föstudagur

Letterman og Leno mætast árið 1985


Áhugavert spjall

fimmtudagur


Jólapredikun biskups

Biskupinn sagði í jólapredikun sinni, að Jesúbarninu vanti hæli í heimi okkar. Þegar ég heyri eitthvað í líkingu við þetta, fæ ég einhvers konar óþolsviðbrögð í húðina. Eins og um ofnæmi sé að ræða.

Mig langar til að spyrja biskupinn: Hvað þýðir þetta eiginlega?

Jú - auðvitað veit ég hvað hann á við. Hann notar Jesúbarnið sem persónugerving sakleysis; ef allir temdu sér einlægni þess og fordómaleysi, væri heimurinn líklega betri staður. Gott og vel.

Það sem fer hins vegar öfugt í mig, er nálgun biskupsins á viðfangsefnið. Boðskap
urinn er ágætur, en hann týnist hálfpartinn í þeim búningi sem biskupinn sníðir honum. Missir marks. Það fyrsta sem ég hugsaði, þegar ég heyrði þetta: Hvað er hann að fjasa þetta um Jesúbarnið?

En jæja. Þetta truflar mig ekki mikið. Mér fannst þessi samlíking bara eitthvað svo m
áttlaus. Og myndin, barn vantar hæli, fékk mig til þess að hugsa um munaðarleysingjahæli í Bretlandi á tíma iðnbyltingarinnar. Líklega vegna Óliver Twist. En það er annað mál.

En að öðru. Ég gekk meðfram Tjörninni um daginn og tók þá þessa mynd:

Vondir svanir

Einhverra hluta vegna, fékk ég það óþægilega á tilfinninguna að þessir svanir væru vondir. Veit samt ekki af hverju. Hefur kannski eitthvað að gera með augun..? Skal ekki segja.

þriðjudagur


Klúður

Algjört klúður. Í ár ætlaði ég að senda öllum sem ég þekki jólakort, en það klikkaði. Ég byrjaði á A, en komst bara upp í G, og munu því allir sem heita Gunnar eða meira ekki fá neina jólakveðju. Ég er bara of seinn.

Ég hefði svosem getað skrifað eitt bréf og sent á alla. En, æ... Það er bara svo lítill stíll yfir því.

Algjört klúður. En, jæja. Það verður ekki á allt kosið. Næsta ár byrja ég á Ö og vinn mig niður.

föstudagur


Hleranir Jóns Baldvins

Nú veit ég ekki hvar ég á að byrja. Hmm... málið er, að einhverra hluta vegna, hef ég það á tilfinningunni að Jón Balvin sé að hlera símann minn.

Nei. Byrjum aftur.

Rannsókn á hlerunarmálinu er lokið. Kom í ljós, að enginn fótur reyndist vera fyrir ásökunum Jóns Baldvins. Þetta var bara bull í honum. Og maður spyr sig: Er það ekki allt í lagi? Mönnum getur nú skjátlast.

En Jón Balvin lítur ekki á málið þannig. Honum skjátlaðist ekki. Þið skiljið, síminn hans var hleraður. Í alvöru. Það er náttúrulega ekkert að marka svona lögreglurannsóknir. Þegar menn hafa skrifað undir trúnaðaryfirlýsingar við fyrirtækin sín, þá játa menn ekkert í yfirheyrslum. Ekkert! Jafnvel þó að þeir séu eiðsvarnir.

Og pólitíkusarnir. Þeir eru náttúrulega allir á móti honum. Þetta er eitt stórt samsæri, innmúraðra og illa þokkaðra Sjálfstæðismanna. Þeir munu aldrei játa brot sín.

En... kommon! Johnny.. Kommooon! Ég veit að þú lest síðuna mína. Af hverju viðurkennirðu ekki bara, að þér varð á í messunni. Það er allt í lagi. Annað er bara þverhausaháttur. Þú veist það. Þetta er líka svo barnalegt. Obbobo bobb.

Og hvað varð um leynidyrnar? Ég er að tala um þær sem eru í Utanríkisráðuneytinu, og enginn þorir að tala um. Ég var eiginlega spenntastur fyrir þeim. Ég vil að þær verði opnaðar..

En, jæja. Þetta er kannski rétt hjá honum. Kannski vildu heimildarmenn JBH ekki rjúfa trúnaðinn við fyrirtæki sín. Og kannski eru óþokkarnir í Sjálfstæðisflokknum með samsæri gegn honum. Og kannski er hlerunarmiðstöð Jóns Baldvins í leyniherberginu í Utanríkisráðuneytinu. Það gæti verið. Kannski...

p.s.
Viðbrögð Johnnys við dómsúrskurðinum,
má finna í Kastljósi í gær. Hann er mjög yfirvegaður og er búinn að hugsa þetta mál vel.

fimmtudagur


Skemmtileg mynd

Einn brýtur heilann, annar segir frá og þriðji
lúrir í myrkrinu (klikka á mynd til að stækka).

þriðjudagur


Bráðum koma blessuð jólin - en hvað á að gefa í jólagjöf?

Þegar ég var tólf ára fékk ég blaðapressu í jólagjöf frá frænku minni. Hvað átti ég að gera við hana? Pressa blöð? Ári seinna fékk ég líffræðibók frá frænda mínum. Og hvað? Átti ég semsagt núna að fara að lesa um líkamann? Frábært. Svona hefur þetta gengið, ár eftir ár. Fólk virðist bara kaupa eitthvað.

Þannig er þetta líka með mig. Fyrir það fyrsta, finnst mér leiðinlegt að kaupa inn. Það er svo erfitt. Hvað þá að velja eitthvað fyrir aðra. Það er jafnvel enn erfiðara. Ég reyni yfirleitt að draga þetta eins lengi og ég get. Fer helst ekki úr húsi fyrr en á Þorláksmessu.

Og hvernig á ég að vita hvað aðrir vilja fá? Hvernig gæti ég vitað það? - Jú, ég gæti spurt. En það má ekki. Þá myndi fólkið vita hvað það fengi í jólagjöf frá mér. Nei. Ég verð að giska. - Og þannig er það með alla aðra. Enginn veit neitt.

En þannig er það ekki í ár. Í ár, er ég búinn að finna fullkomna gjöf, sem passar við öll tækifæri. Góð fyrir hvítvoðunga, sem eiga allt lífið framundan. Unglinga, sem eiga erfitt með að finna sig í lífinu. Og fullorðið fólk, sem ekkert þráir heitar en andlega næringu.


Ég er að tala um bókina, sem allir eru að tala um: Æviminningar Jóhannesar Zoëga.

Jólabókin í ár: Æviminningar Jóhannesar Zoëga

Nú veit ég ekki hvernig það kom til, að ég byrjaði að lesa þessa bók. En hún rak á fjörur mínar, og hefur legið á náttborðinu síðan þá. Ég er búinn að lesa hana tíu sinnum síðan hún kom út, ef ekki oftar. Og mér segir svo hugur, að það muni einnig gilda um skjólstæðinga ykkar.

Þessi ágæta bók fæst í Máli og Menningu á Laugarveginum. Hún kostar ekki mikið og er hin fullkomna gjöf. Afar og ömmur, munu hrópa hallelúja. Eins með pabba og mömmur. Í heilagri leiðslu, munu þau kalla nafn Drottins og þakka honum fyrir kraftaverk á jólum.

Pólitísk rétthugsun

Hér var ég búinn að skrifa langan og beiskan reiðilestur um fólk sem er ,,politically correct". En, svo, var hann eitthvað svo bitur, þannig að ég gat eiginlega ekki birt hann. Fæ að eiga hann inni.

mánudagur


Hryllingssaga og karókí

Sagan af Gadda-Kjamma

Þú skalt hafa á þér gát og alls ekki fara að skæla! Þú mátt ekki vera súr í bragði - ég skal segja hvers vegna: Gadda-Kjammi er á leiðinni í bæinn!

Hann er að útbúa lista, sem hann stemmir af, til að fá úr því skorið, hverjir hafa verið óþekkir og þægir. Gadda-Kjammi er á leiðinni í bæinn!

Hann horfir á þig, á meðan þú sefur. Hann veit hvenær þú vakir. Hann þekkir hegðan þína – þannig að, svo hjálpi oss Guð, reyndu að sýna stilli!

Þannig að... Gættu að þér! Og fyrir alla muni, ekki gráta! Og ekki sýta - ég vara þig við: Gadda-Kjammi er á leiðinni í bæinn.

Hann er með lítil tin-horn og leikfangatrommu. Rúdý-tút-túúú og rummý tum tumm! Gadda-Kjammi er á leiðinni í bæinn!

Gadda-Kjammi er á leiðinni í bæinn

Þetta hljómar alveg hræðilega. Og ekki batnar það, þegar kemur í ljós, að Gadda-Kjammi er sérlundaður gamlingi, sem býr fjarri mannabyggðum. Nánar tiltekið í köldum og drungalegum helli úti á landi. Hann á enga vini. Og hann hlær móðursýkislega í tíma og ótíma, en þá aðeins þegar hann er búinn að skrýðast furðufötunum sínum, sem enginn maður á byggðu bóli gæti hugsað sér að klæðast.

Gadda-Kjammi gæti verið voðalegt ómenni eða draugur í þjóðsögum Jóns Árnasonar, en það er hann reyndar ekki. Hann kemur fyrir í laginu: Gadda-Kjammi kemur í kvöld. (Eða Santa Claus Is Coming To Town, eins og það heitir á frummálinu).

Textinn hér að ofan, er tekinn beint úr þessu hræðilega lagi, um gamlan karl, sem njósnar um lítil börn, fullur af sorugum hugsunum. Svona lítur hann út á frummálinu (lítillega stytt útgáfa):

Santa Claus Is Coming To Town

Oh! You better watch out,
You better not cry,
You better not pout,
I'm telling you why:

Santa Claus is coming to town!


He's making a list,
He's checking it twice,
He's gonna find out
who's naughty or nice.


Santa Claus is coming to town!


He sees you when you're sleeping,
He knows when you're awake.
He knows when you've been bad or good,
So be good for goodness sake!


So...You better watch out,
You better not cry
You better not pout,
I'm telling you why.


Santa Claus is coming to town.


Little tin horns,
Little toy drums.
Rudy-toot-toot
and rummy tum tums.


Santa Claus is coming to town.

Siggi frændi benti á ágætt efni á Youtube. Þar fjallar Kastljós, árið 1992, um karókí: ,,Karókí er undratæki, sem gefur almúgamanninum færi á að vera stjarna í eina kvöldstund."



Spurning: Ertu hamingjusamlega giftur? Svar: Bæði já og

nei. Maður hefur ekki séð konuna sína í heilan mánuð...

fimmtudagur


Gamall spjallþáttur

Á mánudaginn síðasta var sýnd sjónvarpsupptaka frá árinu 1984, þar sem hagfræðingurinn Milton Friedman ræðir kenningar sínar við þrjá Íslendinga. Einn þeirra er okkar virti og ástkæri forseti, herra Ólafur Ragnar Grímsson. Mikið hefur verið talað um þennan þátt undanfarna daga, og langar mig að leggja orð í belg.

Ég ætlaði ekki að nálgast þáttinn efnislega, heldur rýna í þá tvo menn sem voru mest áberandi.

Friedman kom vel fyrir. Hann hafði sitt á hreinu og svaraði öllum spurningum af sannfæringu. Stundum átti hann þó erfitt með að skilja spurninguna - en það skrifast á annan en hann, þar sem spurningarnar voru oftar en ekki óljósar. Hann sér heiminn augljóslega í svörtu og hvítu. Svoldið eins og ég ímynda mér að Pétur Blöndal geri. Og þannig myndi ég sjálfur vilja sjá hann. En það er annað mál.

Ólafur, hins vegar, kom ekki vel fyrir. Hann virtist öruggur með sig, en það kom oft á tíðum út sem hroki. Hann var líka vígdjarfur, en það kom stundum út sem dónaskapur. Hann stundaði list málaflækjumannsins: Oft lagði hann viðmælanda sínum orð í munn, og lagði síðan út af þeim orðum. Oft greip hann fram í, en kvartaði síðan yfir því að hann fengi ekki að klára sjálfur. Spurningarnar voru margar hverjar óljósar, og þegar Friedman reyndi að klóra sig fram úr þeim, reyndi Ólafur oft breyta þungapunkti spurningarinnar, og lét í það skína að Friedman væri að snúa út úr og forðast aðalspurninguna.


Ég hugsaði: Hvílíkur skaufi! En svo áttaði ég mig á því, að þannig má maður ekki hugsa mann sem nú er forseti Íslands. Þannig að, til syndakvittunar, fór ég með íslenska þjóðsönginn í huganum. Svo prófaði ég að fara með hann aftur á bak, og komst að því að þá inniheldur hann línuna „Paul is dead". Það er nokkuð merkilegt.

Niðurstaða mín var, eins og oft áður: Ég botna ekki í þessum manni. Hann er ekki nógu skýr. Hefur hann einhverja stefnu? Erfitt að segja. Friedman, maður sem hefur tamið sér skýra hugsun, átti mjög oft erfitt með Ólaf.

Ég held stundum, að Ólafur botni illa í sjálfum sér. Hann þekkir tilfinninguna sem brennur í brjósti sér, en skilur hana ekki. Samt byggir hann mál sitt á þessari sterku, óskilgreindu tilfinningu. Það er hans stefna. Að elta þessa óljósu tilfinningu. Til dæmis, er augljóst að hann langaði til að sjá Friedman lúta í duftið fyrir sér (og helst með sem mestri niðurlægingu) og réri að því öllum árum. Það var hans stefna.

Enn kemur í ljós náðargáfa hans: Hann er meistari í málaflækju og flúrmælgi, og felur þannig lélegan málflutning. Ég hef oft talað um þetta áður hér á þessari síðu.

En, jæja. Jæja, já. Þetta er orðið gott. Mig langar bara að taka það fram einhver staðar, að auðvitað eru þetta ekkert nema vangaveltur. Ekkert nema aumar vangaveltur.

miðvikudagur



Obelix-buxur

Eru buxurnar hans Obelix að komast í tísku? Nú er ég búinn að sjá þrjár stelpur, sem virðast yfirleitt vera með puttann á púlsinum þegar tíska er annars vegar, ganga um í Obelix-buxum. Buxurnar liggja eins og sekkur utan um gumpinn og er lokað með belti, rétt fyrir ofan nafla. Mér finnst þetta ekki alveg nógu flott. En hvað veit ég svosem um tísku?

Svo eru náttúrulega chihuahua hundar búnir að vera í tísku nokkuð lengi. Allar smart stelpur trítla um með rottuhund sér við hlið. Rétt eins og Obelix. Hann átti lítinn hund.

Nú spyr ég: Er Obelix-lúkkið að komast í tísku hjá stelpum?

Obelix og með litla chihuahua hundinn sinn

Ég kaupi það ekki alveg. En sjáum til. Kannski smellur þetta þegar þær byrja að halda á bautasteinum.

þriðjudagur


Vélstýran

Strákur einn var að segja frá síðunni:
http://velstyran.blogspot.com/. Hann sagði, að ef maður vildi lesa eitthvað fyndið, ætti maður að fara þangað. Það gerði ég.

Þetta er síða Önnu Kristjánsdóttur, vélstýru. Ég verð að segja, að mér fannst síðan eiginlega ekkert fyndin. Mér fannst hún áhugaverð. Anna virðist vera ágætlega máli farin og fróð um ýmislegt. Síðasti pistill hennar, 12. desember, er um landhelgismál Íslendinga og hvernig það hefur gefist í gegn um tíðina að láta Dani um varnir landsins. Hefur nánast sömu skoðun og ég þar. Gott mál. Ég ætla að gefa þessari síðu séns.

Annars mikið að gerast í fréttunum: Pinochet látinn. Ísraelar eiga kjarnorkuvopn. Gröf Páls postula fundin. Kofi Annan gagrýnir Bandaríkjamenn. Og njósnaramálið, að sjálfsögðu.

mánudagur


Njósnarar

Ég er byrjaður að fylgjast grannt með rússneska njónamálinu (geisla-eitruninni). Þetta er eins og í skáldsögu.

Fyrst leit ég framhjá samsæriskenningunum, að rússnesk stjórnvöld stæðu á bakvið morðið. En þegar þau lýstu því yfir, að þau ætluðu sjálf að hefja rannsókn á málinu, byrjaði það að vera spennandi.

Af hverju ættu Rússar að rannsaka þetta mál? Þetta er breskt morðmál. Rússum ætti að vera alveg sama. Nema náttúrulega, að eitthvað hafi ýtt við þeim. Og það er mín ágiskun, að það hafi verið uggurinn við að hið sanna kæmi í ljós.

Hmm... Hér ætlaði ég að koma hér með glæsilega sveigju og beina skrifunum að öðrum njósnara, breska njósnaranum James Bond, en nenni því eiginlega ekki. Ætla í háttinn.

laugardagur


Ljótur stafur


Rithönd mín hefur aldrei verið neitt sérstaklega góð; er dæmigerður strákur í þeim efnum. Um da
ginn var ég eitthvað að pára niður, þegar ég áttaði mig skyndilega á því, að eitt æ-ið var alveg einstaklega ljótt. Það var eiginlega bara vandræðalega ljótt.

Eftir því sem ég horfði meira á æ-ið, fylltist ég þeirri vissu, að líklega hefði ég aldrei skrifað jafnljótt „æ“ á ævinni. Svo ljótt var það, að ég fann mig knúinn til þess að taka af því mynd:

Ljótasta æ-ið fest á filmu

Hvað ætli ég hafi skrifað mörg
„æ“ um tíðina? Örugglega hundraðþúsund. Og hér er komið það ljótasta. Felst þó einhver huggun í því, að öll hin æ-in hafi verið fallegri.

En hvað með hinn endann? Hvað með fallegasta æ-ið? Einhvern tímann rak ég augun í eitt
„a“ sem ég hafði skrifað, og ég man að ég hugsaði: Þetta hlýtur að vera fallegasta a-ið sem ég hef ritað. Sama hefur gerst með stóra joð. Um leið og ég var búinn að skrifa það, tók ég nokkra andadrátta pásu til að virða þennan fallega staf fyrir mér. Virtist fullkominn. - En þá var ég því miður ekki kominn með svona fínan myndavélarsíma, og gat því ekki fest dýrðina á filmu.

föstudagur


Bush og Rumsfeld


Alltaf sér maður þessar myndir af Bush í blöðunum, þar sem prófíll hans er sýndur skyggja á andlit einhvers annars - sem oftar en ekki er að horfa á Bush. Dæmi í gær:
Bush og Blair.

Það er eins og að ljósmyndurum þyki þetta alveg sérstaklega flott. Tvö andlit, renna saman í eitt.

Nú tek ég Rumsfeld sem dæmi. Hann var alltaf að horfa á Bush. Og alltaf með sama svipinn á andlitinu. Nokkur dæmi:



Nei, mig langaði bara til þess að benda á þetta. Helmingur allra mynda úr Hvíta húsinu er svona. Hliðarsvipur Bush með andlit einhvers annars í bakgrunni, sem fylgist með oftast nær íhugull og fullur aðdáunar. Takið eftir þessu.

miðvikudagur


Serge Gainsbourg: Lemon Incest

Serge er þekktastur fyrir lagasmíðar sínar, en ekki síður fyrir ástarmálin. Mörg lögin höfðu svo kynferðislegan tón, að þau voru bönnuð í útvarpi. Fólki hreinlega ofbauð þau.

Hér fyrir neðan syngur hann (erótískan?) dúet með dóttur sinni, og í textanum kemur m.a. eftirfarandi setning: Sú ást, sem við aldrei fáum saman notið, er sú fallegasta, ofbeldisfyllsta, tærasta og mest spennandi.



Forboðin ást

Allir alvöru listamenn hafa enga siðferðiskennd, eða kjósa öllu heldur að líta framhjá henni. Til hvers ættu þeir að fara að siðferðislögmálunum? Þau gera ekkert nema setja þeim mörk. Án siðferðis, hafa þeir meira rými til þess að tjá list sína. Eins og Serge.

Eitt og annað: Stríð, Pravda, bros og Extras


Kofi Annan lætur í það skína, að ástandinu í Írak verði ekki lýst öðruvísi en sem borgarastríði. Hann þorði þó ekki að segja það beinum orðum.

Í kjölfarið fór ég að hugsa um muninn á Bandaríkjamönnum og Saddam. Er hann svo mikill? Saddam notaði hersveitir sínar til þess að berja á uppreisnarmönnum. Bandaríkjamenn gera það líka. Við þeim blasir sama vandamálið. Og þeir tækla það nákvæmlega eins.

Munurinn felst hins vegar í framsetningu. Áróðursvélar Bandaríkjamanna hafa kennt okkur, að Saddam hafi verið að berja á ,,eigin fólki". Sömu vélar segja að Bandaríkjamenn séu að berjast við vonda hryðjuverkamenn. Æ, ég skal ekki segja. Eru þetta ekki sömu aðilarnir: Uppreisnarmenn í Írak. Og ef svo er, eru þá Bandaríkjamenn nokkru skárri en harðstjórinn Saddam?

Svo er alltaf talað um efnavopnaárás Saddams á Kúrda á 9. áratugnum. Ég tek það fram, að ég er ekki á neinn hátt að verja hana. Hins vegar langaði mig til að benda á að þessar árásir eru ekki einsdæmi í nútímasögu. Til dæmis hafa Rússar gengið ansi hart í að berja niður uppreisnarmenn í Téténíu, taka má dæmi um
fjöldamorð Ísreala á Líbönum 1982, djöfulgangur Bandaríkjamanna í Víetnam og Kambódíu og svo má eflaust finna fleiri dæmi.

Í sýndarréttarhöldunum [1] yfir Saddam Hussein, er yfirleitt talað um efnavopnaárásina. Svipuð réttarhöld væri hægt að halda yfir öðrum þjóðarleiðtogum. Til dæmis Ariel Sharon [2].

Jæja. Ég ætlaði ekki að mala út í eitt um stríðið. Langaði bara að draga fram þennan punkt.

Fyrr í dag talaði ég við einn vin minn um stemninguna á Pravda. Hann hafði upplifað staðinn eins og ég, og sagði: Fólkið þarna er bara eitthvað svo skrítið. - Sem er akkúrat kjarni málsins. Þetta er mjög dúbíus.

Í dag var líka brosað svo fallega til mín. Ég var ánægður með það, og ætlaði að brosa á móti, en beit í tunguna þannig að útkoman var frekar ólystileg andlitsgeifla. Það var ekki alveg nógu gott. Hmm...

Jæja. Að lokum ætla ég að koma að Extras linkum sem ég fann. Horfi á það við tækifæri.

Update: Linkarnir virka ekki, nema s2.e2 og s2.e5. En síða þessi er ágæt, guba.com, og þar er ritskoðun ekki orðin dóminerandi eins og á öðrum vídjó-netsíðum.

#1 Sería:

1. Episode 1
2. Episode 2
3. Episode 3
4. Episode 4
5. Episode 5
6. Episode 6

#2 Sería:

1. Episode 1
2. Episode 2
3. Episode 3
4. Episode 4
5. Episode 5



[1]
Já, þetta er náttúrulega ekkert nema skrípaleikur.

[2]
Hvernig er það, er Sharon enn á lífi? Maður hefur ekki heyrt af honum svo lengi.

mánudagur


George Clooney og nakinn kvalarlosti

Fyrst langaði mig til að benda á
grein á mbl.is um George Clooney, þar sem enn og aftur er talað er um hvað hann er mikill grallaraspói. Hann lét það út úr sér, að gælu-svínið hans var að deyja. Pælið í því. Gælu-svínið. Svínið!! Hvílíkur grallari!

Hvílíkt fífl.


Önnur grein í Mogganum er um bandarískan hermann, sem dæmdur var, af fillipseyskum dómstól, í 40 ára fangelsi fyrir nauðgun. Mogginn segir, að í dómsorðunum hafi komið fram, að hermaðurinn hafi orðið uppvís af ,,nöktum kvalalosta".

Nakinn kvalalosti? Hvað þýðir það? Og hvernig verður maður uppvís af kvalalosta? Ég skil það ekki. Getur maður farið í fangelsi fyrir það?

Átti dómarinn ekki að orða þetta öðruvísi. Kannski svona: Hermaðurinn varð uppvís af því, að hafa nauðgað konunni. Hann var haldinn kvalalosta. Nöktum kvalalosta.

Það er alveg fáránlegt, að dómsorðin skulu vera kveðin með svo skáldlegum blæ. Dómarnir eiga að vera eins ótvíræðir og mögulegt er. Á Íslandi gerast sakborningarnir yfirleitt uppvísir af stórfelldu gáleysi, eða sýndu einbeittan brotavilja. Þetta verðu ekki skýrara.

Fillipseyingarnir hefðu líklega talað um nakið gáleysi og nakinn brotavilja.

Pravda

Ég kíkti á skemmtistaðinn Pravda á laugardaginn. Í dyrunum voru fimm verðir, þreknir mjög og sverir. Um það leyti voru þeir að neita manni inngöngu, vegna þess að hann uppfyllti ekki kröfur Pravda varðandi klæðaburð. Ég, hins vegar, flaug inn, þrátt fyrir að hafa farið í bæinn í júdógallanum mínum.

Inni benti vinur minn á strák, sem var að reyna að ganga í augun á stelpu með því að spenna vöðvana. Þetta var fáránlegt, eins og í teiknimynd. En, jæja. Ég held upp á aðra hæð og labba hringinn. Það sem vakti athygli mína, var mikill fjöldi dyravarða og vaxtarlag þeirra. Þeir litu allir út eins og litlir jötnar. Eða naut.


Og þá er það spurningin? Af hverju þurfa þeir svona mikið af dyravörðum? Ætli fólk sé meira að slást þarna en annars staðar? Einhver gæti ályktað svo.

Andrúmsloftið var vægast sagt rafmagnað. Allir virtust ofurmeðvitaðir, samt virtist enginn sjá mig. Tónlistin var há og taktföst. Svona danstónlist. Fólkið var undarlegt: Stelpurnar voru plastkenndar og strákarnir í alltof þröngum bol. Sannkallaðar turður og tarfar.

Þetta er í fyrsta skiptið sem ég hef upplifað það sterkt, að ölvun á skemmtistað væri lítil sem engin. Enginn virtist hafa áhuga á bjór. Æ, nú ætla ég ekki að segja of mikið. Maður verður að hafa vaðið fyrir neðan sig. - En eigum við ekki bara að orða það þannig, að mig grunaði marga um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.

Eftir nokkrar mínútur fór ég út. Ég held að í framtíðinni haldi ég mig austan Lækjargötu. Það er vafasamt að blanda geði við fólk sem getur rakið ættir sínar til nautgripa.