löðrandi af fyrirlitningu.

Ég fór til steggjarins og kíkti á myndina. Þetta er það sem ég sá: Drjóli með gleraugu og yfirvaraskegg. Hann brosti vinalega og virtist bara vera nokkuð geðþekkur. Hann var klæddur í jakkaföt og sat á stóli. Fyrir aftan hann var skilti sem stóð á Kolaport. Þetta átti að kosta kúnnan 500 kr. Ég hélt ég myndi rifna í tvennt, ég hló svo mikið.

Það tóku einhverjir mynd af þessari teikningu. Það væri gaman ef einhver myndi nenna að setja hana á netið og linka á hana inni á kommentakerfinu. Ég held að ég hafi ekki hlegið svona lengi í marga mánuði, eða frá því að Guðmundur Jón var að lýsa því á ensku hversu óþekkur strákur Gutti var. Það var líka gott.

þriðjudagur

Aumingja Villi

Það var erfitt að horfa á
Kastjósið í kvöld. Vilhjálmur borgarstjóri og Bjarni Ármannsson ræddu um mikilvægt minnisblað sem sá fyrrnefndi ber af sér að hafa séð. Vilhjálmur segir ítrekað, að hann hafi enga hagsmuni af því að ljúga til um að hafa ekki séð þetta minnisblað. Það er ekki rétt. Trúverðugleiki hans liggur undir.

Ég veit ekki hvað er rétt og hvað ekki, en þetta lítur ekki vel út fyrir Villa. Ósköp fann ég til með honum í þessu viðtali. Hann minnti mig á gamlan karl sem kvartar sáran yfir matnum sínum, en enginn hlustar á og tekur alvarlega. Ég held að Vilhjálmur sé bara geim over.

Björn Ingi líka. Hann er algjörlega búinn að klúðra öllu. Framsókn er ekki nærri því jafnsterk og þegar hún var með Sjálfstæðisflokknum. Þá gat hún alla vega hótað því að slíta samstarfinu (og fara í samstarf við stjórnarandstöðuna), ef mál hennar næði ekki fram að ganga. Núna getur Framsóknarflokkurinn það ekki. Ofan á það, má gera ráð fyrir að ~helmingu borgarbúa leggi á hann fæð fyrir þennan bjánaskap. Það hlýtur að vera erfitt.

mánudagur

Gott grín í boði Arnolds

Ég sá heimildamyndina Pumping Iron í gær, þar sem vaxtarræktarmanninum Arnold Scwartzenegger er fylgt eftir. Þar segir hann frá vangaveltum sínum um vaxtarrækt og hvað það er sem þarf til þess að vera sigurvegari. Það sem kom á óvart var hversu andlegi þátturinn virtist vega þungt. Hann sagði frá því hvernig hann kom fyrir steinum í götur keppinauta sinna, með því að gefa þeim fölsk ráð.

Til dæmis sagði hann einu sinni þýskum keppinaut sínu, að það nýjasta nýja í vaxtarræktarbransanum væri að öskra þegar maður kreppti vöðvana: Ef maður kreppir vöðvana hátt á lofti, átti öskrið að vera skrækt. Ef hnyklið fór fram neðarlega, átti röddin að vera bassakennd. – Það fór svo, að Þjóðverjinn tók ráðleggingum Arnolds og steig á stokk með tilheyrandi látum.

Þessi nýi stíll fór að sjálfsögðu öfugt ofan í alla, og Þjóðverjinn hlaut ekki verðlaun fyrir frammistöðu sína. En Arnold vann, að sjálfsögðu.

Þetta er gott grín.

miðvikudagur


Jesús

Var hann til? Ég held það.

Ég held að hann hafi verið frekar sniðugur gæi. Mikill sölumaður, svo mikið er víst. Hann hefur talað af mikilli sannfæringu og komið vel fyrir. Fólki hefur þótt hann hrífandi og spakur. Ræðurnar hafa vafalaust verið kynngi magnaðar og snjallar. Ég sé fyrir mér að hann hafi talað af mikilli andagift. Orðin komið sjálfkrafa til hans, og nánast oltið út úr honum yfir hópinn, sem horfði á fullur aðdáunnar.


Ég held að hann hafi ekki verið hrappur í þeim skilningi, að hann hefur örugglega trúað öllu því sem hann boðaði sjálfur; hann var ekki vísvitandi að blekkja neinn. Það hefur verið tuggið ofan í hann á unglingsárunum, að hann væri sonur Guðs. Í uppreisn við foreldra sína hefur hann þrjóskast við að trúa því og heimtað að fara í iðnskóla. Sem hann gerði. Seinna hefur hann orðið fyrir uppljómun af einhverju tagi (ætla ekki að segja frelsun) og kosið að trúa dellu foreldra sinna. Og þá upphófst ævintýrið.

Ef lýsa ætti Biblíunni með einni setningu, væri það: Smiður fer í ferðalag, eignast góða vini og lendir í alls kyns ævintýrum.

Ég held að þetta hafi nokkurn veginn verið svona. Hann ferðaðist á milli, hélt ræður og lenti í ævintýrum. Svo hafa ræflarnir sem fylgdu honum um hvert fótmál ýkt afrek hans og sögurnar fóru á kreik. Svo var hann tekinn af lífi á hápunkti ferils síns, en goðsögnin lifði áfram. - Rétt eins og John Lennon. Hann dó ungur og töff. Þannig verður hans alltaf minnst. Paul McCartney var einu sinni ungur og töff. Hann hélt áfram að lifa, varð algjör lúði og þannig mun minning hans verða.

Jesús - töff

Paul McCartney - ekki töff

Þetta er nú ljóta vitleysan. Eftir því sem ég skrifa meira, fjarlægist ég það sem ég ætlaði upphaflega að skrifa um. Ég ætlaði að feisa Palla, sem dregur það í efa að Jesú hafi verið til. Ég nenni því ekki úr þessu. Palli: Þú getur lesið þetta.

Niðurstaða dagsins í dag: Jesú var örugglega frekar góður gæi.
Niðurstaða morgundagsins: Guð er vondur gæi.

P.s.
Ohh... Ég hefði átt að skrifa um delluna í Ólafi Ragnari. Hvílíkt hringl.

þriðjudagur


Two Virgins

Kveikt var á friðarsúlunni í dag. Þeir sem fylgdust með í beinni útsendingu töluðu um að stemningin hafi verið frekar kotungsleg að hálfu molbúa og andrúmsloftið þvingað. Yoko á að hafa dreift pappa-lúðrum til fjöldans og beðið hann að kalla I love you. Það gerði náttúrulega enginn nema Yoko, og gjörningurinn varð í kjöfarið frekar vandræðalegur.

Sem minnir mig á gátu sem ég heyrði þegar ég var lítill: Hvað er gult og grætur?

Ósmekklegt grín á þriðjudegi. Það er besta grínið. En aðeins áfram um friðarsúluna. Mogginn fjallaði um þessa uppákomu og birti með myndina hér að neðan. Mér fannst ég hafa séð hana áður. En hvar? Um leið og ég áttaði mig á því, mátaði ég myndirnar hér að neðan saman.

Yoko/John - Yoko/Villi

Ekki ósvipað. Ef þau væru nakin á myndinni hér til hægri (sem þau blessunarlega eru ekki) væri þetta 100% match. Pottþétt.

Partýgestir

Ég spurði vin minn um daginn hverjum hann myndi bjóða í partý, ef hann fengi að bjóða hverjum sem er, lífs eða liðnum. Hann nefndi
Marquis de Sade ásamt fleiri partýljónum. Frekar athyglisvert val.

Þeir sem ekki nenna að lesa umfjöllun Wikipediu um greifann, er hann frægastur fyrir brenglaða kynhvöt sína. - En sadisminn er kenndur við hann (og partýin sem hann stóð fyrir, voru áþekk þeim sem voru í myndinni Eyes Wide Shut).

Ég hef sjálfur velt þessari spurningu fyrir mér. Hverjum myndi ég bjóða?

Auðvelt:

Úti á enda sæti Egill Skallagrímsson. Hann er hafður þar, vegna þess að ég væri pínu hræddur við hann. Við hliðina á honum sæti Þórbergur Þórðarson. Þeir gætu örugglega rætt heilmikið saman um skáldskap. Svo kem ég og Scarlet Johansen. Hún væri deitið mitt. Henni á hægri hönd væri Woody Allen (þau þekkjast víst eitthvað) og loks kæmi Jesú. Já, ég veit að það er hálf leim að tína til Jesú, en mig langar samt að fá hann. Hann er örugglega athygliverður gaur. Morrissey myndi syngja fyrir okkur, en hann fengi ekki að vera með í borðhaldinu vegna þess að hann er örugglega frekar leiðinlegur.

Aðrir sem koma til greina:
- Maradona
- Tyler Durden
- Bæti við fleirum eftir því sem mér dettur í hug.

mánudagur


Peningar og hamingja

Ég heyrði nágranna minn tala í símann í morgun. Hann var að tala um hamingjuna: ,,Búið er að sýna fram á, að það er engin fylgni á milli hagvaxtar og hamingju. Það eina sem virðist skipta máli, er hvort að mönnum líki við nágranna sína".

En indæl staðreynd, hugsaði ég. Að þorri manna kjósi náungakærleikinn fram yfir fýsnir Mammons. Þetta er gott mál.

Svo tók ég göngutúrinn í vinnuna. Getur þetta samt verið? hugsaði ég. Og eftir því sem ég hugsaði meira, varð ég þess sannfærðari að ég hefði líklega misskilið hann. Hann hefur örugglega sagt: ,,Það eina sem virðist skipta máli, er hvort að menn séu ríkari en nágrannar sínir".

Þessi sjálfumglaði hrokagikkur! Urraði ég í gremju og ergelsi. Að hann skuli voga sér að gleðjast yfir lánleysi mínu. Ég skal sýna honum.

Þess vegna ætla ég að kaupa mér pípuhatt (eitt helsta merki velmegunar ásamt einglyrni og glæsibringu). Og þegar við mætumst næst, ætla ég að slá hann með þumalputtabreiða prikinu mínu (eins og ríkir menn gera við fátæka). Já! Það mun sýna honum!