fimmtudagur

Fréttir

Samband íslenskra auglýsenda (SÍA) segir það vera andstætt hagsmunum íslenskra neytenda, ef RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði. Það segir m.a. ,,að það hljóti að teljast sjálfsagt, að neytendur eigi kost á sem breiðustu upplýsingamagni í þeim miðli sem þeir nota".

Þannig að SÍA er að vernda réttindi íslenskra neytenda - neytendur eiga rétt á auglýsingunum, og það væri slæmt mál ef RÚV færi nú að taka þessi sjálfsögðu réttindi neytenda frá þeim.

SÍA, málsvari íslenskra neytenda, er greinilega með báða fætur á jörðinni þegar
ályktanir eru annars vegar.

Fleiri fréttir af Mbl.is:
Eyþór Arnalds gefur 2. flokki kvenna, hjá Umf. Selfoss, höfundarréttinn af laginu Nú er dagurinn. Enn og aftur spyr ég: Er gæsku þessa öðlings og góðmennsku engin takmörk sett?

Eyþór og 2. flokkur kvenna á Selfossi, handsala samkomulagið í kross.

Mér datt í hug brandari, þegar ég las frétt um Steven Hawkins: Hver er munurinn á Steven Hawkin og Kobe Bryant? Svar: Steven Hawkin er í hjólastól. Hahahaha...!



Balli Allaballi

Ég held að hlerunarmálið sé að snúast í höndunum á Jóni Balvin.

Ég er með kenningu: Hleranirnar voru aldrei neitt nema grunur hjá honum. Svo, óvart, viðrar þessar vangaveltur sínar í viðtali og boltinn rúllar af stað. Hann ætlaði sér aldrei að gera þær opinberar, en þarf skyndilega að finna einhver rök máli sínu til stuðnings. Ef hann gerir það ekki, er hann bara bullari. Og ekki vill hann það.

Fyrst vísar hann í einhvern rafvirkja - sem hefur ekki komið fram á sjónarsviðið til að staðfesta frásögn JBH. Svo fékk hann símtal frá manni sem staðfesti frásögn hans - en hann vildi samt ekki koma fram opinberlega. Þannig að, enn sem komið er, hefur Johnny ekkert í höndunum sem sannar ,,gruninn".

Einhvern veginn beindist grunurinn strax að óþokkunum í Sjálfstæðisflokknum, enda voru þeir í forsvari fyrir ríkisstjórn sem beitti hlerunum óspart á æsingamenn sósíalista. Að frumkvæði sjálfstæðismanna, voru aðdróttanirnar settar í rannsókn og er hún enn í gangi.

Svo skyndilega er komið annað hljóð í kútinn. Í undarlegu viðtali í Fréttablaðinu í dag, talar Balli um að Bandaríkjamenn séu vondi gæinn. Þeir vildu hlera hann, vegna þess að verið var að endurskoða varnarsamninginn við Bandaríkjamenn. Þeir voru semsagt að hlera Jón.

Í viðtalinu er sagt frá ,,leyniherberginu" í Utanríkisráðuneytinu, sem virðist vera hjúpað álíka mikilli dulúð og leynidyrnar að Narníu. Í þessu herbergi höfðu Bandaríkjamenn e.t.v. aðstöðu til að hlera síma.

Ég held að þessi viðsnúningur til Bandaríkjanna, sé bara örvæntingarfull tilraun JBH til þess að halda sér á floti. Hann er greinilega sokkinn með Sjálfstæðisflokkinn, en freistar samt þess að halda baráttunni áfram. Baráttunni að sanna ,,gruninn", sem hann óvart gaspraði út úr sér í einhverju hugsanaleysi. Hann er ekki öfundsverður þessa dagana.

Ég sting upp á því, að þessar leynidyr verði opnaðar. Og hvað þá? Fullbúin hlerunarmiðstöð Bandaríkjamanna? Narnía? Tilraunir á mönnum? Eða kannski bara skjalageymsla? Ég bíð spenntur.

miðvikudagur


Moldvörpufólkið

Já, það er della að vakna klukkan 7:10. Þegar maður vaknar er myrkur. Svo hírist maður í drungalegri kytru, djúpt í jörðinni, í átta klukkutíma [1]. Og loks er aftur komið myrkur þegar vinnan er búin. Þetta meikar bara engan sans.

Uppruna 8:00 - 16:00 vinnutímans má líklega rekja til fornaldar. Þá voru allir bændur, og þurftu að dýrka jörð sína á meðan sólin skein. Og þegar myrkrið kom, fóru þeir bara inn.

Málið er, að þessar forsendur hafa breyst. Það er enginn bóndi í dag (nema, kannski, bændur). Ég held að við þurfum að hugsa dæmið upp á nýtt. Hvernig væri, að vakna klukkann 4:00 og vinna til 12:00? Restin af deginum væri bara björt og þægileg.

Þetta þyrfti heldur ekki að vera svona flókið. Stjórnvöld myndu bara ákveða að flýta klukkunni, rétt eins og gengur og gerist annars staðar. Þá væri þetta bara kallað: Vetrartími.

Planið væri þá svona:
-1 í september
-1 í október
-1 í nóvember
-1 í desember.
Og svo öfugt...

Þetta er ekki svo galið.


Að öðru: Mér áskotnaðist nýr sími [2], sem er nokkuð flottur. Hann tekur vídjómyndir í ágætum gæðum. Ég var að hugsa um að nýta mér það. Hér kemur prufu-myndband, að sjálfsögðu hlaðið upp á youtube:


Klóa finnst kókómjólkin best ísköld.


[1]
Fyrir þá sem ekki vita, er ég byrjaður í námuvinnu.

[2]
Í verkfræðinni var stelpa sem skrifaði sými. Þegar einhver benti henni á þetta, þráttaði hún fyrir að þetta væri hluti af brjóstvitinu. ,,Fólk getur alveg ruglað þessu orði," sagði hún. Kommooon. Það er hellingur af i/y ruglingi í gangi, en þetta er svo sannarlega ekki einn af þeim.

þriðjudagur


Della er þetta að vakna klukkan 7:10 á morgnana.

sunnudagur


Ég ætlaði að taka fyrir Framsóknarflokkinn í dag, en nenni því eiginlega ekki. Geymi það þangað til seinna.

Í Mogganum las ég að Berlusconi væri orðinn sjötugur. Hann virðist vera yngri; ég hefði skotið á að hann væri ~55 ára. Myndbandið hér að neðan sýnir Berlusconi bregða á leik við stöðumælavörð. Hann kann að grína.


Takið eftir stellingunni. Hver gerir svona?

Í gær talaði ég við Færeying. Hann sagði frá því, að í gamla daga voru menn teknir af lífi í Færeyjum með því að binda þá við einn áveðinn stein. Mig minnir að steinninn hafi verið kallaðu Spíss, og ber vafalaust nafn með rentu. Þegar búið var að festa afbrotamennina voru þeir látnir afskiptalausir. Svo dóu þeir úr kulda eða sulti.

Það sem mér finnst merkilegast við þennan stein, er að hann sé ennþá til. Pyntingartól, sem notað var fyrir 1.000 árum, liggur nú fyrir framan skrifstofu Lögmanns Færeyja.

Ég var eitthvað að velta því fyrir mér, hve mörg orðtök eða málshættir vísa í beljur og dró fram orðtakabók. Orðtökin voru ekki jafnmörg og ég hafði haldið, og ekki sniðug. Eitt var samt ágætt: Það er meira blóð í kúnni. Þýðir, að málinu sé ekki lokið; enn sé e-ð hægt að vinna. Þarf einhvern tímann að skjóta þessu inn við tækifæri.

Ég lagði frá mér bókina, en hugsaði svo með mér, að kannski væri meira blóð í kúnni, þannig að ég opnaði hana aftur [1]. Aftast er listi yfir málshætti. Einn fannst mér ömurlegur:
Enginn veit hver eyðni ber, ávallt hafðu gát á þér.
Þó að orð í setningu rími, verða þau ekki sjálfkrafa að málshætti. Kannski fleyg orð eða heilræði í besta falli. Ekki málsháttur.

[1]
Já, ég skal viðurkenna að þetta var frekar leim tilraun.

laugardagur


Fjör í Framsókn

Ágætt hjá Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, að
viðurkenna á svo afdráttarlausan hátt, á miðstjórnarfundinum, að um mistök hafi verið að ræða þegar Íraksstríðið var stutt. Davíð og Halldór mættu taka sér það til eftirbreytni.

Jón segir reyndar, að listi hinna staðföstu þjóða hafi verið einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar. Hvað á hann við? Jú, ég veit hvað þetta þýðir. Ég kann að lesa. Það sem ég er að velta fyrir mér, er undirliggjandi boðskap þessarar staðhæfingar.

Mér virðist Jón, með þessari fullyrðingu, reyna að gera lítið úr þætti íslenskra stjórnvalda í þessum lista. Það er rétt hjá honum, að bandarísk stjórnvöld áttu frumkvæðið að lista hinna staðföstu þjóða. Og þetta var þeirra einhliða framsetning. Gott og vel. - En Íslendingar bera samt ábyrgð, sem þeir mega ekki skjóta sér undan. Stjórnvöld samþykktu að Bandaríkjastjórn skrifaði nafn Íslands á listann. Það var þeirra ákvörðun. Svo einfalt er það.

Þessi ræða Jóns virðist vera ágæt. Yfirlýsingarnar skýrar og ekkert nema gott um það að segja. Ef það er eitthvað sem hægt vær að setja út á, er það ný skilgreining hans á félagshyggju Framsóknar. Hann byrjar á að viðra mjög sósíalískar hugmyndir, en svo er eins og hann skammist sín fyrir það og talar um ,,að félagshyggja framsóknarmanna sé hluti af sögu, baráttu og endurreisn íslensku þjóðarinnar. Með öðru orði þjóðhyggja." - Nei, Nonni! Með öðrum orðum sósíalískt hugarfar.

Jæja. Þetta átti ekki að vera lofræða um Framsóknarflokkinn. Verð að jafna þetta eitthvað út. Rifja upp kosningaloforð þeirra á morgun.

fimmtudagur


Hvert fóru allir krakkarnir?

Hvað varð um litla krakka sem kasta snjóboltum í bíla? Þegar ég var lítill, var þetta aðalsportið. Allt hverfið hittist upp á Vatnshól við Háteigsveg og beið eftir næsta bíl, og svo hófst skothríðin.

Ég er með nokkrar kenningar:
  1. Krakkar í dag eru feitari en þau voru. Þar af leiðir, að þau hlaupa ekkert sérstaklega hratt. Þess vegna gætu þau aldrei flúið, ef einhver reiður bílstjóri tæki upp á því að hlaupa á eftir þeim.
  2. Krakkarnir fá sama kikk út úr tölvuleikjum. Hvers vegna að fara út í kuldann?
  3. Það er bara ekkert búið að snjóa síðustu ár, því er einfaldlega ekki hægt að búa til snjóbolta.
  4. Sudoku-krossgátur og snöff-myndir urðu vinsælar um svipað leyti og snjóboltakast missti flugið. Getur verið að þær hafi komið í stað snjóboltakastsins? Gæti verið.
Jæja. Ég ætla veðja á #2 og #3. Reyndar gæti blanda af #1 og #4 verið málið, því oftar en ekki sér maður óþægilega feit börn leysa Sudokur (eða horfa á snöff-myndir). En ég legg samt peningana mína á tvö og þrjú.

miðvikudagur


Er eitthvað eitt íslenskara en annað? Ég bjó til lista:

5. Egill Skallagrímssson og Skarphéðinn Njálsson.
4. Ýmis matur: Harðfiskur, flatkökur og skyr.
3. Sauðkindin
2. Íslendingasögurnar
1. Þingvellir

En ef bara ætti að miða við síðustu 200 ár?

Mesti Íslendingurinn hefur vafalaust verið Einar Ben, með Hannes Hafstein á hælunum. Af nútímamönnum mætti nefna Megas. Persónulega myndi ég vilja setja Þórberg Þórðarson á þennan lista - en á móti kemur að hann vildi helst ekki líta á sjálfan sig sem Íslending; sagðist vera svo mikil alþjóðasál, sem gerir hann eiginlega ótækan á listann. Halldór Laxness og Jón Sigurðsson koma seinna. Eru líklega í sætum 10 - 15. Þyrfti að tína til nokkra góða áður en þeir detta inn.

Mér finnst Austurvöllum og Alþingishúsið mjög íslensk. Hlemmur er það líka, en samt í gagnstæða átt við Alþingishúsið. Hlemmur er hálfgerð miðstöð íslenska smælingjans.

Íslenskasta konan? Ekki Björk. Og helst ekki Vigdís Finnbogadóttir. Ætli Hallgerður langbrók tróni ekki á toppinum yfir íslenskustu konurnar. Annars dettur mér líka í hug Vatnsenda-Rósu, sem ég myndi setja á listann fyrir ofan Vigdísi.

þriðjudagur


Vísindatrú og Stebbi & Eyfi

Vísindatrú. Ég hélt að það væri trú fyrir vísindalega þenkjandi menn, þar sem lógík keyrði menn áfram í leit að algildum sannindum. En svo er ekki. Vísindatrú dregur nafn sitt af vísindaskáldskapi.

Mig langar til að segja, að vísindatrú sé trú fyrir bjána. En það ætla ég ekki að gera. Þegar trúmál er annars vegar, verður maður að stíga varlega til jarðar. Þess vegna ætla ég að sitja á mér í þetta skiptið, en segja lítillega frá trúnni.

Fyrir þá sem eiga erfitt með að tengja, er þetta trúin sem Tom Cruise er alltaf að fjasa um. Sama trú og John Travolta aðhyllist (og ég held Battlefield Earth fjalli um það). En hér eru helstu atriðin:

Um uppruna mannkyns:

Fyrir 75 milljónum ára, var geimvera sem hét Xenu. Hún stjórnaði ráði stjörnuþokunnar. Ósætti urðu til þess að hún ferjaði milljarða geimvera til jarðar, í geimskipi sem líktist Douglas DC-8 flugvél.

Reiðskjóti Xenu

Xenu staflaði geimverunum upp, í umhverfi eldfjalla, og sprengdi þær með vetnissprengju. Sálir geimveranna bráðnuðu saman og lentu á flakki, sem endaði með því að þær soguðust inn í líkama þeirra sem fyrir byggðu jörðina. Alla komplexa í nútíma-manninum, má rekja til þessa mikla atburðar fyrir 75 milljónum ára. Sálirnar eiga erfitt með að aðlagast líkömum sínum hér á jörðinni.

E-meter:

E-mælirinn mælir geðmassann (e. metal mass), sem er mjög fíngerð orka og af mjög háu eðlisfræðilegu stigi. Ég veit ekki alveg hvort ég skil þetta rétt, en mér skilst að mælirinn eigi að segja til um innra ástand sálarinnar (sbr. Meðfædda geimveruóreiðu sem hrjáir manninn). Sumir segja reyndar, að það eina sem hann mæli, sé hversu þétt viðkomandi einstaklingur kreisti handfang hans – en því hefur aðeins verið haldið á lofti af gagnrýnendum vísindatrúar.

Geðlæknar, sálfræðingar og geðlyf:

Ekkert af þessu virkar. Vísindakirkjan hafnar því að þessar rannsóknir séu vísindalegar. Og það er í raun réttri alveg hreint forkastanlegt, að ríkisstjórnir heimsins sólundi fjármagni í þessa dellu. Gæðrænar lækningaraðferðir voru orsök Fyrri heimsstyrjaldar, risi Hitlers og Stalíns, hnignun menntunar í BNA, Kosovo-stríðinu, hryðjuverkaárásunum á New York og eflaust mörgu öðru. En nú velti ég einu fyrir mér. Hvað orasakaði brjálsemi Xenu? Hún var uppi á þeim tíma, þegar innra jafnvægi lífvera var gott. Hvers vegna fór hún út af sporinu. Svaraðu því, Tom Cruise.

Ég ætla að stoppa hér umfjöllun mína um þessa ágætu trú. Mig langaði að beina spjallinu annað. Þeir sem eru enn forvitnir, geta skoðað wikipediu. Hún hefur öll svörin.

Ég sá að Stebbi & Eyfi ætla að gefa út nýja plötu fyrir jólin:


Ég veit ekki. Er ekki örugglega verið að tala um Eyjólf Kristjánsson? Það er ekki maðurinn þarna á myndinni. Er þetta ekki frekar gæinn þarna í lögregluþættinum? Ég held það.

mánudagur

Gutti

Það gerist örsjaldan, líklega bara nokkrum sinnum á ári, að ég fæ hláturskast sem ég get ekki stoppað. Það gerðist í gær.

Yfirleitt er grínið eiginlega ekkert fyndið, en hittir bara vel í mark hjá mér. Og þannig var það í gær. Vinur minn einn, var að segja norskri kærustu sinni frá Gutta:

Gutti is a... Hmm....? How can I say this... Well, Gutti is a very naugthy boy.

Og þetta var nóg. Ég grenjaði úr mér augun í óstoppandi hláturskasti. Maður á ekki að nota naugthy til að lýsa Gutta. Kannski óþekkum hjúkrunarkonum, en ekki Gutta.


Annars, svona, eftir á að hyggja, er síðasta færsla óskiljanleg (um snjóboltakastið). Það vantar eitthvað í hana. Punktinn, líklega. En ég var að hugsa um að útskýra hana ekkert frekar.

sunnudagur

Þó að aðrir kynnu að vera ósammála, þá er snjóboltakast óskaplega fyndið. Já, svo fyndið! (Svona, fyrir sem ekki vita, að þá er Reykjavík í kafi af snjó). En, jæja. Jæja já.

föstudagur

Woody í tilvistarkreppu (~19 mín). Gott stöff.



Þeir sem ekki hafa gaman af Woody, geta klikka á skyn-brelluna hér fyrir neðan. Hún er ágæt.

fimmtudagur


Stutt um prófkjör

Ég er á því, að Sjálfstæðismenn hafi gert mistök þegar þeir kusu
Árna Johnsen á lista Suðurkjördæmis. Þeir hefðu betur sleppt því.

Ágúst Ólafur hefði átt að stefna á 3. sæti Samfylkingarinnar. Hann hefði valtað yfir Jóhönnu, sem er, jahh, einfaldlega ekki nógu sterkur stjórnmálamaður.

Hvernig mun Framsóknarflokkurinn verða? Eftir að Halldór Ásgrímsson hætti, virðist flokkurinn vera samansafn af labbakútum. Þrír vega þó þyngra en aðrir: Jón Sigurðsson, sem á eftir að sanna sig. Guðni, sem ekki er tekinn alvarlega. Og Siv, sem hefur svipaða ásýnd og Jóhanna; bara ósköp hlutlaus. - Restin er brandari.

Ég spái því, að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin taki saman höndum eftir kosningar. Og það er bara ágætt. Framsóknarflokkurinn á ekkert erindi í ríksstjórn. Heldur ekki Vinstri-Grænir, þeir eru of öfgafullir, og ég myndi vilja hafa þá áfram í stjórnarandstöðu. Þar eru þeir góðir. Ég veit ekki hvað segja á um Frjálslynda. Fyrir utan skýra stefnu í sjávarútvegsmálum, er flokkurinn frekar illa skilgreindur.

Það má reyndar líka segja um Samfylkinguna, ég átta mig ekki almennilega á staðsetningu hennar. En hún hefur verið að gera ágæta hluti upp á síðkastið. Til dæmis er ég hrifinn af uppástungu hennar varðandi afnám verndartolla. Þar tóku þeir óvenju skýra afstöðu í erfiðu máli. (Ég skil
reyndar ekki af hverju Sjálfstæðisflokkurinn var ekki löngu búinn að stinga upp á þessu, þetta hefði alveg verið í takt við þá).

En jæja. Ég ætlaði að hafa þetta stutt.

miðvikudagur

Stríðið um ljósrofann

Í portinu úti er ljós. Rofinn sem stýrir því er inni í íbúðinni minni. Gamla konan sem leigir mér læðist alltaf inn til mín á nóttunni (á náttfötunum) og slekkur ljósið. Þetta er hinn fullkomni glæpur.

Ég hef portljósið yfirleitt slökkt, til þess að stoppa þetta næturbrölt kerlu. En nú er svo komið, að stundum er búið að kveikja þetta ljós þegar ég kem heim á daginn.

Þannig er, að í kjallarann er kominn nýr leigjandi sem notar portið til jafns við mig. Hann virðist, hef þó ekki staðið hann að verki, alltaf stelast í ljósrofann þegar ég er ekki heima.

(Tek fram að rofinn er ekki inni í stofu, heldur við stigann þar sem útiskórnir og yfirhafnirnar eru).

Þá lítur þetta svona út: Gamla konan og kjallaragæinn slökkva og kveikja ljósið á víxl, í mögnuðu laumuspili sem á sér stað í íbúðinni minni. Magnað.

Ég ætla ekkert að aðhafast, mér finnst þetta eiginlega bara fyndið. Það væri samt best ef einn daginn þau hittust í aksjón. Þá myndu þau kannski fara að rífast, jafnvel slást.
- En þá myndi ég stökkva á milli og segja öll réttu orðin og málið hlyti farsælan endi.

þriðjudagur


Pfaff

Ég rakst á eftirfarandi frétt í Mogganum (klikka á mynd til að stækka):

Þeir segja að Pfaff-Borgarljós sé misvísandi nafn. Ég spyr: Er nafnið Pfaff eitthvað skárra? Hvað er hægt að kaupa í búð sem heitir Pfaff? Jú, nokkrar pföffur, býst ég við. Og kannski einhverja pfeffa, ef maður er heppinn. - Nei, ég er á því að þeir hefðu geta fundið betra nafn.

Mér datt reyndar í hug nafn á fyrirtækið sem er verra: Sðeðn. (En þetta er samt bara aðeins verra.)

Update: Kemur síðan ekki í ljós, að ef maður flettir orðinu pfaff upp í orðabók er það útskýrt svo: „Samheiti yfir ýmiss konar tæknibúnað, s.s. símabúnað, hljóðtækni, raftæki, saumavélar og ljós.“ Þetta er alveg hreint ótrúlegt.

mánudagur

Enn um stjórn Bandaríkjanna

Í upphafi Íraksstríðsins birti Al-Jazeera viðtöl við bandaríska stríðsfanga. Þeir voru beðnir að segja deili á sjálfum sér og spurðir hvers vegna þeir væru í Írak.

Haukarnir í stjórn Bandaríkjanna, með Donald Rumsfeld í fararbroddi, áttu ekki orð yfir bíræfni Írakanna. Hvernig gátu þeir gengið svo hrottalega gegn Genfarsáttmálanum? Þar stendur skýrum stöfum, að koma eigi fram við stríðsfanga á mannsæmandi hátt, og að niðurlæging, í hvaða mynd sem hún birtist, sé ólögleg. Og síst af öllu má beita stríðsföngum í áróðurskyni! Hvernig voga þessir Írakar sér, að birta þessar myndir? Er þeim ekkert heilagt?

Mér finnst myndbandið sárameinlaust. Það er ekki þjarmað að þessum vesalings greyjum sem sitja fyrir svörum. Og spurningunni: „Af hverju komstu til Írak?“ Ætti að vera auðvelt að svara. Hermennirnir bera því við, að þeir séu handbendi stríðslorda Ameríku (eða eitthvað í þá áttina). Ég hef ekki velt því fyrir mér áður, en hefur þessari spurningu nokkurn tímann verið svarað fyllilega?

Hvað um það. Ég ætlaði að benda á tvískinnunginn. Á meðan Rummy nær ekki upp í nef sér af hneikslan, að Írakar skuli ekki virða Genfarsáttmálann, skellir hann skollaeyrunum við gagnrýni alþjóðasamfélagsins á nýrri skilgreiningu BNA á pyntingum (sem er á skjön við Genfarsáttmálann og ég skrifaði um í gær).

Svo má líka bera saman myndbandið hér að ofan, og eftirfarandi myndir úr fórum Bandaríkjamanna.

Guantanamo

Saddam fangaður

Lúsaleit og læknisskoðun

Saddam á nærbuxunum

Svo voru einnig birtar myndir af líkum Uday og Quasay, sonum Saddams, sem og líki Al Zarqawis.

Allt eru þetta myndir sem birtar hafa verið af Bandaríkjastjórn í áróðursskyni (nærbuxnamyndin á að hafa lekið, en vafalaust hefur stjórnin lokað augunum á meðan).

Miðað við myndbandið, þar sem bandarískir hermenn voru auðmýktir á svo ófyrirgefanlegan hátt, bersýnilega á skjön við alþjóðareglur, sýna myndirnar hér að ofan meiri niðurlægingu, svo ekki sé talað um áróðursgildi þeirra. Það væri forvitnilegt að spyrja Rumsfeld hvort þessar myndir standist Genfarsáttmálann, eða er hann bara heilagur þegar hentar Bandaríkjamönnum?

sunnudagur


Bush og pyntingar

Alltaf kemur það betur í ljós, hvílíkan afglapa George Bush hefur að geyma. Svo virðist vera, að hann styðji ruddalegar og siðlausar yfirheyrsluaðferðir Bandaríkjamanna. Segir þær þjóna hagsmunum föðurlandsins. Ég er ekki viss um að hann hafi hugsað dæmið til enda.

Risavaxinn Bush sýgur blóð úr hálsi Frelsisstyttunnar og horfir ögrandi
til New York. Tengist á ekki á nokkurn hátt því sem ég er að skrifa um.


Tæknin sem beitt er við yfirheyrslur, hefur verið gagnrýnd víða. Fangar hafa verið sviptir svefni, hitastig klefa þeirra lækkað (og hækkað?) óverulega og þeim loks drekkt í vatni. Í þýsku blaði las ég, að í einu tilfelli hafi þeir hótað að limlesta börn fangans. En það hef ég hvergi séð annars staðar.

Genfarsáttmálinn fjallar m.a. um réttindi stríðsfanga. Þar kemur fram að bannað sé að pynta.

Það sem Bush virðist vera að gera, er að skilgreina pyntingar upp á nýtt. Tekur ,,eigin nálgun" á viðfangsefnið. Hann segir
[1], að vissar yfirheyrsluaðferðir - eins og drekking - sé ekki pynting, vegna þess að sársaukinn sé ekki jafnágengur og í tilfelli líkamlegs sársauka (á líklega við þann sársauka sem á sér stað í pyntingu), til dæmis bilunar á líffæri. Samkvæmt ,,skilgreiningu" er hann ekki að pynta.

Málið er, að Bush sér ekki heildarmyndina. Það má vera, að aðferðir hans skili einhverjum árangri. Gott og vel. En þegar litið er til langs tíma, eru gjörðir hans ósniðugar. Þær eru fordæmisgefandi fyrir aðrar þjóðir. Ekki vill hann að Íranir eða N-Kórea skilgreini pyntingar upp á nýtt og eftir eigin höfði. Ónei.

Svo má líka skoðað málið frá hlið hermannsins. Samkvæmt skilgreiningu Bush, fellur þessi yfirheyrsluaðferð ekki undir ákvæði Genfarsáttmálans. Því hlýtur hún að vera lögleg í stríði. Og ekki er það nú skemmtileg tilhugsun fyrir litlu guttana í bandaríska hernum.

Tvö youtube myndbönd í lokin. Bæði sýna viðbrögð Bush þegar hann er spurður út í pyntingar.





[1]
Þetta eru reyndar ekki orð GWB, heldur af minnisblaði einhver generáls í bandaríska hernum, um hvað má og hvað ekki í yfirheyrslu. En þessar aðferðir hafa verið gúdderaðar af Bush. Og vafalaust hefur hann notað sömu réttlætinguna.

laugardagur


Kókómjólk

Á umbúðunum stendur: Látið endurvinna umbúðirnar. Skolið fernurnar að innan með vatni og fletjið þær út. Skilið umbúðunum í fernugám til endurvinnslu.

Yeah right...

Neðar á fernunni er mynd af Klóa með jólasveinahúfu. Hann óskar mér gleðilegra kókómjólkurjóla. - Gleðileg kókómjólkurjól, Klói minn.

Kókómjólk er ekki eini drykkurinn í jólaskapi. Á mbl.is var koma jólabjórsins boðuð - jólabjórs Vikings. Klukkan 22:00 ætluðu nokkrir staðir í Reykjavík að gefa fyrstu eintökin af þessum ágæta bjór.

Klukkan 21:55 voru flestir staðir bæjarins fullir. Klukkan 21:59:50 byrjaði niðurtalningin. 10... 9... 8... 7... 6... 5... 4... (gestur tóku andköf) 3... 2... 1... NÚNA!!

Allt trylltist! Blöðrur hrundu af himnum ofan og múgurinn öskraði Viking-lagið. Það er eeenginn bjór, jafngóóóður og Viking... Viking... Viking... Jóóóla-Viking!!! (endurtekið nokkrum sinnum). Maður í Jóla-Viking búningi renndi sér út á dansgófið í villtri luftguitarsveiflu. Andi jólanna sveif svo sannarlega yfir vötnunum.

Nei. Þetta er lygi.

Það sanna er, að við kíktum á Hverfisbarinn (þar sem búið var að kynna komu jólabjórsins). Á efri hæðinni var einkapartý. Á neðri hæðinni var líka einkapartý. Þannig að við settum í stigann milli hæða.

Klukkann 22:08 aulast einhver starfsmaður til að gefa okkur bjór. Engin stemning.
Fólk mikið að flakka á milli hæða. Þögn, myrkur og pirrað starfsfólk. Við sturtuðum þessu niður og fórum. - Gott múv að kíkja á þennan jólabjór, sé ekkert eftir því. Ætla pottþétt að gera það aftur á næsta ári.

Einkunn:
Jóla-kókómjólk: 8,5
Jóla-Viking: 5,0
Jóla-hjól (með Stebba Hilmz): Tjörguð hauskúpa.

föstudagur


A og B

Strax eftir fæðingu, eru tvíburar kallaðir A (fyrri) og B (seinni). Ég er með kenningu sem tengist þessu.

Fyrst þurfum við samt að
kíkja á pælingu sem Árni Georgs kynnti á síðunni sinni nú um daginn. Þar kom fram, að fylgni er á milli launa einstaklings og nafns hans.

Í stuttu máli má útskýra það svo: Illa menntaðir foreldrar eru líklegri til að velja einföld nöfn á börnin sín. Þeir eru einnig líklegir til að lifa við fátækt. Börn þeirra eru líklegri til að fara ekki í framhaldsnám, sem loks verður til þess að þau fá lægri laun greidd. Það er: Einföld nöfn ~ lág laun.

Dæmi um góð nöfn á hvítan dreng: Dov, Akira og Sander.
Dæmi um slæm nöfn á hvítan dreng: Ricky, Joey, Jessie.

Pælingin mín er á svipuðum nótum: Getur verið að tengsl séu á milli nafngiftar tvíbura og utanaðkomandi þáttar? Þ.e. hvor kom á undan í heiminn.

Ég þekki ekki marga tvíbura, en þeir sem ég get nefnt í svipan eru:

Ari og Bessi
Alda og Bára
Arnar og Bjarki

Ég skal ekki segja hvort að kenning mín sé rétt, en í versta falli er þetta fyndin tilviljun.

fimmtudagur

Rumsfeld hættur

Rumsfeld búinn að segja af sér, og þótt fyrr hefði mátt vera.

Rumsfeld í vandræðum þegar hann er spurður út í Íraksstríðið.

Í Kastljósi var rætt við Steingrím J og Guðlaug Þór um afsögnina. Steingrímur var vel yddaður og hitti naglann oft á höfuðið. Guðlaugur var öllu óskýrari og oft átti ég erfitt með að átta mig á því, hvert hann var að fara með mál sitt. Minnti á Dag B. Eggertsson hvað það varðaði.

Guðlaugur var spurður:
Kjósendur hafa hafnað stefnu Bandaríkjamanna í Írak. Ætli það sé von á einhvers konar stefnubreytingu hér á landi?

Hann svarar (inntak og samhengi þess gróflega tekið saman):

Sko. Málið snýst um þetta: Vesturveldin og Bandaríkin réðust inn í Afganistan og svo inn í Írak. Það sem að Rumsfeld gerði, var að endurskipuleggja bandaríska herinn í ljósi breyttra aðstæðna. Og í sjálfu sér gekk hernaðaraðgerðin inn í Írak ágætlega.

En hann hefur þótt hrokafullur. Til dæmis sagði Henry Kissinger að þetta hafi verið miskunnarlausasti maður sem hann hefði þekkti - þó að hann hefði hæfileika á mörgum sviðum. Þannig að Rumsfeld er sá maður sem er bæði elsti og yngsti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Hann hlustaði ekki á nein viðvörunarorð sem sneru að uppbyggingu Írak. Menn hafa reynslu frá Bosníu og Kosovo, um hvernig hugsanlega væri hægt að haga málum. Á það var ekki hlustað. Uppbyggingin hefur ekki gengið sem skyldi. Auðvitað eru þetta orðnir hlutir, en síðan er það spurningin hvernig menn vinna úr því. Því auðvitað hafa þessar þjóðir, sem að þessu stóðu, mikla ábyrgð gagnvart Írak. Verkefni dagsins í dag, er að henni farnist sem best (uppbyggingunni) og að menn fari að ná árangri í baráttunni gegn hryðjuverkum. Og að það verði sem friðsælast á þessu svæði.

Spurt var hvort von væri á stefnubreytingu á Íslandi? Hverju var Guðlaugur eiginlega að svara?

Ef ég ætti að giska, hefur hann skilið spurninguna svona: Ok. Guðlaugur. Segðu okkur aðeins frá aðdraganda stríðsins og hlutverki Rumsfeld. Hvernig kom hann mönnum fyrir sjónir? Hvaða mistök gerði hann? Og í kjölfarið á því, nennirðu aðeins að þvæla um stöðu mála í dag? Einhver misskilningur í gangi þarna.

- Nema þetta sé hans háttur: Að bulla sig í gegn um spurningar og nota orðaskrum sem skjól. Og þá er hann bara að fjasa um eitthvað. Ef svo er, er hann kominn í flokk með Ólafi Ragnari, Georg Bush og Degi B. Ég veit ekki enn hvort Ágúst Ólafur á heima þar, en leyfum honum að njóta vafans að sinni.

miðvikudagur


Takmarkanir og mörk

Einhvers staðar hljóta mörkin að liggja. Þá er ég að tala um almennt séð. Til dæmis, vitum við að menn verða aldrei hærri en fjórir metrar. Er það ekki nokkuð öruggt? Má ekki ganga að því sem vísu, að menn verði alltaf á bilinu [0 ; 4] metrar. Ég held það.


Ég var að tala um þetta um daginn og þá í tengslum við langstökk. Það hlýtur að koma að því, að menn geta ekki stokkið lengra. Það mun aldrei gerast, að maður muni stökkva 50 metra. Er ekki hægt, með nokkurri vissu, að skilgreina öll stökk á bilinu: [0 ; 15] metra.

En þetta eru alhæfingar um manninn almennt.

Mig langar að taka sértækara dæmi,
þ.e.a.s. mig sjálfan. Er maður ekki ansi vel skilgreindur? Fyrir utan stökk mín (sem muna ætíð vera einhvers staðar á bilinu [0 ; 15]), get ég með nokkurri vissu dregið mörg mörk. Til dæmis, myndi ég aldrei vilja vera með konu sem væri 2.36 cm á hæð. Ég bara gæti það ekki, ég veit það.

Mynd: Hæsta kona í heimi (2.36 cm) á ekki séns.

En hvað með 2.35? Nei, of stórt. En 2.34? Nei, nei, nei...

Svona gæti ég unnið mig niður á við, þangað til að ég
loksins kemst að einhverju marki. Sama gildur um dverga. Ég gæti ekki verið með dvergi (þessi er 65cm). Ekki nema þetta væri svona galdradvergur. Nei, hvað er ég að segja? Galdradvergur eða ekki: 65cm er of lítið.

Annað dæmi: Segjum að maður ætti eitthvað leyndarmál. Ok. Einhver spyr mann út í leyndarmálið. Svarið getur verið á marga vegu. Það er skilgreint á bilinu: [hreinn og klár sannleikur ; helber lygi]. Þetta eru tvær öfgar. Segjum að þær nái frá vinstri til hægri. Á leiðinni, frá vinstri til hægri, dofnar sannleikurinn, uns loks maður nær þeim punkti að sannleikur er orðinn að lygi. Það hlýtur að vera. Mig langar að vita hvar þessi punktur er.

Heimurinn er náttúrulega afstæður eftir því hver á í hlut. Til dæmis veit ég kvennamengi Tomma Haarde er allt öðruvísi en mitt (held það sé [2.07 ; 2.11] metrar). En ég væri nú samt til í að skilgreina heiminn fullkomlega fyrir sjálfan mig. Ég myndi skilja allt miklu betur, og þ.a.l. vera líklegri til að taka réttar ákvarðanir.


þriðjudagur


Draumur

Mig dreymdi einhvern tímann að ég væri nakinn í frumskógi einhvers staðar í Afríku. Það var afskaplega undarlegur draumur (og þá sérstaklega í ljósi þess, að ég er með eindæmum berdreyminn).

mánudagur


Grínað um Ísland

Í einum Seinfeldþættinum, talar Elaine um að eitthvað sé ill-góð breyting. Hún tekur dæmi: Þetta er eins og að flytja frá Íslandi til Finnlands. Hahaha...!

Í útvarpsþætti sínum, talar Ricky Gervais um að skammdegið sé ekki svo slæmt. Ekkert miðað við á Íslandi, þar sem nóttin varir alla 24 klukkutíma sólarhringsins. Svo byrjar hann að tala um moldvörpufólkið, sem er reyndar frekar fyndið.

Einhvern tímann sá ég breskan grínþátt, þar sem tvær jakkafatablókir voru að ræða saman. Önnur sagði: Þeir voru að veita mér sendiherrastöðu á Íslandi. Hin svarar: Núúú...? Fyrri segir: Hvað, finnst þér það eitthvað merkilegt? Ísland...? Og seinni svarar: Ohh... Ísland. Ég hélt að þú hefðir sagt Írland. Hahaha... Gæti ég fengið meira teeeeee...

sunnudagur

Nýtt útlit

Jæja. Er að prófa nýtt útlit á þessa ágætu síðu.


Pælingin er að gera hana les-vænni, en margir hafa kvartað yfir gömlu síðunni. Fólki fannst víst svolítið erfitt að lesa hana. Sjáum til hvort svart-á-hvítt sé ekki betra en hvítt-á-svart.

Hún er hálf tómleg eins og er, en það stendur til bóta.

--
Annars, til þess að svara ,,Finished files..." þrautinni hér að neðan, þá eru F-in sex. Ekki þrjú, eins og flestir halda.

föstudagur


Horfið á litla svarta punktinn á miðju myndarinnar í ~20 sek. Færið síðan músarbendilinn yfir myndina - haldið áfram að horfa á punktinn - ekki færa augun af honum. Ok. Myndin er í lit.

Þegar maður hreyfir augun, gerist nokkuð sem ég get ekki skilið. Myndin verður svart-hvít.


Þetta er einhver magnaðasta skyn-brella sem ég hef séð. Fyrir utan kannski þessa:

Hvað eru mörg F í eftirfarandi setningu? (Já, ég veit að eiginlega allir hafa séð þetta. Læt það samt fylgja með)

FINISHED FILES ARE THE RESULT OF YEARS
OF SCIENTIFIC STUDY COMBINED WITH THE
EXPERIENCE OF YEARS.

miðvikudagur


Ég fór á Grand Rokk að horfa á Barcelona – Chelsea. Þegar Eiður Smári skoraði stóðu allir upp og öskruðu Eiður, Eiður, Eiður...! Það er svoldið fyndið (því hann heyrir ekki í okkur, hahaha).